Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 22:18:30 (2236)

2002-12-05 22:18:30# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[22:18]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ágústi Einarssyni fyrir spennandi ræðu að mínu mati. Ég er honum sammála um að mistekist hafi að skoða landbúnaðinn, sjávarútveginn og ekki síst heilbrigðiskerfið í heild til að marka framtíðarsýn í þeim málum hér á landi. Það er okkar stóra vandamál en ég vil spyrja hv. þm. hver hans sýn er á vandamálin í heilbrigðiskerfinu, þar sem við stöndum núorðið frammi fyrir milljarðagati á hverju missiri. Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann sé sammála þeirri aðferðafræði að taka svo að segja innan úr skepnunni með einkarekstrartilburðum hér og þar í kerfinu.

Ég tel að vinnubrögðin í sambandi við einkarekstrarform innan stofnananna á ýmsum sviðum valdi þessari skekkju vegna þess að ríkisstjórnin þorir ekki að fylgja sannri einkarekstrar- og einkavæðingarstefnu þar sem þjóðin vill það ekki. Þá langar mig að spyrja þingmanninn hver hans sýn er á þetta mál. Getur hann verið sammála mér um að þessi aðferðafræði, einkareknar deildir og það að taka innan úr ríkisrekstrarfyrirtækjum, geti hugsanlega kostað okkur marga milljarða eða milljarðatugi meðan á þeirri vegferð stendur, sem getur kannski tekið átta til tíu ár, í átt að hinni einu sönnu einkavæðingu sem margir auðvitað aðhyllast.

Ég vil fá sýn þingmannsins, skoðun hans á því og hvernig hann lítur á fjármálahlið þessa ferils.