Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 23:16:09 (2242)

2002-12-05 23:16:09# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[23:16]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frv. til fjárlaga fyrir árið 2003. Það er nú orðið áliðið kvölds þannig að ég ætla ekki að setja á langa ræðu heldur vil ég fara í gegnum þær í brtt. sem ég og félagar mínir í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum ekki þegar fjallað um. Félagar mínir allir hafa farið yfir brtt. okkar hvað varðar fjárlögin nema það sem út af stendur og ég mun fylgja eftir.

Almennt séð, virðulegi forseti, valda þessi fjárlög mér mestum vonbrigðum vegna þess að þau gefa svo slæm skilaboð til landsbyggðarinnar sérstaklega. Í því sambandi hefur mikið verið talað um mál Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sem er hátæknisjúkrahús, hið eina utan höfuðborgarsvæðis. Það hefur ekki setið við sama borð og sjúkrahús í Reykjavík hvað varðar fjáraukalög og síðan fjárlög næsta árs. Að vísu verður að viðurkennast að inn í fjáraukalögin hafa verið settar u.þ.b. 50 millj. til viðbótar við 108 millj. þannig að það má segja að reksturinn fyrir 2002 sé betur settur en menn áttu von á. Það skakkar 17 millj. En við hljótum að gera skýra kröfu til þess að stofnun eins og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, og auðvitað öll landsbyggðarsjúkrahúsin, fái sömu meðhöndlun, náttúrlega sérstaklega Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þar sem lagt var upp með leiðréttingu á rekstri hjá hátæknisjúkrahúsunum.

Þetta er röng stefna og röng skilaboð hvað varðar landsbyggðina og þetta er líka rangt hvað varðar reksturinn. Hér eru menn sífellt að kljást við vandamál þess að vera endastöð í heilbrigðiskerfinu og þegar upp er staðið er þetta samfélagslega og efnahagslega ekki rétt pólitík og mjög andstæð landsbyggðinni.

Ég hef lúslesið þetta fjárlagafrv. og það veldur miklum vonbrigðum að mjög mikið af því sem að var stefnt í nýsamþykktri byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar er hvergi þar að finna. Menn hafa ekkert farið í þær samhæfingar sem þar var lofað og þar var stefnt að. Það er nú kaldhæðnislegast að ríkisstjórnin og þá sérstaklega byggðamálaráðherrann stærði sig mikið af því norður í Eyjafirði að nú ætti að gera sérstakt átak á Eyjafjarðarsvæðinu og stuðla að því að það yrði sérstakt vaxtarsvæði. Þegar maður les svo fjárlögin er bara talað þar um 20 millj. kr. sem eru notaðar í að stofna nefnd til þess að búa til nefndir. Þetta eru náttúrlega algjörlega ótæk vinnubrögð og vinna meira tjón en ef svona ásetningur væri alls ekki settur á blað eins og þarna var gert.

Ég lýsi líka mjög mikilli óánægju með að ekki skuli nú þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að létta á Rafmagnsveitum ríkisins vegna dreifbýlisveitna. Það er mjög ósanngjarnt og mjög röng skilaboð til landsbyggðarinnar, þéttbýlisstaða á landsbyggðinni, að þeim sé gert í gegnum notkun sína á þjónustu frá Rafmagnsveitum ríkisins að standa straum af hinni félagslegu þjónustu vítt og breitt um landið.

Við gerðum tillögur um það hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að inn í þennan félagslega þátt yrðu greiddar beint úr ríkissjóði 500 millj. kr. en það er u.þ.b. sú upphæð sem fyrirtækið sjálft hefur sagt að það þyrfti til að standa straum af hinni félagslegu þjónustu. Rafmagnsverð úti í dreifbýlinu á þéttbýlisstöðum er allt of hátt á orkuveitusvæði Rariks og íþyngir mjög öllum atvinnurekstri. Það er alveg makalaust að við skulum ekki á sameiginlegum grundvelli fyrir landið allt hafa tekið á þessum málum en lagt það einvörðungu á þéttbýlisstaðina að borga þennan brúsa í gegnum notendagjöld hjá Rarik.

Það er líka kaldhæðnislegt að í byggðaáætluninni var mikið rætt um og góð fyrirheit gefin um styrkingu atvinnuþróunarfélaganna. Þau voru komin með skekkju upp á 20 millj. kr. sem maður hélt að yrði lagfært en þess sér ekki stað. Þau fá rétt um 100 millj. kr. en þyrftu að fá 120 millj. miðað við verðlagshækkanir. Við höfum lagt á það mikla áherslu hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að atvinnuþróunarfélögin yrðu styrkt og vildum í tillöguflutningi okkar fara fram þar með 200 millj. kr. framlag.

