Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um tekjuskatt og eignarskatt

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 10:39:36 (2257)

2002-12-06 10:39:36# 128. lþ. 48.91 fundur 299#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um tekjuskatt og eignarskatt# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[10:39]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hv. þm. og formaður efh.- og viðskn. segir að þetta sé ekki flókið mál. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það er ekkert flókið við það að hlýða fyrirmælum úr Stjórnarráðinu um að afgreiða mál af þessu tagi með hraði í gegnum nefndina. Það er ekkert flókið. En ef menn ætla að afgreiða þetta þingmál málefnalega þá þurfa að vera til staðar nauðsynlegar upplýsingar. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa óskað eftir ýmsum upplýsingum sem við fáum ekki í hendur fyrr en í byrjun næstu viku. Við erum að fara fram á það og óska eftir því að málið verði ekki afgreitt úr nefnd fyrr en þessar upplýsingar liggja fyrir. Þetta eru málefnaleg rök og þetta eru sanngjörn rök og þetta er sanngjörn beiðni og við væntum þess að á fundi efh.- og viðskn. í hádeginu í dag verði fallið frá þessari kröfu sem væntanlega er komin úr Stjórnarráðinu um að málið sé afgreitt nánast í blindni út úr nefndinni í dag.