Fjárlög 2003

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 11:16:39 (2280)

2002-12-06 11:16:39# 128. lþ. 48.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., JB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[11:16]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Framboð á menntun leggur grunn að samkeppnishæfni atvinnulífs og búsetu á hverjum stað. Þessu gera Snæfellingar sér grein fyrir og því hafa þeir eindregið sótt eftir því að fá að stofna eigin framhaldsskóla. Það er fullkomin samstaða meðal sveitarfélaga á Snæfellsnesi um stofnun framhaldsskóla þar. Þetta mál hefur verið unnið vel heima fyrir og í samráði við menntmrn.

Menntmrh. gaf yfirlýsingu við atkvæðagreiðslu við 2. umr. fjárlaga um að ráðherra væri reiðubúinn að leggja til fjármuni af ráðstöfunarfé ráðuneytisins til undirbúnings framhaldsskóla. Ég tel, virðulegi forseti, að það eigi að taka ákvörðun um stofnun framhaldsskólans og það eigi að vera sérmerkt á fjárlögum. Það mun fleyta málinu með mun meira öryggi áfram. Það er það sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur til með þingmönnum Frjálslynda flokksins.