Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 18:34:19 (2224)

2002-12-05 18:34:19# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[18:34]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Við höfum hlýtt á 3. umr. fjárlaga í dag, síðasta fjárlagafrv. þessarar bráðum átta ára gömlu ríkisstjórnar. Almennt má segja um þetta fjárlagafrv. að verið er að halda sig við þá stefnu sem hefur gilt mestan part þennan tíma en þó er ríkisstjórnin svolítið að reyna að gefa fyrir sálu sinni svona undir lokin. Það sést á ýmsum tiltektum síðustu daga og kannski þó einna helst á samningnum við forráðamenn aldraðra um daginn, en þá sá ríkisstjórnin sitt óvænna að koma að hluta til á móts við óánægju og kröfur aldraðra sem hafa borið skarðan hlut frá borði allan líftíma ríkisstjórnarinnar og vantar mikið á að þar hafi verið um bætt sem skyldi.

Þetta er auðvitað ekki til að hrópa húrra fyrir. Greinilegt er að í ríkisstjórnarsamstarfinu hefur Sjálfstfl. ráðið nokkuð ferðinni, en hitt verð ég að draga í efa að Framsfl. hafi verið mjög óviljugur í taumi.

Mér fannst satt að segja hálf ankannalegt og spaugilegt þegar framsóknarmenn héldu flokksráðsfund fyrir fáeinum dögum að þá birti Framsókn mynd af sér með félagshyggjuyfirbragði. Formaðurinn lýsti því yfir að Framsfl. væri félagshyggjuflokkur og vildi taka á í félagsmálum. Þetta gerir sá flokkur þegar fer að líða á áttunda ár þeirrar ríkisstjórnar sem hann hefur verið þátttakandi í.

Ja, bragð er að þá barnið finnur þegar ríkisstjórnarflokkur er farinn að átta sig á því að gera þurfi átak í þeim málefnum sem hann vill kenna sig við --- á áttunda ári ríkisstjórnarþátttökunnar.

Við samfylkingarmenn höfum verið að móta stefnu\-áherslur okkar þann tíma sem liðinn er af þessu kjörtímabili og í kosningabaráttunni þar á undan, sem næst fjögur ár. Samfylkingin hefur verið að birta þá mynd af sér smám saman út í þjóðfélagið og menn eru byrjaðir að átta sig á því núna hvers konar flokkur Samfylkingin er. Samfylkingin er flokkur jafnaðar en við höfum kosið að tala um atvinnu, velferð og menntun í samhengi til að leggja áherslu á það með hvaða hætti við viljum starfa að stjórn landsins. Við teljum að velferð eigi að vera almenningseign, hún eigi að byggjast á jafnræði og rétti þegnanna til þess að standa jafnir gagnvart öllu því sem hið opinbera hefur ráð á að stjórna.

Sú ríkisstjórn sem setið hefur hefur svo langt í frá litið á alla þegna sem jafna. Hún hefur þvert á móti lagt sig fram um að gera þá ríku ríkari á kostnað hinna sem minna mega sín, og meira að segja verið það ósvífin að í skattamálum hafa menn gengið fram með þeim hætti að þeir hafa verið að auka skattbyrðina á þeim sem hafa lægstar tekjur, en þeir sem hafa þær mestar hafa borgað minna og minna.

En þegar litið er á skattaálögur í heildina séð er mjög athyglisvert að sjá hvað hefur verið að gerast síðustu tvö árin. Skatttekjur ríkisins voru árið 2000 samkvæmt ríkisreikningi sléttir 200 milljarðar, 200.651 millj. kr. nákvæmlega. Samkvæmt þeirri áætlun sem liggur fyrir núna er gert ráð fyrir að þessar tekjur hækki um 37 milljarða frá því árið 2000 og þangað til á árinu 2003.

