Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 22:16:17 (2235)

2002-12-05 22:16:17# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[22:16]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði um muninn á markaðshagkerfi og markaðssamfélagi. Til allrar hamingju er samfélagið ekki bara saman sett úr hagrænum þáttum. Við jafnaðarmenn viljum ekki að markaðslögmálin gildi á tilteknum sviðum, t.d. í menntamálum og heilbrigðismálum. Þar hefur hið opinbera mjög miklu hlutverki að gegna og það er að sumu leyti vaxandi verkefni. Hér skilur á milli jafnaðarmanna og annarra í Evrópu og að sumu leyti milli vinstri og hægri hér á Íslandi, þ.e. að hve miklu leyti menn vilja láta markaðslögmálin um þessa þætti. Við jafnaðarmenn erum opnir fyrir því að breyta rekstrarformum á einstökum þáttum í heilbrigðisþjónustu svo ég nefni dæmi. Það hefur ekkert með þessa grundvallarhugsun að gera. Menn verða að átta sig á því að um þetta snýst umræðan í Evrópu, þ.e. um þessi hugtök. Það er ekki ágreiningur um að við eigum að nota markaðshagkerfið til að ná sem allra mestu út framleiðsluþáttunum. Ágreiningurinn er um hvernig við skiptum þessari köku, að hve miklu leyti við látum hið opinbera sjá um tiltekna þætti, t.d. þætti sem eru okkur hv. síðasta ræðumanni kærir, m.a. velferðarmál sem er að mörgu leyti illa fyrir séð hér á landi. Þar höfum við á sumum sviðum dregist aftur úr, t.d. í menntamálum miðað við önnur lönd. Af þessum þáttum höfum við áhyggjur.

En þar er víglínan. Hún liggur ekki lengur á milli þess hvort menn vilji einkavæða ríkisfyrirtæki eða ekki. Við jafnaðarmenn, flestir hér á landi og allir í Evrópu, erum löngu hættir að tala um að fyrrum ríkisfyrirtæki eigi að vera áfram í ríkiseigu. Það er gamaldags umræða. Baráttan stendur um hvar menn ætli að láta markaðslögmálin gilda á þeim sviðum sem ég nefni, í heilbrigðismálum og menntamálum. Það er sú víglína sem á að tala um í þessari fjárlagaumræðu og í aðdraganda næstu kosninga.