Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um tekjuskatt og eignarskatt

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 10:33:36 (2254)

2002-12-06 10:33:36# 128. lþ. 48.91 fundur 299#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um tekjuskatt og eignarskatt# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[10:33]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég stend upp til þess að mótmæla því að það á að keyra í gegnum efh.- og viðskn. á þessum degi breytingu á skattalöggjöfinni sem er algjörlega vanbúin til afgreiðslu úr nefndinni. Það er ágreiningur um hátekjuskattinn sem felst í þessu frv. Það er ágreiningur um fyrirkomulag skattmats og skatteftirlits, ekki bara milli stjórnar og stjórnarandstöðu heldur milli ráðuneytisins og ríkisskattstjóraembættisins. Það er ágreiningur um fyrningargrunn og afskriftareglur og meðferð á ónýttu rekstrartapi og m.a. hefur brtt. verið sett inn í nefndina eftir 1. umr. um málið, sem felur raunverulega í sér nýtt mál sem hefði átt að taka strax til 1. umr. Þessum vinnubrögðum mótmæli ég. Það vantar öll gögn varðandi þessar breytingar á fyrningargrunni og afskriftareglum sem sýnir okkur hvert skattalegt tap ríkissjóðs er vegna þessara breytinga sem áætla má eftir fyrstu skoðun að gæti skipt hundruð millj. kr. Við bíðum eftir gögnum frá ríkisskattstjóraembættinu sem ekki verða tilbúin fyrr en á þriðjudag eða miðvikudag í næstu viku. Það er ótækt, herra forseti, undir þessum kringumstæðum að ætla okkur í stjórnarandstöðunni að taka þátt í að afgreiða málið úr nefndinni við þessar kringumstæður. Við erum að fjalla um breytingu á tekjuskattslögunum sem getur haft veruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs og veruleg skattaleg áhrif. Ég beini því til hæstv. forseta að við höfum stuðning forsetaembættisins í því að þetta mál verði ekki tekið út með þessum hætti. Þetta eru engin vinnubrögð og til vansa fyrir þingið ef það á að gerast.

Ég veit ekki betur en að enn sé eftir ein vinnuvika af starfi þingsins fyrir jól og ég óska eftir því og krefst þess að þetta mál verði ekki afgreitt út á þessum degi.