Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 22:22:49 (2238)

2002-12-05 22:22:49# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[22:22]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er óánægður með svarið vegna þess að ég held að þetta sé miklu flóknara mál en við gerum okkur almennt grein fyrir.

Ég hef sjálfur staðið í opinberum rekstri og það er mjög stór ákvörðun að taka, og ekki síður að framkvæma, að fara úr opinberum rekstri í einkarekstur eða einkavæðingu á hlutum stofnana. Ég held að það að þjóna tveimur herrum innan ríkisstofnana sé mjög stór hluti af því vandamáli sem við eigum við að stríða í heilbrigðiskerfinu peningalega séð.

Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann geti ekki verið sammála mér um að þetta sé aðferðafræði sem Sjálfstfl. og Framsfl. nota til að fikra sig í átt að því að einkavæða heilbrigðiskerfið, vitandi á þessum tímapunkti að þjóðin vill ekki einkavæðingu. Það er talað um einkarekstur í bili. Einkarekstur sem farið hefur fram á ýmsum deildum um visst skeið leiðir náttúrlega til einkavæðingar í framtíðinni. En það mun kosta gríðarlega peninga ef menn vilja ekki horfast í augu við þær breytingar sem gerðar hafa verið á opinberum rekstri. Þetta er skólabókardæmi.

Ég spyrja þingmanninn og hvort hann geti fabúlerað um það að einhverju leyti: Hvað kostar þessi vegferð í raun og veru? Hún kostar okkur gríðarlega peninga og að mínu mati er þetta ein af meginástæðunum fyrir milljörðunum sem út af standa hvert missiri.