Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 23:44:52 (2246)

2002-12-05 23:44:52# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[23:44]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað ekkert við því að segja og það liggur fyrir að pólitískur ágreiningur er um mjög marga hluti hér í þessum sal, m.a. þau atriði sem þingmaðurinn vék að varðandi einkavæðingu ríkisfyrirtækja og fleira sem þeim málum tengist. Það þarf ekkert að rifja upp þann ágreining í stuttu andsvari. En því sem ég hafna er sú kenning sem hér hefur borið á í dag, að verið sé að falsa bókhaldið í reikningum ríkisins, að með óeðlilegum hætti sé þar verið að ,,beita bókhaldsbrellum`` --- það var orðalagið sem var notað --- til þess að færa tekjur á árið í ár sem ættu heima á árinu 2003. Ég segi nú bara fyrir mig, hv. þm., þ.e. ef hann má vera að því að hlusta á svarið við andsvarinu, að það skiptir auðvitað ekki í grunninn nokkru sköpuðu máli hvorum megin við áramót svona tekjur eru færðar. Það eina sem reynt er að gera hér er að færa þær í samræmi við lögin um fjárreiður ríkisins. Það sem hins vegar kemur á daginn er að í sjóðstreyminu, sem er auðvitað á greiðslugrunni, koma þessar tekjur ekki inn fyrr en á næsta ári. Þær koma inn í lánsfjárjöfnuð næsta árs. En hluti af þeim er færður til ársins í ár, til tekna ársins í ár, vegna þess að það ber að færa þær greiðslur eða þær tekjur á rekstrargrunni ársins í ár með tilliti til þess hvenær hinn skuldbindandi samningur verður til.

Reyndar er þetta mál þess eðlis að það eru álitamál í því hvoru árinu þetta tilheyrir. En ef maður tekur þessi tvö ár saman þá skiptir það auðvitað ekki nokkru einasta máli. Það verður að gera greinarmun á rekstrargrunninum og greiðslugrunninum. En það er alveg út í bláinn að saka menn um það að --- ég heyri að þingmaðurinn má bara ekkert vera að því að hlusta á mig --- það er algjör misskilningur og meinbægni að saka menn um að beita brögðum og brellum við þetta bókhald.