Þetta er auðvitað veruleg hækkun á tekjum ríkisins, en það sem er athyglisvert er að tekjuskattur einstaklinga, og sérstakur tekjuskattur einstaklinga samanlagt hækkar á þessu tímabili frá árinu 2000 til 2003 um 40 milljarða, sem sagt 3 milljörðum meira heldur en heildarhækkun skatttekna ríkisins. Öll er þessi hækkun á einstaklinga, á skatta einstaklinga, tekjuskatta og sérstaka tekjuskatta.

Til viðbótar við þetta má nefna eina tölu sem skiptir þarna verulegu máli, þ.e. tryggingagjöld sem eru lögð á atvinnureksturinn hækka á þessu tímabili frá árinu 2000 til 2003 samkvæmt áætluninni úr 19,7 milljörðum upp í 27,7 milljarða, um heila 8 milljarða.

Það vita auðvitað allir eftir umræður um tryggingagjaldið á undanförnum árum og hækkanirnar á því að hér er á ferðinni gífurleg hækkun á sköttum á þau fyrirtæki sem eru mannfrekust og þurfa mest á fólki að halda í veltu sinni og starfsemi. En þetta skiptir aftur á móti miklu minna máli fyrir alls konar fyrirtæki á viðskiptasviðinu sem velta miklum upphæðum en þurfa í sjálfu sér tiltölulega lítinn mannskap við starfsemi sína.

Þarna er á ferðinni hækkun í röð hækkana á tryggingagjaldi sem hefur verið að gerast núna á fáeinum árum. Áður en sú skriða byrjaði var tryggingagjaldið innheimt með nánast tveimur aðskildum hlutum þar sem annars vegar var um að ræða fyrirtæki í landinu sem greiddu hálft tryggingagjald og hins vegar fyrirtæki sem greiddu fullt tryggingagjald. Nú er búið að jafna þetta út þannig að öll fyrirtæki greiða sama tryggingagjaldið og sem síðan er búið að hækka þannig að í dag er það margfalt á við það sem áður var.

Menn bitu svo höfuðið af skömminni með ákvörðuninni um hækkun tryggingagjaldsins á síðasta hausti þegar tengt var saman lækkun tekjuskatts á fyrirtæki og hækkun tryggingagjalds, þar sem annars vegar var verið að hækka í raun og veru skattaútlát fyrirtækja á landsbyggðinni og þeirra sem þurfa mest mannskap við sinn rekstur, og hins vegar var verið að lækka skattana á þeim fyrirtækjum sem eru mestu gróðafyrirtækin og þurfa kannski minnst á mannskap að halda. Það var mikið ólánsskref sem þarna var stigið.

Ég nefndi áðan að Samfylkingin hefur kosið að kenna sig við atvinnulífið, velferðina og menntunina í landinu til þess að kynna fólki aðalhugsunina á bak við þá stefnu sem rekin er. Þetta endurspeglast að sjálfsögðu í þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Þar er verið að leggja áherslu á að taka þurfi á í menntmálunum og það er svo sannarlega ástæða til að gera það, vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig í þeim málum. Kannski er rétt að nefna alveg sérstaklega málefni framhaldsskólanna og menntaskólanna í landinu.

Ég verð að segja eins og er að mér finnst afar dapurlegt að sjá að ekkert skuli gerast sem um munar hvað varðar málefni þessara menntastofnana. Ég held að fundur í Skólameistarafélagi Íslands og Félagi íslenskra framhaldsskóla sem var haldinn 4. desember og sú einróma áskorun sem skólastjórarnir sendu til Alþingis segi sína sögu, þar sem skólastjórarnir fara fram á það að framhaldsskólunum verði bættar 250 millj. kr. vegna vantalinna nemenda og þar sem farið er fram á að gripið verði til aðgerða til að bæta upp uppsafnaðan rekstrarhalla upp á 300 millj. og fallið verði frá 370 millj. kr. flötum niðurskurði, eins og var í frv., og að nemendatölurnar í frv. verði leiðréttar, en þar vantaði 350 millj. kr. samkvæmt frv. Þar er engan veginn verið að koma til móts við þessa ályktun, enda hefur það verið þannig á undanförnum árum að ákveðnar greinar framhaldsmenntunar í landinu hafa farið halloka. Ég nefni sérstaklega til verkmenntaskólana í landinu sem hafa verið að berjast í þeirri von að barátta þeirra færi nú að bera árangur og menn færu að sjá ljósið í því að þjóðfélagið þyrfti virkilega á fólki að halda sem fengi menntun af þessu tagi.

