Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 21:48:43 (2230)

2002-12-05 21:48:43# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[21:48]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Segja má að undanfarin ár hafi ýmislegt vel til tekist í ríkisfjármálum. Annað hefur ekki tekist sem skyldi og má þar nefna t.d. það atriði að núna í ár erum við með minni hagvöxt en t.d. ríki Evrópusambandsins. Og það er áhyggjuefni að hagvöxtur á næsta ári er mun minni en t.d. er hjá hinum nýju ríkjum sem ætla að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Við höfum verið að dragast aðeins aftur úr núna hvað hagvöxt varðar. Þess má geta að mótorinn í hagvexti hjá okkur hefur fyrst og fremst verið aukin einkaneysla meðan krafturinn á bak við hagvöxt víða hefur m.a. verið aukinn útflutningur. Það hefur lengi verið vandamál í hagkerfi okkar hve lítið hefur tekist að fá útflutninginn sem hærra hlutfall af landsframleiðslunni. Það er merkilegt, herra forseti, að hlutdeild útflutnings í landsframleiðslunni hefur staðið í stað í 130 ár eða frá 1870, þ.e. hlutdeild útflutnings í landsframleiðslunni hefur verið u.þ.b. 30% allan þennan tíma þegar hann er mun hærri annars staðar.

Þá má einnig geta þess að útflutningur af hátæknivörum er mjög lítill hér í samanburði við önnur lönd sem segir okkur að við erum ekki enn að uppskera það sem við þyrftum í tengslum við hið nýja upplýsinga- og þekkingarsamfélag.

Einnig kemur glöggt fram í fjárlagafrv., sem hefur reyndar verið veikleiki undanfarin ár en er hluti af stefnu núv. ríkisstjórnar, að fé vantar í menntamál og meiri forgang vantar í menntamálin í stefnu núv. ríkisstjórnar. Við sjáum í fjárlagafrv. fyrir næsta ár að skólamenn, bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi, kvarta mjög yfir því ónóga fjármagni sem þeir hafa úr að spila á næsta ári. Þetta er alvarlegt þegar við tökum tillit til þess að nemendafjöldi hefur aukist mikið og honum þarf að mæta með meiri sókn í menntamálum en verið hefur undanfarin missiri. Því miður er ekki að sjá að stefnubreyting sé í þeim efnum í því fjárlagafrv. sem við erum hér að ræða.

Sömuleiðis vantar stefnu af hálfu ríkisstjórnarinnar í öðrum málaflokki, þ.e. heilbrigðismálunum. Það er alveg ljóst, herra forseti, að við þurfum að taka öðruvísi á heilbrigðismálunum. Þau eru orðin stærra vandamál en við gerum okkur grein fyrir. Vandamálið er nefnilega ekki beint skortur á peningum vegna þess að við verjum mjög miklu til heilbrigðismála í samanburði við nágrannalöndin og meiru en flest nágrannalöndin satt best að segja. Þetta er eiginlega sá málaflokkur þar sem við erum með alveg sambærileg útgjöld af landsframleiðslu og önnur lönd meðan við erum með lægra hlutfall t.d. í velferðarmálum og í menntamálum, ef borið er saman við næstu lönd. Því þarf að breyta skipulagi í heilbrigðismálum. Við höfum enn ekki borið gæfu til að finna hina réttu leið og einnig er greinilega uppi pólitískur ágreiningur í samfélaginu.

Í fjárlagafrv. kemur fram að gert er ráð fyrir vaxandi atvinnuleysi. Talað er um u.þ.b. 3% atvinnuleysi á næsta ári, þannig að atvinnuleysi er farið að verða hér aftur vandamál, sérstaklega hjá eldri borgurum eða eldra fólki sem missir vinnuna. Það er orðið mjög erfitt fyrir það að fá vinnu og hér endurspeglast enn og aftur andvaraleysi núv. ríkisstjórnar hvað þennan þátt varðar.

