Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 16:47:26 (2214)

2002-12-05 16:47:26# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[16:47]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað á hv. þm. heima í Sjálfstfl. Hann smellur þar eins og flís við rass. Hann er í tilvistarkreppu og tækifærismennskan er allsráðandi. Sjálfstfl. leikur þetta leikrit gjarnan, að hafa svona eins og eitt, tvö stykki Einar Odd eða Pétur Blöndal, til að skapa sér fjarvistarsönnun frá vondum málum. Pétur Blöndal hefur auðvitað þagnað frá því í prófkjörinu, er kominn í ráðherrafötin. Enn þá leikur hins vegar lausum hala hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson til að skapa Sjálfstfl. fjarvistarsönnun þegar flokkurinn er skammaður fyrir of háa vexti, fyrir bruðl í ríkisrekstri, fyrir vonda fiskveiðistjórnarstefnu og svo mætti lengi telja. Hann er hér fjarvistarsönnunin frá hinum. En það gerir hann ekki stærri að leika þetta vonda leikrit. Þjóðin er löngu búin að sjá í gegnum þetta allt saman. Og guð forði okkur frá því, herra forseti, að fá slíka tækifærismennsku inn í flokk okkar jafnaðarmanna. Þangað fer hann ekki fet, þær dyr standa honum ekki opnar. Hann skal standa algjörlega klár gagnvart því.