[18:45]

Ég tók þátt í því þegar ég var í bæjarstjórn Akraness að stofna Fjölbrautaskólann á Akranesi, sem síðar hlaut nafnið Fjölbrautaskóli Vesturlands. Menn lögðu Iðnskólann á Akranesi inn í þennan skóla og þeirri stefnumörkun var fylgt strax frá upphafi, síðan einnig með öðrum sveitarstjórnarmönnum af öllu Vesturlandi, að skólinn ætti að leggja mikla áherslu á verkmenntun. Fram á þennan dag hafa menn barist í að reyna að halda þessa braut en stjórnvöld landsins hafa ekki sýnt skilning á þörfinni fyrir þann möguleika. Smám saman hafa þessir skólar og þeirra fyrirætlanir í þessum efnum verið að koðna niður. Menn hafa verið að leggja af hverja brautina á fætur annarri í þessum skólum. Við stöndum frammi fyrir því að raunveruleg úrræði og möguleika vantar til iðn- og verkmenntun í landinu.

Þetta sýnir í hnotskurn stefnu þeirra sem hafa ráðið ferðinni í menntamálum. Það þarf ekki að leita lengi að þeim sem ábyrgðina ber vegna þess að Sjálfstfl. hefur haft forustu í menntamálum í bráðum 12 ár. (Gripið fram í.) Ég tel að kannski megi segja að ályktanir og ábendingar skólamanna á undanförnum missirum og árum, og núna á þessu hausti, segi sína sögu um hve óskaplega mikið skortir á þann skilning sem ætti að vera fyrir hendi á þessari tegund menntunar.

Ég nefndi áðan að Framsfl. lýsti því yfir fyrir fáeinum dögum að hann væri félagshyggjuflokkur og gera skyldi átak í félagsmálum á næstunni. Það var ekki hægt að skilja það öðruvísi. Formaður flokksins lýsti þessu yfir á flokksstjórnarfundi og taldi sérstaka ástæðu til að gera það nú í lok þessa kjörtímabils. Framsókn, velferð, aldraðir --- ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst svolítið vanta upp á það að Framsfl. geti kennt sig við þessa hluti í dag. Mér finnst ekki líklegt að kjósendur kaupi þann kött í sekknum á þessum vetri að Framsfl. standi fyrir félagslegar úrbætur. Ekki hefur hann staðið sig þannig í dansinum við Sjálfstfl. á undanförnum átta árum að það sé ástæða til að menn treysti á að hann hafi skipt um skoðun.

Í dag hélt ræðu hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, einn af fulltrúum Sjálfstfl. í fjárln., varaformaður nefndarinnar til margra ára. Það er svolítið merkilegt að hlusta á þennan hv. þm. Hann mætir hér til umræðna í hinum ýmsu málum, m.a. í fjárlagagerð, t.d. þegar verið er að ræða um sjávarútvegsmál og önnur slík. Hann fer þá mikinn og gagnrýnir og lýsir því yfir að menn hafi verið á rangri braut, hans eigin ríkisstjórn og hans eigin flokksmenn. Ekki varð undantekning á því í ræðu hans í dag. Hann lýsti því yfir að mikið vantaði á aga í fjármálum og þar þyrfti að taka á. Þó að hann hafi verið einn af aðalstjórnendum í fjármálunum á undanförnum árum er staðan þessi.