Einn helsti veikleikinn í hagkerfi okkar er lítill sparnaður. Hann hefur ekki verið nema 14--15% af landsframleiðslu undanfarin ár. Gert er ráð fyrir að hann fari í 19% en hann er samt töluvert undir nágrannalöndunum. Í Noregi t.d. er hann 36% og rúmlega 20% í Evrópusambandsríkjunum. Það er athyglisvert með sparnaðinn að hann var yfir 25% á árunum 1960--1980, en frá árunum 1990--2002 hefur hann legið í kringum 17%. Sparnaður í hagkerfinu stendur undir fjárfestingum og við höfum dregist aftur úr á því sviði að byggja betur fyrir framtíðina og það kemur einnig fram í öðrum liðum.

Nú er það svo, herra forseti, að opinber útgjöld eru ekki sérstaklega há hér á landi samanborið við aðrar þjóðir. Þau hafa verið innan við 40%, í kringum 38% núna hin síðari ár. Þess má geta að Evrópusambandið er með 44%, Norðurlöndin, sem við berum okkur oft saman við, eru með mun hærra hlutfall af landsframleiðslu sem opinber útgjöld enda með mun víðfeðmara velferðarkerfi en er hér á landi. Á margan hátt er okkar kerfi alls ekki sambærilegt við Norðurlöndin eins og við berum okkur oft saman við. Þar er einfaldlega ekki um réttlátan samanburð að ræða. Japan er með svipuð opinber útgjöld og við, en aðrar þjóðir --- það eru nú eiginlega bara Bandaríkin sem eru verulega lægri.

Mikil opinber útgjöld eru því ekki vandamál í hagkerfi okkar og hafa ekki verið mjög lengi þannig að tal manna um að allt sé að sligast af opinberri forsjárhyggju er einfaldlega ekki rétt. Við mættum þess vegna auka opinber útgjöld, þó að ég sé ekki að tala neitt sérstaklega fyrir því, en það eru ýmsir þættir í opinberri þjónustu, velferðarmálum og menntamálum sem við mættum auka við án þess að skaða á nokkurn hátt efnahagskerfi okkar.

Hins vegar er athyglisvert að helsta vandamál í hagkerfi okkar, og það hefur ekki verið rætt í þessari umræðu að ég held, er skuldaaukningin. Skuldir heimilanna hafa aukist mjög mikið. 1994 voru þær 120% af ráðstöfunartekjum, þær eru komnar upp í 180%, hafa sem sagt aukist um 50% á þessum tíma. Ef við förum aftar voru skuldir heimilanna 1980, fyrir 20 árum, einungis 20% af ráðstöfunartekjum. Ef við segjum að ráðstöfunartekjur heimilis séu 5 milljónir á ári, þá skuldaði þetta heimili fyrir 20 árum 1 milljón og þótti sjálfsagt mikið fyrir 20 árum. Nú skuldar þetta heimili 9 milljónir. Og það er umhugsunarefni, herra forseti, hvað við höfum aukið skuldir í samfélagi okkar og sérstaklega einstaklingar og fyrirtæki. Að vísu er einn aðili sem hefur verið að minnka skuldir sínar á undanförnum árum og það er ríkisvaldið. Menn gleyma oft að tala um að ríkið er hluti af hagkerfinu. Ríkisvaldið hefur verið að minnka skuldir sínar en aðrir opinberir aðilar og sveitarfélög hafa ekki gert það, alls ekki í sama mæli og sum þeirra aukið skuldir sínar verulega. En skuldir hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga hafa lækkað. En það er samt athyglisvert að bera það saman að þessar opinberu skuldir núna eru þær sömu og árið 1990, þ.e. fyrir 12 árum, eða u.þ.b. 20% af vergri landsframleiðslu. Þær hækkaðu mjög mikið á fyrri hluta tímabilsins, sérstaklega hjá ríkisvaldinu, og síðan dró úr þeim aftur.

