Fjárlög 2003

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 10:54:58 (2265)

2002-12-06 10:54:58# 128. lþ. 48.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., BH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[10:54]

Bryndís Hlöðversdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Einkenni efnahagsstjórnarinnar birtist ljóslifandi í þessu frv. og afleiðingar ríkisstjórnarstefnu Sjálfstfl. og Framsfl. má sjá hvarvetna í samfélaginu. Hér á landi er minni hagvöxtur en í nágrannaríkjunum og svo verður áfram á næsta ári. Þetta fer saman við vaxandi atvinnuleysi og stóraukna skuldasöfnun einstaklinga og fyrirtækja. Og erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa aldrei verið meiri en nú.

Ríkisstjórnin hefur auk þess fallið í þá freistni að úthluta ótæpilega jólagjöfum í ár sem er síst til að bæta stöðuna. Samfylkingin vill snúa af þessari braut og hafnar alfarið þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið. Við lýsum því allri ábyrgð á þessum fjárlögum á hendur ríkisstjórninni og munum sitja hjá við tillögur meiri hlutans og þingmanna annarra þingflokka en okkar eigin.