Síðan eru önnur skilaboð eins og hækkun á póstþjónustunni sem kristallast í ríkisfjárlögunum vegna þess að félagasamtök vítt og breitt í samfélaginu finna fyrir hækkun póstburðargjalda um allt land og sækja um framlög til fjárln. sem grundvallast nær einvörðungu á því hvað póstburðargjöld hafa hækkað mikið.

Ég ætla að mæla hér að síðustu fyrir brtt. sem við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, Kolbrún Halldórsdóttir og sá sem hér stendur flytjum.

Tillagan hljóðar upp á að við 7. gr. komi nýr liður, með leyfi forseta:

,,7.11 Að verja allt að 150 millj. kr. til styrkingar almenningssamgöngum í samstarfi við sveitarfélög og heimaaðila á viðkomandi svæðum.``

Ég hef flutt þáltill. um almenningssamgöngur í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, það eru víða til skýrslur og úttektir á því hvernig megi haga nútímaalmenningssamgöngum sem fólk gæti sætt sig við og fyrir Eyjafjarðarsvæðið er búið að gera áætlun sem dekkar allt það svæði og líka fyrir Þingeyjarsýslur. Samkvæmt síðustu tölum var framlagsþörf t.d. til almenningssamgangna á Eyjafjarðarsvæði rétt um 35 millj. Það er tilsvarandi upphæð og Akureyrarbær setur í framlag til strætisvagnakerfis síns. Það er verið að vinna svona áætlanir víðar á landinu. Síðast en ekki síst er okkur mjög umhugað um að það verði stuðlað að því að vinna að breyttum og bættum almenningssamgöngum á Eyjafjarðarsvæði sem við teljum mjög mikilvægt.

Ég vil einnig hér í þessari ræðu mæla fyrir brtt. sem er flutt af þeim sem hér stendur og hv. þm. Jóni Bjarnasyni um að auka hlutafé í Sementsverksmiðjunni á Akranesi um allt að 500 millj. kr. Eins og allir vita hefur Sementsverksmiðjan hf. á Akranesi átt í gríðarlegri samkeppni við innflutningsaðila til landsins þar sem sement hefur verið flutt inn á því sem að margra mati er talið vera undirverð og jafnvel ,,dumping`` sem sé til þess fallið að gera verksmiðjunni erfitt fyrir og jafnvel að knésetja hana. Við teljum mikilvægt að verksmiðjan eigi möguleika á því að standa þessa samkeppni af sér og við sjáum líka fyrir okkur, eins og við höfum sett fram í þáltill., möguleika fyrir verksmiðjuna á að skipa veglegan sess í framtíðarhlutverki við förgun orkuríkra úrgangsefna sem falla til í þúsunda tonna tali og mundu henta vel sem brennsluefni í verksmiðjuna en að öðrum kosti þyrftum við sjálf að byggja verksmiðjur hér á næstu árum til þess að standa að förgun þessara efna.

Að síðustu mæli ég fyrir og kynni hér brtt. frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, þeim sem hér stendur og Guðjóni A. Kristjánssyni. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom inn á þetta mál reyndar í framsögu sinni áðan en það er varðandi framhaldsskóla Snæfellinga. Við teljum mjög mikilvægt að bjóða upp á grunnnám í heimabyggð. Það er stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og við teljum alveg upplagt að byrja þar sem menn eru komnir vel á veg með allan undirbúning eins og hjá framhaldsskóla Snæfellinga, og leggjum þess vegna fram tillögu um undirbúning að því að koma á framhaldsskóla þar. Það eru önnur sveitarfélög líka sem munu fylgja í kjölfarið og tileinka sér þessa stefnu, t.d. utanverður Eyjafjörður. Þar er mjög mikill áhugi, og víðar á landinu, og við teljum að það sé lykilatriði í menntastefnu landsins að ungmenni fái að nema í sinni heimabyggð eins lengi og kostur er og eiga a.m.k. kost á framhaldsnámi þar til 18 ára aldurs.

Þetta eru brtt. Ég gæti í sjálfu sér flutt hér langt mál um þessi fjárlög en ætla ekki að gera það núna. Það er búið, eins og ég sagði áðan, af kollegum mínum að mæla fyrir þeim málum sem við höfum sett fram og ég þarf ekki að endurtaka það enda orðið áliðið nætur, klukkan langt gengin tólf, og ég læt lokið máli mínu.