Það áhyggjuefni sem ber hæst í mínum huga er hvað erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa aukist mikið. Þær voru árið 1997 eða fyrir fimm árum um 50% af vergri landsframleiðslu, landsframleiðslan er í kringum 800 milljarðar. Núna eru erlendu skuldirnar í kringum 100%, þ.e. í kringum 800 milljarðar. Þetta hlutfall hefur aukist, hefur tvöfaldast á einungis fimm árum. Hér er hæstv. fjmrh. ekki einn ábyrgur, alls ekki, það eru heimili, fyrirtæki, lánastofnanir og opinberir aðilar. Og vextir, herra forseti, til erlendra lánastofnana í fyrra voru hvorki meiri né minni en 42 milljarðar. Svo eru menn að koma hér í umræðunni og dæsa yfir kannski nokkrum tugum milljóna eða hundruðum milljóna. Bara vaxtagreiðslurnar til útlanda voru þessi upphæð. Menn geta rétt ímyndað sér það með svona miklar skuldir ef eitthvað gerist á erlendum mörkuðum hvað varðar vaxtakjör, þá hleypur þetta á milljörðum fyrir þjóðarbú okkar.

Nú má alls ekki sjá það fyrir sér að það sé alvont að skulda t.d. í útlöndum. Það er eðlilegt að taka lán til að fjármagna góðar fjárfestingar sem koma okkur til góða seinna, lífið byggist á því og hagkerfið. En það er greinilegt að mínu mati að við höfum farið býsna langt í því að taka erlend lán. Þetta er að vísu líka afleiðing af viðskiptahallanum sem var hér mjög mikill á árum áður, sem núna er að hverfa. Skuldastaða okkar er orðið efnahagslegt vandamál hjá okkur. Þó svo að eignir komi að hluta til á móti þá er fyllsta ástæða til að hafa gætur á þessu og vera varkár hvað þetta varðar því að allir Íslendingar þekkja það að skuldir geta verið mjög hættulegar.

Ef við tökum greiðslubyrði erlendra langtímaskulda sem prósentu af útflutningstekjum, þ.e. tekjunum sem við fáum inn fyrir útflutning, þá var greiðslubyrðin 48% árið 2001, eða í fyrra, en það hlutfall var ekki nema 11% fyrir 30 árum. Greiðslubyrðin hefur sem sagt aukist um fjórðung, og greiðslubyrðin segir okkur, eins og sagt var í gamla daga, hvað margir þorskar fara í afborganir af erlendum lánum. Vitaskuld segir þetta ekki alla söguna því auðvitað er hægt að dreifa greiðslubyrði. Við Íslendingar búum reyndar við það að við njótum mikils trausts í útlöndum og við njótum góðra vaxtakjara af hálfu opinberra og hálfopinberra lánastofnana erlendis og það er vitaskuld mikilvægt. En við þurfum samt --- vegna þess að við höfum góða stöðu og fáum þar með góð vaxtakjör, sérstaklega ríkisvaldið hér sem hefur sterka stöðu miðað við ríkisvald í mörgum löndum, skuldastaða ríkisvaldsins er góð hvað það varðar --- að gæta okkar á því hvað við erum komin með miklar skuldir utan hins opinbera geira í útlöndum. Það er ekki svo slæmt að skulda innan lands því vextirnir eru þá innan okkar hagkerfis, en það er verra þegar við erum að greiða af framleiðslu okkar í vexti til erlendra fjármagnseigenda.

[22:00]

