Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 23:42:33 (2245)

2002-12-05 23:42:33# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[23:42]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er nú ljótt að eyðileggja þessa fögru mynd sem hæstv. fjmrh. er að reyna að draga upp. Hann telur að menn hafi farið með rangt mál þegar þeir sökuðu ríkisstjórnina um að beita bókhaldsbrellum og jafnvel blekkingum og vísuðu þar sérstaklega til fjáraukalaga og þeirrar staðreyndar að þar er verið að bókfæra til eignar söluandvirði fyrir eignir sem ekki hafa verið seldar, fjármuni sem ekki eru komnir inn. Vísa ég þar til sölu á bönkunum og þá sérstaklega Búnaðarbanka. Þetta var gagnrýnin sem hér var sett fram.

Síðan er svolítið vafasamt að setja dæmið upp á eins einfaldan hátt og hæstv. ráðherra gerir þegar hann talar um kaup og sölu á eignum ríkisins svona sem tilfærslu á milli kredit og debet. Staðreyndin er sú að ýmsar þær eignir, stofnanir sem ríkisstjórnin hefur verið að selja frá almenningi, hafa verið undirstöðuþjónustustofnanir í samfélagi okkar og munu þegar þær hafa verið frá okkur seldar eða markaðsvæddar eftir atvikum, leiða til ójöfnuðar og óhagræðis þegar fram líða stundir. Menn hafa t.d. verið að ræða afleiðingar þess að markaðsvæða póstþjónustuna sem hefur það í för með sér að Öryrkjabandalagið þarf að greiða 1.400 þús. kr. í stað 400 þús. kr. fyrir að dreifa félagsblaði til félagsmanna sinna. Þannig mætti áfram telja. Það mætti vísa til kerfisbreytinga í velferðarþjónustunni, í heilbrigðisþjónustunni. Nefna má dvalarheimili aldraðra sem ríkisstjórnin hefur verið að feta sig með út á braut einkavæðingar sem er skattborgaranum dýrari og líkleg til að leiða til ójöfnuðar þegar fram líða stundir. Það eru þessar kerfisbreytingar sem við höfum verið að gagnrýna fyrst og fremst.