Ég verð að segja eins og er, að mér finnst eiginlega óviðeigandi að þeir sem styðja ríkisstjórn haldi ræður af þessu tagi, út og suður um að þeir séu á móti stefnu ríkisstjórnarinnar en styðja hana svo þegar á herðir í öllum málum. Ég veit ekki til að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi farið gegn ríkisstjórn sinni þegar á atkvæði hans hefur þurft að halda. Ég átta mig ekki á því. Ég sé ekki að hann hafi aðrar tillögur en þær sem hér liggja fyrir þótt hann telji mikið vanta upp á aga í fjármálastjórn ríkisins.

Það sem mér þykir verst við þetta fjárlagafrv. er það sem ekki stendur í því. Ég hefði talið að í þessu fjárlagafrv. hefðu þurft að vera fjármunir til byggðamála, sérstaklega vegna hinna miklu fyrirætlana ríkisstjórnarinnar og stefnumörkunar í byggðamálum sem ríkisstjórnin hefur gengist fyrir. Þar eru býsna alvarlegir hlutir á ferð. Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun, hvort sem það gengur eftir eða ekki, um mestu framkvæmdir í sögu landsins í orku- og iðnaðarmálum á Austurlandi. Það er líka búið að taka ákvörðun um mestu framkvæmdir í vegamálum á þessu sama svæði.

Hér var samþykkt byggðaáætlun á sl. vori þar sem aðaláherslan var lögð á Eyjafjarðarsvæðið og Norðausturland. Hæstv. iðn- og viðskrh. sem nú er byggðamálaráðherra, hefur fylgt þeirri áætlun eftir með því að flytja verkefni frá Byggðastofnun yfir Tröllaskaga, norður í Eyjafjörð. Ég tek það fram enn einu sinni að ég er ekki á móti því að menn standi vel að byggðamálum á Norðausturlandi. En það er auðvitað ekki hægt að komast hjá því að benda á að fari sem horfir munu þessar ákvarðanir kosta það að önnur landsvæði fari halloka í samkeppni um fólk og möguleika í byggðum. Það er gjörsamlega ófært annað en að menn bregðist við með mótvægisaðgerðum á þeim svæðum sem veikast standa þegar svo horfir sem nú. Það bólar ekki aldeilis á því í þessu frv., að menn ætli að setja aukna fjármuni í byggðamál í öðrum landsvæðum til að vinna gegn þeim afleiðingum sem allir hljóta að sjá að muni verða af því að svo miklar framkvæmdir fari af stað á einu landsvæði, eins og að er stefnt.

Ég hefði viljað sjá í þessu frv. fjárhæðir sem hefðu verið ætlaðar til að flýta framkvæmdum í vegamálum, í skóla- og menntamálum á landsbyggðinni og ýmsum málum sem hefur t.d. verið barist fyrir af forráðamönnum á þessum landsvæðum. Þar hafa menn verið að biðja um fjármuni í atvinnuþróunarfélög, í sérstakar byggðaáætlanir, t.d. fyrir Vestfirði, og fjölmarga hluti sem gætu komið að gagni til að styrkja byggðirnar.

Þessir fjármunir hafa ekki fengist að neinu marki í þessu fjárlagafrv. Ég verð að segja eins og er, að mér finnst það ömurlegt og það hlýtur að vera erfitt fyrir hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, formann þingflokks Framsfl., að sitja undir því, enda hefur hann farið hér í ræðustól til þess að kvarta yfir því, að byggðamálaráðherrann skuli hafa flutt verkefni frá Byggðastofnun úr Norðvesturkjördæmi og í Norðausturkjördæmið yfir Tröllaskaga. Þau tókust á um þessa hluti og hann varð undir. Hv. þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem áttu að gæta byggðanna á norðvestursvæðinu hafa verið svo máttlausir og vesælir gagnvart skyldu sinni, sem er augljós, að þeir sitja eftir með að það stefnir í meira ójafnvægi í byggðamálum.

