Ástandið á kjötmarkaðnum

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 12:49:05 (2314)

2002-12-06 12:49:05# 128. lþ. 48.95 fundur 303#B ástandið á kjötmarkaðnum# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[12:49]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hv. þm. Þuríður Backman hefur vakið athygli á mjög sérstæðri stöðu á kjötmarkaði hér á landi. Hún vakti athygli á því að á markaðnum væri boðið kjöt sem selt er undir kostnaðarverði. Hún vakti líka athygli á því og beindi spurningum til hæstv. landbrh. um hvort eðlilegt samkeppnisumhverfi væri fyrir hendi. Hv. þm. Þuríður Backman velti fyrir sér hvort eðlilegt væri að fjármálastofnanir væru orðnar stór rekstraraðili í markaðssetningu, slátrun, kjötiðnaði og framleiðslu, grunnframleiðslunni. Hún spyr hvort þarna sé ekki hætta á að um óeðlileg viðskiptatengsl sé að ræða.

Það var líka minnst á að bankastofnanir og fjármálastofnanir rækju til lengri tíma fyrirtæki sem þegar væru orðin gjaldþrota. Viðkomandi stofnanir ættu svo stóran hlut í fyrirtækjunum og vildu þess vegna draga úr tapi sínu. En með þessum aðgerðum er verið að skekkja alla samkeppnisstöðu á markaðnum. Allir vilja fá ódýrt kjöt og ódýra matvöru á raunsönnum grunni.

Sú kveðja sem hæstv. landbrh. sendi sauðfjárbændum eða nautakjötsbændum varðandi þá erfiðu stöðu sem þeir eru í var: Neyðin kennir lötum mönnum að vinna. Það var kveðja hæstv. ráðherra.

Virðulegi forseti. Ég tel að hæstv. ráðherra ætti að líta svolítið í eigin barm og kanna hvort í hans ranni sé ekki þörf á að kenna mönnum að vinna.