Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 23:53:36 (2250)

2002-12-05 23:53:36# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[23:53]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessar ábendingar. Ég vil bara taka það fram sömuleiðis að ef það er einhver pottur brotinn í upplýsingagjöf fjmrn. eða annarra ráðuneyta til fjárln. þarf að sjálfsögðu að kippa því í liðinn. Ég leyfi mér hins vegar að draga í efa að þetta geti verið vandamál vegna þess að ég veit að fjárln. gengur hart eftir upplýsingum og það er skylda ráðuneytanna að veita þær.

Að því er varðar spurninguna um áætlaða stöðu ríkisstofnana um næstu áramót kann vel að vera að það væri æskilegt og heppilegt að hafa þær upplýsingar fyrir hendi og í einhverjum tilfellum er það náttúrlega hægt. Uppgjörið frá Fjársýslu ríkisins er því miður alltaf eitthvað á eftir eins og í öllum rekstri þannig að það er hæpið að hægt sé að vera með alveg endanlegar upplýsingar. En ég er sammála þingmanninum um að því nýrri sem tölurnar eru á þeim mun fastari grunni eru menn með þær áætlanir sem fjárlögin byggjast auðvitað á.