Ég fer ekki endilega fram á einhverja upphæð á fjárlögum vegna stöðunnar í atvinnumálum á Akranesi hvað varðar Sementsverksmiðjuna en úr því að ekki er talað um það mál hér á fjárlögum hefði mér fundist lágmark að fram kæmi af hálfu ríkisstjórnarinnar yfirlýsing um hvað hún ætlast fyrir. Auðvitað vita hv. þm. að einhvern tímann, í meðferð mála hér fyrir 3. umr., kom fram tillaga um að sett yrði inn í fjárlagafrv. að ríkisstjórnin hefði heimild til að selja Sementsverksmiðjuna í heilu lagi, allt hlutafé í henni. Þetta vita hv. þm. Þessi fyrirætlun er ekki til staðar. Þessari tillögu var kippt til baka.

Ég tel fulla ástæðu til þess að forustumenn ríkisstjórnarinnar upplýsi þingheim um hvað þeir ætlast fyrir. Hver var hugmyndin á bak við að setja þessa heimild inn í fjárlögin, sem aldrei varð þó af? Af því að menn hættu við þá heimild --- varla þræta menn fyrir það að átt hafi að setja hana inn --- hver var þá ástæðan fyrir því að menn hættu við það? Bendir ekki þessi ferill til þess að einhverjar ákvarðanir hafi verið teknar? Er ekki einhver stefna komin í málið? Er ekki full ástæða til að þingið og þjóðin fái að vita hvað er á ferðinni? Ég sé alla vega ekki neina ástæðu til þess að halda því leyndu sem menn ætla sér. Alltaf er best að ganga fram fyrir opnum tjöldum og taka á málum þannig að allir geti fengið tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri, styðja málið eða benda á betri leiðir.

Ég tel að það væri kannski ástæða til þess, vegna þess að hv. formaður iðnn. er kominn í salinn, að spyrja, hæstv. forseti, hvort ekki sé hægt að upplýsa þingheim um hvað gengur á, hvað ríkisstjórnin ætlar sér í málinu og hver ætlunin var með þessari heimild til að selja allan hlutinn í Sementsverksmiðjunni. Hvað ætlast ríkisstjórnin fyrir núna þegar hætt er við að biðja um heimildina? Það er vonandi eitthvað sem gæti gert mann rólegri yfir því sem er að gerast. Það er svo sannarlega málefni sem skiptir miklu máli fyrir Akurnesinga og reyndar miklu fleiri, hvernig fer fyrir þessu fyrirtæki sem rekið hefur verið í yfir 40 ár á Akranesi og framleitt sement fyrir landið.

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta fjárlagafrv. ríkisstjórninni líkt að mörgu leyti, þótt hún hafi reynt gefa eitthvað fyrir sálu sinni í lokin með framlögum af ýmsu tagi. Áætlunin gerir ráð fyrir því að þetta fjárlagafrv. komi út á núlli. Það er puntað upp á það með sölu ríkiseigna. Þess vegna er tekjuafgangur af frv. En ef við lítum til þess hvernig farið hefur fyrir fjárlagafrumvörpum á undanförnum árum er hreint engin ástæða til að reikna með því að þetta standist. Ég veit ekki hvort menn hafa lagt á sig að reikna út meðaltalið á því hvað fjárlagafrumvörp hafi farið langt af leið áður en orðið hafa að ríkisreikningi á undanförnum árum. En það virðist æðistór tala sem bætist við útgjöldin og tekjurnar vaxa sjaldnast jafnmikið og útgjöldin á leiðinni frá fjárlögum til ríkisreiknings.

En sem betur fer erum við að ræða hér síðasta fjárlagafrv. þessarar ríkisstjórnar. Maður getur þó alla vega lokið þessari ræðu sinni á jákvæðum nótum og einhverju haft til að fagna.