Ástandið á kjötmarkaðnum

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 12:36:23 (2308)

2002-12-06 12:36:23# 128. lþ. 48.95 fundur 303#B ástandið á kjötmarkaðnum# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[12:36]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti Sauðfjárræktin ásamt mjólkurframleiðslu tryggir heils árs byggð í sveitum landsins. Hefðbundinn landbúnaður, fjár- og kúabú, er forsenda dreifðrar byggðar víða um land. Því miður hafa kjör sauðfjárbænda versnað til muna síðustu ár og afkomutölur sýna að það er illmögulegt að lifa af hreinu sauðfjárbúi nema sem hliðarbúgrein. Afkoma þessara búa er algjörlega óviðunandi eins og staðan er í dag. Innanlandssala hefur aldrei verið minni, birgðaaukning mikil, ásetningur allt of mikill miðað við stöðu þessara mála enda hefur sá samningur sem bændur hafa búið við frá 1995 verið framleiðsluhvetjandi. Útflutningur jókst í haust og vonandi eigum við eftir að sjá þann markað stækka til muna en þar er samt ekkert fast í hendi.

Mikil aukning í kjúklingaframleiðslu hefur mikil áhrif á kjötmarkaðinn í heild, t.d. hefur einn kjúklingaframleiðandi aukið framleiðslu sína á skömmum tíma úr þúsund tonnum í 3 þús. tonn. Þá er einnig of mikið framleitt af svínakjöti og því miður hefur framleiðslan þar verið rekin með miklu tapi. Smærri bændur í svínarækt hafa brugðið búi og svínaræktin er að færast á færri hendur og má búast við að það gerist einnig að nokkru leyti í kindakjötsframleiðslunni. Nautgripabændur fá ekki upp í framleiðslukostnað fyrir sitt kjöt og því miður lítur út fyrir að í öllum kjötgreinum sé staðan mjög slæm. Þessi offramleiðsla leiðir aðeins til tapreksturs því að það er ekki hægt til lengdar að greiða með framleiðslunni á markað þannig að verð á einstökum kjöttegundum nægi fyrir breytilegum kostnaði sem veldur öllum kjötframleiðendum stórtjóni. Samkeppnin á kjötmarkaðnum leiðir til þess að þegar upp verður staðið tapa allir nema e.t.v. er skammtímaágóði til neytenda.