Fjárlög 2003

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 11:57:21 (2297)

2002-12-06 11:57:21# 128. lþ. 48.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., JB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[11:57]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi tillaga sem við hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson flytjum hér saman fjallar um að styrkja stöðu Sementsverksmiðjunnar hf. á Akranesi, þ.e. að veita ríkissjóði heimild til þess að auka hlutafé í verksmiðjunni fyrir allt að 500 millj. kr. Ég minni líka á að fyrir þinginu liggja tvær þáltill. frá okkur hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni um framtíðarhlutverk Sementsverksmiðjunnar og hvernig styrkja megi stöðu hennar til að brenna og eyða orkuríkum úrgangsefnum. Fjárhagsvandi verksmiðjunnar er mikill og til kominn m.a. vegna þess að verksmiðjan á í samkeppni við meintan eða að því talið er niðurgreiddan innflutning á sementi frá Danmörku. Það er ljóst að verði ekki gripið nú þegar til aðgerða til þess að styrkja stöðu verksmiðjunnar og gefa henni möguleika á að styrkja stöðu sína og takast á við ný verkefni þá getur hallað hratt undan fæti. Því leggjum við til að samþykkt verði að ríkið veiti heimild til að hækka hlutafé sitt um allt að 500 millj. kr. til þess að efla og styrkja stöðu verksmiðjunnar.