Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 19:02:42 (2225)

2002-12-05 19:02:42# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[19:02]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Við ræðum sem betur fer síðasta frv. hæstv. ríkisstjórnar til fjárlaga. Það er kannski það merkilegasta við þessa umræðu og það ánægjulegasta jafnframt að komið skuli að lokum þessa kjörtímabils og að það fari að sjá fyrir endann á störfum hæstv. ríkisstjórnar og að við förum að komast til kosninga sem allra fyrst og þjóðin fái að segja álit sitt á stöðu þjóðmála eins og þau eru í dag. Þau eru sem betur fer á mörgum sviðum afar ánægjuleg og jákvæð. En á allt of mörgum sviðum eru þau neikvæð. Þau eru þannig að á allt of mörgum sviðum er vitlaust gefið í þjóðfélaginu. Það er smánarblettur á þessu þjóðfélagi hvernig við förum með aldraða og öryrkja og þá sem minna mega sín. Þegar frv. til fjárlaga er lesið og áhersluatriði þar skoðuð og maður skoðar það með hliðsjón af því hvað hægt væri að gera við ýmsar upphæðir og ýmis verkefni sem þar eru og hvað hægt væri að gera fyrir þessa okkar minnstu bræður og systur þá fyllist maður eiginlega gremju.

Með öðrum orðum er svo sárgrætilegt að ekki skuli vera tekið á þessu atriði sem ég hygg að mikill meiri hluti alþingismanna á hinu háa Alþingi sé sammála um að þurfi að taka á. En það er bara einfaldlega ekki gert og við það á ég, herra forseti, þegar ég segi að kolvitlaust sé gefið í þessu þjóðfélagi og þá sérstaklega hvað þetta varðar.

Ég óska þess í raun að kosningarnar væru búnar og að hér væri komin til valda ríkisstjórn sem mundi hafa það sem eitt af sínum fyrstu verkum að lagfæra kjör aldraðra og öryrkja. Þá ætla ég ekki hér og nú --- til þess gefst tækifæri síðar --- að ræða um þær breytingar sem hæstv. ríkisstjórn var að boða í samkomulagi við Samtök aldraðra. Ég held einfaldlega að um það frv. og þær breytingar megi segja, herra forseti, að ekki er allt gull sem glóir. Ég óttast að margir aldraðir og öryrkjar verði fyrir miklum vonbrigðum þegar þeir fá seðilinn sinn 1. janúar í nýársgjöf frá hæstv. ríkisstjórn.

Við 3. umr. ætla ég ekki að endurtaka það sem ég sagði um tekjuhlið frv. við 1. umr. Ýmislegt hefur breyst í meðförum fjárln. og hæstv. ríkisstjórnar. Ber þar hæst að tekjuhlið hefur verið hækkuð. Þar kemur hið margfræga brennivínsfrv. fyrst fram, þar sem náð er í skatta af sölu á áfengi og tóbaki upp á 1.100 milljónir. Jafnframt eru á einhvern ævintýralegan hátt, óttast ég, eins og segir hér í nál., teknir upp úr töfrahatti 3 milljarðar í aukningu á tekjusköttum lögaðila, þannig að þeir hækka úr 5.250 milljónum í 8.250 milljónir. Áður hefur komið fram að í fjáraukalagafrv. þessa árs var tekjuskattur lögaðila líka hækkaður og það hefur komið fram að tekjuskattur lögaðila hefur verið vanreiknaður um, að mig minnir, 64% á þessu ári og því næsta. Það leiðir hugann, herra forseti, að þeim forsendum sem unnið er eftir í fjmrn. og annars staðar við að áætla tekjur. Allt of margt bendir til þess að hér sé verið að stoppa í gat, að verið sé að leita leiða til þess að láta fjárlögin líta betur út nú í aðdraga kosninga en annars ætti að vera. Auðvitað ber líka að harma það að hætt skuli vera við að lækka stimpilgjöld um 900 milljónir. Stimpilgjöld eru ákaflega ósanngjörn skattheimta sem rukkuð eru af t.d. ungu fólki sem er að kaupa sér íbúð í fyrsta skipti, fólki jafnvel í greiðsluerfiðleikum sem er að taka lán, litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem berjast í bökkum o.s.frv. Þetta er ákaflega ósanngjörn skattheimta. Þess vegna ber að harma að horfið skuli vera frá þessu.

