Ástandið á kjötmarkaðnum

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 12:42:06 (2311)

2002-12-06 12:42:06# 128. lþ. 48.95 fundur 303#B ástandið á kjötmarkaðnum# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[12:42]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Austurl. fyrir að vekja máls á þessu máli og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hér er um að ræða mjög alvarlegt mál, þ.e. offramleiðslu á kjötvörum á íslenskum mörkuðum. Það er alveg ljóst að ákveðnir framleiðendur hafa verið að kaupa ákveðin pláss í kjötborðum eða kæliborðum og þess háttar í verslunum þannig að hefðbundin vara hefur oft og tíðum jafnvel þurft að víkja.

Ég velti oft fyrir mér markaðssetningu varðandi t.d. lambakjöt. Ég hef margoft bent á það í þessum þingsal og reyndar víða annars staðar að það eru ákveðnar iðngreinar hér sem í eru mjög frambærilegir menn til að kynna þessa vöru, þ.e. bæði kjötiðnaðarmenn og íslenskir matreiðslumeistarar. Nú fer í hönd sá tími þegar menn kaupa mikið af hangikjöti og það er dálítið skemmtilegt að velta því fyrir sér á hvern hátt hangikjöt er markaðssett á Íslandi. Menn keppast við að smakka hangikjöt frá ýmsum framleiðendum, svo sem KEA-hangikjöt, SS-hangikjöt, Kópaskershangikjöt, Húsavíkurhangikjöt o.s.frv. Þarna er einmitt dæmi um það hvað hægt er að gera varðandi kjötframleiðslu á Íslandi, þ.e. þegar kemur að markaðssetningunni. Neytendur vilja gjarnan vita hvaðan varan kemur og það dæmi sem ég nefndi um hangikjötið er lýsandi um hvað hægt er að gera.

Menn hafa mikið yndi af því að smakka þetta kjöt. Síðan velta þeir fyrir sér hvert er besta kjötið á markaðnum fyrir jólin. Þetta er nákvæmlega það sama og gert er hvað varðar rauðvín, þegar menn eru að velta gæðum þess fyrir sér. Þarna er einn þáttur sem er nauðsynlegt að benda á og ég tel að t.d. þeir sem framleiða bæði lambakjöt og nautakjöt geti nýtt sér þessa markaðsaðferð.