Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 23:55:55 (2252)

2002-12-05 23:55:55# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[23:55]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu taka undir mörg af þeim orðum sem hér hafa fallið, bæði hjá stjórnarandstöðu en ekki síst taka undir orð hæstv. fjmrh. sem rakti hér með margvíslegum hætti og góðum rökum þann mikla árangur sem náðst hefur í ríkisfjármálum á undanförnum árum, ekki síst því ári sem við erum núna að ljúka ef við getum talað um að árinu, sem er að hefjast samkvæmt almanaksári, sé að ljúka. Það má skilja það í því samhengi sem fjárln. vinnur, þ.e. fram til eins árs í senn.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem hæstv. fjmrh. sagði hér. Við sjáum ekki aðeins vitnisburð um trausta fjármálastjórn hér á landi í því aukna trausti sem við njótum á fjármálamarkaði og í lánshæfi, heldur sjáum við vitnisburðinn ekki síður í þeim viðbrögðum sem landsmenn sýna með ákvörðunum sínum og viðbrögðum við ákvörðun ríkisvaldsins í fjármálum. Ég nefni þar markaðinn og fjármálakerfið, atvinnulífið, en ekki síst traust almennings á því að hér ríki stöðugleiki og traust fjármálastjórn.

Það er eðlilegt að við þessar umræður gagnrýni stjórnarandstaðan meiri hluta fjárln. og ríkisstjórnina, það er hennar hlutverk. Vissulega hefur stjórnarandstaðan nefnt marga þá hluti sem við sem í meiri hlutanum erum eigum að hugsa um og taka til vandlegrar skoðunar.

Ég leyfi mér að þakka nefndarmönnum í fjárln. fyrir ánægjulegt samstarf, bæði meirihlutafólki og sömuleiðis stjórnarandstöðu. Ég tel að starf okkar hafi skilað árangri og tek undir orð hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar um að auðvitað höfum við tekist á en að baki hafa alltaf búið heilindi og málefnalegur flutningur þó að til nokkurrar rimmu hafi komið af og til.

Sérstaklega vil ég þó þakka fjmrh. fyrir samstarfið og segja það hér við þessa umræðu ef hún má ná út til almennings að menn gera sér e.t.v. ekki grein fyrir því að vinnan við frv. til fjárlaga stendur allt árið, hefst af mikilli alvöru á vordögum og lýkur síðan með því að frv. kemur hér inn. Hæstv. fjmrh. þarf þá bæði að glíma við margvíslegar útgjaldabeiðnir á því stigi málsins og síðan þegar inn í þingið kemur. Allt þetta hefur verið leyst farsællega í góðu samstarfi. Ég ítreka þakkir mínar til ráðherrans um leið og ég óska honum líka til hamingju með það frv. sem hér er lagt fram með þeim brtt. sem ég vona að færi bæði þingi og þjóð heillavænlegan árangur.