Herra forseti. Fjárlagafrv. endurspeglar þær breytingar sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, t.d. í skattamálum. Ég vil því eyða nokkrum tíma í að ræða þær breytingar sem gerðar voru á liðnu vori við að lækka tekjuskatt lögaðila úr 30% í 18%. Í sömu andrá var eignarskattur lækkaður, bæði á lögaðila og einstaklinga. Það er af því góða vegna þess að eignarskattur er ákaflega ósanngjarn skattur. En sá böggull fylgdi skammrifi að tryggingagjald var hækkað um leið til þess að ná í tekjur. Það er þetta atriði sem ég vil enn einu sinni gera að umtalsefni vegna þess hvað þetta mismunar atvinnurekstri og einstaklingum milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Enn einu sinni er haldið áfram að auka misréttið milli íbúa landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Ég ætla að byrja á skattkerfisbreytingu gagnvart lögaðilum, tekjuskattslækkuninni.

Herra forseti. Hér hefur áður komið fram að þessi skattkerfisbreyting muni gagnast fyrirtækjum í Reykjavík og í Reykjanesskattumdæmi um 2.700 millj. kr. á næsta ári, á meðan atvinnufyrirtæki í öllum öðrum skattumdæmum landsins koma út á núlli. Breytingin á eignarskatti er einnig þannig, herra forseti, að hún mismunar mjög íbúum þessa lands. Þar ætla ég að nefna svar hæstv. fjmrh. við fyrirspurn minni á þskj. 476 þar sem spurt var út í hverjar heildartekjur ríkissjóðs af eignarskatti annars vegar og fjármagnstekjuskatti hins vegar hafi verið sl. fimm ár skipt eftir sveitarfélögum og kjördæmum. Hvað skyldi þar koma í ljós, herra forseti? Jú, þetta svar er sennilega eitt besta svar sem komið hefur frá ríkisstjórn um þá byggðastefnu sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur haft í heiðri í starfstíð sinni, byggðastefnu sem hefur verið þannig að nánast er ekki hægt að tala um hana. Þetta er byggðastefna sem hefur haldið áfram að mismuna fólkinu í landinu, byggðastefna sem hefur gert eigur landsbyggðarbúa verðminni og verðminni. Það er það versta. Ég hygg að á spjöldum sögunnar seinna meir verði þessarar ríkisstjórnar og byggðastefnu hennar minnst sem ríkisstjórnarinnar sem gerði eigur fjölmargra Íslendinga á landsbyggðinni nánast upptækar. Þetta er eignaupptaka.

Skal ég nú nefna nokkur dæmi máli mínu til sönnunar. Í þessu svari er sagt að eignarskattar einstaklinga og lögaðila í Reykjavík hafi verið 2.200 milljónir árið 1998. Árið 2002 eru þeir komnir upp í rúma 3.200 milljarða kr. Þeir hafa hækkað um 46% á þessum fimm árum. Hvernig skyldi þetta vera á landsbyggðinni? Eigum við að taka Norðurl. v. sem dæmi þar sem eignarskattar einstaklinga og lögaðila voru 110 milljónir árið 1998, en árið 2002 114 milljónir? Þetta er aðeins hækkun um 3%. Hvað endurspeglast í þessu svari, herra forseti? Eignaupptaka, verðfall fasteigna og sú eyðibyggðastefna sem hæstv. ríkisstjórn hefur fylgt með aðgerðaleysi sínu oft og tíðum. Og það versta er að þegar þeir hafa gert eitthvað þá hafa þeir gert það frekar óhönduglega þannig að það hefur bitnað á íbúum landsbyggðarinnar.

Svo kemur fram frv. sem á að lækka eignarskatta fólks. Eignarskattar fólks voru lækkaðir úr 1,2% af skattstofni í 0,6% og við það áttu eignarskattar ríkissjóðs að lækka um 4,4 milljarða kr. Hver verður hagnaður íbúa Norðurl. v. af þessari skattkerfisbreytingu? Hann verður lítill sem enginn. Svona væri hægt að fara í gegnum hvert einasta kjördæmi og skoða þessi mál.