Einnig bendi ég á það, herra forseti, að þegar ég sé svona fjárlagafrv. og þegar kemur að málum eins og utanríkismálum hefði ég viljað sjá --- það er persónulegt áhugasvið mitt --- miklu meiri sókn í sambandi við þróunarmál en þar höfum við Íslendingar staðið okkur vægast sagt mjög illa. Ég hefði líka viljað sjá í þessu frv. og í stefnu ríkisstjórnarinnar sókn til landa, núna hinna nýju landa í Evrópusambandinu sem við eigum góð og mikil tengsl við. Ég spyr: Af hverju í ósköpunum setjum við ekki á laggirnar sendiráð í Póllandi sem við höfum haft mjög góð tengsl við, viðskiptaleg tengsl, í áraraðir? Við höfum byggt skip, flutt út fisk og mjöl með meiru. Mjög margir Pólverjar eru búsettir hér á landi. Þetta er að verða ein helsta vinaþjóð okkar. (Gripið fram í.) Með sendiráði þarna sem mundi líka gæta hagsmuna okkar í Eystrasaltsríkjunum værum við að efla þá bandamenn sem gætu komið okkur að hvað bestu gagni í framtíðinni í þeim samruna sem er að eiga sér stað í Evrópu. Allar þessar þjóðir eru núna orðnar eða verða á næstu tveimur árum aðilar í Evrópusambandinu og í mínum huga væri nær --- þótt ég sé ekki mikið fyrir að stofna sendiráð --- að hugsa á þessum nótum en að setja upp þessa rándýru vitleysu sem var sett upp í Japan á sínum tíma og kemur ekki til með að gagnast neitt í samanburði við það sem ég var hér að nefna.

Ég vildi að lokum, herra forseti, nefna nokkur atriði þar sem skortir algjörlega á umbætur af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Það lýsir stöðnuninni hjá henni og hvað hún er ófær um að takast á við kerfisbreytingar. Hún hefur ekki gert neinar umbætur í landbúnaði. Við erum enn með sömu stöðuna í landbúnaði og við höfum haft undanfarin ár, þ.e. bændur, sérstaklega sauðfjárbændur, eru fátækasta stétt landsins, matarverð eitt það alhæsta í Evrópu og við höfum ekki náð að snúa þessari þróun við. Hér er gjaldþrotastefna ríkisstjórnar, hún getur ekki tekist á við þetta vegna hagsmuna sem liggja í flokkunum og er ekkert nýtt mál, hefur verið það um áratuga skeið, en þetta kerfi hefur hún ekki náð að stokka upp.

Alveg eins má rifja upp það sem ég nefndi um heilbrigðismálin. Þrátt fyrir nokkra umræðu, einmitt sérstaklega innan Sjálfstfl., um að menn reyni aðeins að stokka mál upp og taka til nýrra hluta í þeim efnum hefur sú umræða ekki farið á flot af neinni alvöru og endurspeglast ekki á nokkurn handa máta í þessu fjárlagafrv. Ég er ekki að tala fyrir því að menn eigi að einkavæða heilbrigðisþjónustuna, alls ekki. En það er algjörlega ljóst að þjóð sem stendur frammi fyrir því að vera yngsta þjóð í Evrópu með einungis 11% af íbúunum yfir 65 ára --- þetta hlutfall verður 22% eftir örfáa áratugi --- stendur frammi fyrir algjörlega nýju samfélagi hér á næstu árum. Þeim mun fyrr sem stjórnmálaflokkarnir reyna að ræða þessi mál, finna hvaða stefnu þeir geta lagt upp með til framtíðar, þeim mun betra. Ég undanskil minn flokk ekkert í þeim efnum, þar er skammt á veg komin umræðan í þessum málaflokki. Af því að málaflokkurinn er bæði mikilvægur og líka umfangsmikill, kostar mikla peninga, er þessi umræða nauðsynleg.

Eitt sviðið enn er hægt að benda á sem menn hafa ekki náð kerfisbreytingu eða samstöðu um með fólkinu í landinu. Það er í sjávarútvegsmálunum. Þeir hafa ekki náð að stíga þau skref sem við lögðum til hvað mest, að menn ættu að greiða sanngjarnt gjald fyrir afnot af veiðiheimildum. Þau litlu skref sem hafa verið stigin í þeim efnum hafa verið, að okkar mati, of lítil. Vitaskuld verður samt að hafa í huga að þar á var þó gerð breyting á síðasta kjörtímabili þótt ekki væri hún stór.

