Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 17:01:41 (2219)

2002-12-05 17:01:41# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[17:01]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum nú tekist á í löngu og miklu máli um hverjar afleiðingar fiskveiðistjórnarkerfisins eru og hvort þar megi breyta einhverju sérstöku með tilflutningi, reglugerðarsetningu eða öðru þess háttar.

Ég veit ekki hvort kjarninn í spurningu minni hefur farið fram hjá hv. þm. Ég var að forvitnast um það hvernig hún liti á það að ríkissjóður er að auka hlutfall sitt í vergri landsframleiðslu um 7% frá árinu 1996. Það var fyrsta heila árið sem sú ríkisstjórn sem nú situr, sat til dagsins í dag. Með öðrum orðum: Ríkissjóður er að taka 7% stærri bita af kökunni, þ.e. landsframleiðslunni. Það er kannski þetta, virðulegi forseti, sem ég er að reyna að fá skýringar á.

Ég ætla nú að biðja hv. þingmann um að hlýða á mál mitt því að það er dálítið óþægilegt að vera í andsvari ef hv. þm. hefur ekki tíma til þess að hlýða á ... (DrH: Ég er að hlusta á þig. ... gert allt í einu.) Hv. þm. var að fá ráðleggingar frá hæstv. fjmrh.

Spurningin er kannski þessi: Af hverju telur hv. þm. að ríkið sé betur til þess fallið að fara með þetta fé en fyrirtæki og einstaklingar því að ríkið er að taka stærri bita af kökunni til sín? Það er mikilvægt að þetta liggi fyrir vegna þess að hv. þm. var í ræðu sinni áðan að dásama ríkisstjórnina fyrir að lækka skatthlutfallið.

Ég held að þetta sé mikilvægt. Hvers vegna er ríkissjóður að taka svona aukið hlutfall af kökunni til sín og af hverju dásamar hv. þm. það sérstaklega?