Ef við förum í fjármagnstekjuskatt einstaklinga þá má lesa nákvæmlega það sama út úr þessu svari. Í Reykjavík hefur fjármagnstekjuskattur einstaklinga sem var 664 milljónir árið 1998 farið upp í 1.865 milljónir árið 2002. Nákvæmlega sömu eða svipaðar tölur má lesa út úr fjármagnstekjuskattinum gagnvart öðrum kjördæmum samanber það sem ég vitnaði í áðan.

[19:15]

Þessi skattkerfisbreyting, eins og ég hef margoft sagt hér á hinu háa Alþingi, mismunar íbúum þessa lands. Hún gagnast íbúum höfuðborgarsvæðisins, hún gagnast ekki íbúum landsbyggðarinnar, þeir fá ekki að njóta ávaxtanna af þessari skattkerfisbreytingu sem ríkisstjórnin er sífellt að hæla sér af, þ.e. skattalækkun lögaðila, eða eignarskattsbreytingunni og eigum við örugglega eftir að ræða síðar um þau atriði.

Ég hugðist ræða hér ýmis mál sem í fjárlagafrv. eru og tengjast byggðamálum og málefnum landsbyggðarinnar, herra forseti, og ég ætla aðeins að segja það áður en lengra er haldið að mér finnst mjög eðlilegt að hæstv. ráðherra byggðamála skuli vera með fjarvist í dag. Það gerir það hins vegar, herra forseti ...

(Forseti (HBl): Menn geta nú þurft að bregða sér frá.)

Já, og menn geta líka valið þá daga sem þeir vilja bregða sér frá. Ég hygg að þessi dagur sé sérstaklega ánægjulegur fyrir hæstv. iðnrh. að bregða sér frá og vera ekki viðstödd umræðu á Alþingi um frv. til fjárlaga fyrir árið 2003. Það gerir það auðvitað að verkum að hér er ekki hægt að spyrja ráðherrann fjarverandi út úr og spyrja um öll þau stóru orð þar sem verkin áttu að tala í byggðaáætlun, þessu litla plaggi sem samþykkt var hér í vor. Ég man ekki hvort það voru 21 eða 22 línur, skiptir sennilega ekki máli. Það er ómögulegt að ræða þau málefni, þau sviknu loforð og allar þær hugmyndir sem hæstv. ráðherra var með sem áttu að koma fram í fjárlagafrv. og sem sér ekki stað. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, og ítreka það sem ég sagði, ég skil ráðherrann vel. Ég sakna þess að geta ekki átt orðastað við hana og að geta ekki lagt fram þær spurningar sem ég hefði viljað bera upp um málefni landsbyggðar gagnvart fjárlagafrv. og öll þessi stóru og miklu áform sem hæstv. ráðherra hafði og sem áttu að koma fram í þessum fjárlögum en sér ekki stað.

Það er með öðrum orðum, herra forseti, ekkert nýtt í þessu frv. Ýmislegt er hér fært á milli, fært frá einum stað til annars til að láta líta betur út, t.d. með eignarhaldssjóðina. Ég minni á að hér í morgun var ansi merkileg umræða þegar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, formaður þingflokks framsóknarmanna, kom með innlegg sitt í þessa umræðu og ræddi um það hvernig hlutir væru færðir á milli og hvernig þetta var greinilega gert án þess að nokkur vissi af.

Í þessu fjárlagafrv., herra forseti, eru nokkrar krónur til byggðamála. Hæstv. byggðamálaráðherra fær falleinkunn fyrir störf sín gagnvart fjárlögum og byggðamálum, og ég ítreka enn það sem ég sagði, það er eðlilegt að hæstv. ráðherra sé í burtu, hafi brugðið sér austur á land til að vera viðstödd það sem er jú kannski eina málið sem hægt er að hæla fyrir, að taka brú í notkun vegna fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda á Austurlandi og það sem þar er í gangi.