Það er svo merkilegt að málaflokkarnir sem mestu breytingarnar hafa orðið í, á viðskiptasviðinu, og sem að mörgu leyti hefur tekist að fylgja vel eftir eru til komnir vegna löggjafarinnar sem við urðum að taka upp í kjölfar EES-samningsins. Þar hafa orðið mestu kerfisbreytingarnar í samfélagi okkar, sennilega á síðustu 10 árum. Þetta fjárlagafrv. ber þess líka merki. Og þótt við getum örugglega sagt með sanni að ríkisstjórnin hafi kannski ekki spillt fyrir hlutum í neinum stórkostlegum mæli sl. 10 ár, hún er að ljúka öðru kjörtímabili sínu, eru tveir þættir sem hafa markað þessa efnahagslegu umgjörð meira en flest annað og hvorugt getur núv. ríkisstjórn þakkað sér. Annað er EES-samningurinn sem var á ábyrgð þáv. fráfarandi ríkisstjórnar og hitt er þjóðarsáttin sem reyndar enginn stjórnmálamaður getur þakkað sér, heldur var það framtak fyrst og fremst frá samtökum aðila vinnumarkaðarins.

Þetta var umgjörðin og þetta voru byltingarnar sem voru gerðar hér í hagkerfinu. Ríkisstjórnin hefði að mörgu leyti getað fylgt þessu eftir með þáttum sem gera það að verkum að við stöndum í sjálfu sér alls ekkert illa með okkar þjóðarbúskap í alþjóðlegum samanburði. Það blikka nokkur varnaðarljós og ég hef gert nokkur þeirra að umtalsefni, eins og það að atvinnuleysi er að aukast. Fyrst og fremst hef ég samt talað um skuldasöfnunina, skuldaaukninguna sem hefur einkum orðið erlendis, og líka hvað mér finnst ganga hægt að útflutningur nái hér meiri fótfestu til hagvaxtar en verið hefur.

Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin beitti sér á síðasta kjörtímabili fyrir verulegum skattalækkunum til fyrirtækja, og tók að ýmsu leyti forustu í Evrópu hvað varðar það svið. Ég tel að það hafi að mörgu leyti verið mjög skynsamleg stefna og ríkisstjórnin sé að uppskera nokkuð hvað það varðar í sterkri stöðu atvinnulífsins og fyrirtækja hér. Það er hægt að rökstyðja að ríkisstjórnin hafi kannski gengið of langt í þeim efnum, það getur alltaf verið mats- og útfærsluatriði. Það er kannski ekki höfuðefnið. Aðalmálið sem hér er eftir, verkefnið í skattamálum --- skattamál skipta gífurlega miklu máli --- er að lækka tekjuskattsprósentuna á einstaklingum. Það er komið að fólkinu í þessu landi ef menn hafa svigrúm til að lækka skatta og menn hafa það með t.d. upptöku auðlinda- eða umhverfisgjalda eins og við höfum margoft bent á, við jafnaðarmenn. Með breytingu á skattlagningu er hægt að lækka tekjuskattsprósentuna --- ég er ekki að tala um að hækka skattleysismörkin, það tel ég alls ekki ráðlega skattalega aðgerð --- sérstaklega á lægra tekjubilinu teldi ég mikið framfaraskref, alveg eins og það að reyna að búa til sértækar aðgerðir eins og er heimilt samkvæmt því frv. sem við munum afgreiða hér í sambandi við EES-samninginn, að gefa litlum og meðalstórum fyrirtækjum sóknarfæri. Við gætum gert það á næstu árum og þá mundu þessi fyrirtæki, eins og í flestum öðrum löndum, skila okkur vel fram á við.

Það er kominn tími til þess, herra forseti, að meiri gaumur verði gefinn að tveimur atriðum í samfélagi okkar, þ.e. einstaklingunum sjálfum og skattbyrði þeirra og líka litlum og meðalstórum fyrirtækjum þar sem sóknarfærin verða á næstu árum. Hvorugt þessara stefnumála er að finna í fjárlagafrv.