Í þessu fjárlagafrv., eins og ég segi, herra forseti, er ekki orð um kannski mikilvægasta byggðamálið í dag, sem er að gera þær breytingar sem þarf að gera til að lækka flutningskostnað. Það er að mínu mati eitt mikilvægasta byggðamálið í dag. Flutningskostnaður hefur stórhækkað á undanförnum árum út af ýmsum aðgerðum og ákvörðunum hæstv. ríkisstjórnar, kostnaðarhækkunum sem hafa farið þráðbeint út í verðlag flutningsaðila og í raun og veru ekkert óeðlilegt við það. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, herra forseti, í ræðum mínum um þetta mál að það sé tiltölulega auðvelt að lagfæra og ef ríkisstjórnin hefði haft áhuga á að gera eitthvað í því hefði þess átt að sjá stað í fjárlögum. En svo er ekki. Og þá er ég auðvitað að tala um það að afnema og lækka skatta af flutningafyrirtækjum og þungaskatt til þess að lækka flutningskostnað. Það tel ég vera skjótvirkustu leiðina.

Það hefur komið í ljós, herra forseti, í gögnum sem ég hef undir höndum og hef séð frá flutningafyrirtækjum að allt að helmingur af tekjum flutningafyrirtækja fer beint til ríkissjóðs í formi ýmiss konar skatta. Er eitthvað tekið á því hér? Nei. Sér þess einhvern stað í verkefnaskrá ríkisstjórnar? Nei, ekki heldur.

Í rúmlega eitt ár hefur starfað nefnd sem hefur fjallað um þetta en ekkert er komið fram. Það er svo með ýmislegt annað líka, herra forseti, hæstv. ríkisstjórnin gerir ekkert í þeim málum sem snúa að landsbyggðinni. Hæstv. félmrh. orðaði það á mjög virðingarverðan hátt þegar hann sagði að Framsfl. eða ríkisstjórnin hefði gleymt byggðamálum.

Eitt er það atriði í viðbót, herra forseti, sem rétt er að hafa í huga að breytist mjög á þessum síðustu tímum. Það snýr líka að málefnum landsbyggðarinnar, það snýr að málefnum fjarkennslu sem hæstv. ríkisstjórn hefur stundum gumað af og hælt sér af að væri í mikilli uppsveiflu, væri mikil aukning í o.s.frv. Á fundi, herra forseti, sem stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra átti með okkur þingmönnum Norðurlands vestra hér í dag var rætt um þessi málefni. Þá kom það fram, herra forseti, að kostnaður við sjúkraliðanám í Norðurl. v. í gegnum Fjölbrautaskóla Norðurl. v. á Sauðárkróki er orðinn slíkur að hann er að verða skólanum og sveitarfélögunum og þeim sem námið stunda fjárhagslega ofviða. Með öðrum orðum hefur ýmislegt verið gert á síðustu tímum, síðustu mánuðum, síðustu missirum sem ég kann ekki alveg að útskýra hvað er en það sem gert hefur verið hefur haft í för með sér að þessi kostnaður hefur stóraukist og var orðinn um 400 þús. kr. í septembermánuði, bara á þessum stað, bara í þessu kjördæmi. Þetta eru einhverjar tölur, einhver nýtilkomin tengigjöld sem fóru áður í gegnum byggðabrú en fara einhverja aðra leið núna þannig að kostnaðurinn samkvæmt samningi milli menntmrn. og Landssíma Íslands er 1.600 kr. á hverja klukkustund á hvern tengistað. Er þetta eitthvað í takt við það sem ríkisstjórnin hefur stundum sagt á hátíðisdögum, að hún væri að beita sér til þess að auðvelda fjarkennslu og þau mál á landsbyggðinni?

Á tyllidögum var þetta gert. Fjöldi manns hefur skráð sig í þetta nám og er í því. En svo er komið aftan að því fólki sem stundar námið með þessari óheyrilegu skattheimtu sem, eins og ég segi, herra forseti, ég get ekki skýrt betur út vegna þess að þetta mál er svo nýtt. Engu að síður vildi ég nefna það hér í þessari ræðu á þessum tímapunkti undir þessum lið vegna þess að við ættum auðvitað að sjá þess stað í fjárlögum að það væri tekið á þessum málum og það væri verið að vinna í þeim eins og hæstv. ráðherrar hæla sér stundum af að verið sé að gera.

Þetta er sem sagt, herra forseti, að fara á verri veg og ekkert bólar á jöfnun á leigulínuverði og öðru slíku sem lofað hefur verið, enn eitt atriðið gagnvart landsbyggðinni sem hefur verið svikið.

Herra forseti. Skýrt hefur verið frá samkomulagi ríkis og sveitarfélaga sem felst í því að ríkissjóður tekur að sér þau 15% sem áður hvíldu á sveitarfélögum við byggingu og viðhald sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Hæstv. félmrh. hefur sagt að samkvæmt áætlun muni það kosta 100 millj. á ári. Jafnframt var gerð þannig breyting á húsaleigubótum að áfram komi peningur til sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þannig að um 55% fari frá ríkinu. Þetta er góðra gjalda vert svo langt sem það nær. En ég vildi aðeins halda því til haga og nefna að hér er ekki tekið á þeim þætti sem snýr að sveitarfélögunum, og þá á ég auðvitað við annars vegar aukin gjöld sveitarfélaga vegna hækkunar tryggingagjalds, sem verður töluvert há upphæð, og hins vegar tekjutap sveitarfélaga þar sem útsvarsstofn minnkar vegna breytinga í einkahlutafélög.

Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, hefur sagt í blaðaviðtali að sambandið áætli að sveitarfélögin muni verða af einum milljarði kr. í útsvarstekjur vegna þessara skattkerfisbreytinga. Þetta hefur áður verið rætt hér og bent á þetta af þeim sem hér stendur gagnvart þeirri skattkerfisbreytingu og þeim breytingum sem gerðar voru á sl. vori í þessa veru. Á þessu er ekki tekið nú.

Á mánudaginn var spurði ég hæstv. félmrh. út í þetta mál og þá kom auðvitað í ljós að ekki væri tekið á því og það ekki rætt á samstarfsvettvangi þeim sem ég vitnaði til áðan. Með öðrum orðum, þetta er enn eitt atriðið sem bíður næstu ríkisstjórnar. Þessu er frestað, það er ekki tekið á því, sveitarfélögin verða af miklum tekjustofnum en þau þurfa áfram að sinna sinni þjónustu enda er frekar erfitt að draga úr henni. Sveitarfélögin munu svo vafalaust verða hundskömmuð af ríkisstjórnarflokkum og öðrum fyrir það að vera óábyrg í fjármálum en ég bendi á það jafnframt að sífellt er verið að skerða tekjustofna með ákvörðunum Alþingis, ákvörðunum ríkisstjórnar, sem gerir það að verkum að tekjustofnar sveitarfélaga eru orðnir mjög litlir. Auðvitað koma þessar breytingar allar mjög illa við hin litlu sveitarfélög úti um allt land sem berjast við það að ná endum saman, sem berjast við það að lágmarksþjónusta sem þau veita íbúunum kostar samt sem áður það mikið að hún tekur 90--98% eða jafnvel allar skatttekjur viðkomandi sveitarfélags. Og þegar það er á þann veg, herra forseti, að þessi litlu sveitarfélög, litlu byggðarlög, þurfa að fara að skera niður ýmsa þjónustu sem telst sjálfsögð í öðrum og stærri byggðarlögum vitum við að þetta verður ekki til þess að auka veg þessara sveitarfélaga og það verður ekki til að auka ánægju íbúa viðkomandi sveitarfélaga.

Herra forseti. Mig langar að taka fyrir nokkur atriði í brtt. þeim sem 1. minni hluti fjárln., félagar mínir úr flokki jafnaðarmanna, hv. þm. Gísli S. Einarsson, Einar Már Sigurðarson og Margrét Frímannsdóttir, flytja hér í brtt. sem hefur verið gerð grein fyrir. Kem ég þá fyrst að tillögu um jöfnun námskostnaðar. Í brtt. er gerð tillaga um að fjárveiting í þennan málaflokk aukist um 58,1 millj., þ.e. fari í 500 millj. kr. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 441,9 millj. kr. sem skiptast í jöfnun námskostnaðar og síðan í akstur. Hér er lagt til að þessi liður aukist og er það í takt við þær tillögur sem voru gerðar hér fyrir nokkuð mörgum árum, sem þó er eitt af þeim fáu atriðum --- sem ég vil halda skýrt fram og hef áður sagt --- þar sem hefur verið stigið í átt til þess að standa fullkomlega við þær tillögur sem svokölluð byggðanefnd forsrh. gerði, að bæta fé á þennan fjárlagalið um jöfnun námskostnaðar.

[19:30]

Ég tel hins vegar að hér vanti á endahnútinn. Það hefði þurft að bæta við 50--100 millj. í þennan fjárlagalið til að standa fullkomlega við þetta. Ég vil halda því til haga að vegna fjölgunar nemenda hefði þurft að hækka þetta meira. Þess vegna er þessi brtt. gerð. Við vitum að þetta vegur þungt hjá fólki á landsbyggðinni sem þarf að senda unglinga sína í önnur byggðarlög í framhaldsskóla, fólki sem býr ekki við framhaldsskóla í næsta nágrenni. Fólk gerir ekki kröfur um framhaldsskóla í sínu byggðarlagi en gerir kröfu um fullkomið jafnrétti milli íbúa þeirra byggðarlaga sem eru með framhaldsskóla í sínu byggðarlagi.

Þetta er ákaflega mikilvæg tillaga, herra forseti, um ákaflega mikilvægt mál. Hún sýnir að það er hægt að fara jöfnunarleiðir í fjárlögum og í gegnum skattkerfið til að jafna útgjöld fólks sem býr á landsbyggðinni gagnvart íbúum á öðrum stöðum þar sem framhaldsskólar eru, eins og ég hef tekið hér sem dæmi. Það er með öðrum orðum, herra forseti, óþolandi misrétti milli íbúa þeirra sveitarfélaga sem ekki hafa framhaldsskóla og þeirra sveitarfélaga þar sem unglingarnir, börnin manns, geta gengið yfir götuna í framhaldsskóla sem ríkið rekur og ríkið byggir, að íbúar smærri sveitarfélaga greiði á bilinu 350--450 þús. kr. fyrir að senda unglinginn sinn í framhaldsskóla.

Ég gæti trúað að í kringum 160 þús. kr. komi til baka til hvers nemanda í dag. Þá stendur þó enn allt of mikið út af. Þetta vildi ég nefna, herra forseti, vegna þess að þetta er eitt af þeim fáu atriðum þar sem ég get hælt núverandi ríkisstjórn fyrir aðgerðir í byggðamálum og fyrir að standa við þær tillögur sem ég hef vitnað til, sem svokölluð byggðanefnd forsrh. lagði til. Þegar verið var að troða kjördæmaskipuninni hér í gegnum þingið voru lagðar til tillögur af nefnd sem var skipuð fulltrúum allra þingflokka. Nefndin var sammála, þetta voru þverpólitískar tillögur, þær voru eins konar bráðatillögur sem áttu strax að komast í framkvæmd. Þetta er eitt af því fáa sem þar hefur verið gert. Samt sem áður vantar örlítið á. Þetta hef ég rætt í hvert skipti sem fjárlög hafa verið gerð. Það hefur þokast en örlítið vantar á og ég hygg að það vanti á bilinu 50--100 millj. kr. til að standa við þetta. Samt sem áður er ekki nógu langt gengið og bíður seinni tíma að fá þennan lið hækkaðan.

Herra forseti. Undir lok þessarar ræðu minnar um fjárlög við 3. umr. vil ég taka fram að í þessu fjárlagafrv. er, eins og áður hefur komið fram, ýmsu ýtt á undan. Menn koma sér hjá því að taka á málum sem bíða í ýmsum ríkisstofnunum, skólum, sjúkrahúsum, dvalarheimilum o.s.frv. Fjárvöntun mun áfram verða í mörgum þessara stofnana til að halda uppi eðlilegri starfsemi.

Eins vil ég segja, herra forseti, að mér virðist ekki tekið á vanda sjúkrahúsa á landsbyggðinni á sama hátt og tekið er á vanda Landspítala -- háskólasjúkrahúss hér á höfuðborgarsvæðinu. Mér sýnist með öðrum orðum að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri verði áfram í miklu fjársvelti og þau gögn sem hv. fjárln. bárust frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri sýni að mikið vanti á að sjúkrahúsið geti haldið áfram eðlilegri starfsemi. Hér er ekki tekið á því fremur en ýmsum öðrum atriðum sem snerta sjúkrahúsarekstur á landsbyggðinni. Það er greinilegt, herra forseti, að hér hallar á. Það er ekki gert jafn vel við stofnanir á landsbyggðinni og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu.

Herra forseti. Rétt í lokin vil ég ræða einn lið sem ég hef ákaflega oft rætt á hinu háa Alþingi, sem snýr að umferðaröryggismálum. Þegar umferðaröryggisáætlun var samþykkt í vor tók ég þátt í þeirri umræðu og átti orðastað við hæstv. dómsmrh. um þau mál. Umferðaröryggisáætlun var töluvert metnaðarfullt og fallegt og gott plagg en sá galli var á gjöf Njarðar að engir peningar fylgdu. Við þá umræðu bað hæstv. dómsmrh. menn að bíða og sjá til hvað mundi birtast í fjárlögum. Nú eru fjárlög komin fram og ekki sér þess stað í þeim að miklu fé verði varið til umferðaröryggismála.

Mér þykir rétt, herra forseti, að lesa í lokin samþykkt sem gerð var á umferðarþingi sem haldið var 21. og 22. nóv. síðastliðinn. Þar var samþykkt ályktun, af þeim mikla fjölda sem sat þetta umferðarþing. Því miður áttu margir þingmenn ekki kost á því að sitja þar vegna anna. Ég gat ekki verið þar nema annan daginn, reyndar ekki nema hluta af þeim degi, en ég var þar þegar hóparnir skiluðu af sér og mér þótti athyglisvert að ein ályktunin sem þarna var samþykkt var beinlínis áskorun til Alþingis um að veita meira fé til umferðaröryggismála.

Ályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Umferðarþing haldið í Reykjavík 21. og 22. nóvember árið 2002 bendir á að fullnægjandi umferðaröryggisáætlun verður að innihalda fjárhags- og framkvæmdaáætlun og tryggja verður að til hennar renni nægt fé úr opinberum sjóðum. Umferðarþing lýsir vonbrigðum sínum yfir því að í fjárlögum fyrir árið 2003, sem nú er verið að afgreiða á Alþingi, verður nánast ekkert vart við aukna fjármuni til þessarar baráttu.

Umferðarþing skorar því á ríkisstjórn og Alþingi að lýsa því nú þegar yfir, að væntanleg áætlun um 40% fækkun umferðarslysa fyrir árið 2012 muni uppfylla framangreind skilyrði.``

Af þessum sökum flytur 1. minni hluti fjárln., hv. þm. Samfylkingarinnar, Gísli Einarsson, Einar Már Sigurðarson og Margrét Frímannsdóttir, brtt. um að 100 millj. kr. verði varið í öryggisaðgerðir í gegnum Vegagerðina sem ég hygg að fram hafi komið hjá flm. þessarar brtt. að séu hugsaðar til að auka það fé sem Vegagerðin hefur til að útrýma svörtum blettum á umferðaræðum okkar Íslendinga.

Þetta held ég, herra forseti, að hefði verið ákaflega mikilvægt vegna þess að því miður tekur umferðin enn þá allt of mörg mannslíf. Umferðaróhöpp og slys sem verða á köflum og svæðum sem vantar peninga til til að lagfæra. Ég vildi enda ræðu mína við 3. umr. fjárlaga á að ræða um þessi umferðaröryggismál og benda á þessa tillögu fulltrúa þingflokks jafnaðarmanna sem leggja til að bæta þetta mikilvæga atriði. Jafnframt harma ég að hæstv. dómsmrh., sem er ekki viðstödd, hafi ekki getað komið með fjármuni inn í umferðaröryggisáætlun í gegnum sitt ráðuneyti, til að vinna að umferðaröryggismálum, málum sem kosta peninga. Í stað þess skýlir hún sér bak við að peningar séu hist og her í fjárlögum, hjá Vegagerð og annars staðar, til að vinna að umferðaröryggismálum.