Útflutningsaðstoð

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 13:30:19 (2317)

2002-12-06 13:30:19# 128. lþ. 48.3 fundur 429. mál: #A útflutningsaðstoð# (heildarlög) frv. 160/2002, forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[13:30]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þessu frv. sem starfandi utanrrh., frv. til laga um útflutningsaðstoð sem lagt hefur verið fram hér á þskj. 556.

Í frv., sem byggt er á lögum um Útflutningsráð Íslands, nr. 14/1990, með síðari breytingum, er bætt við þáttum er snúa að samstarfi opinberra aðila og einkaaðila að útflutningsaðstoð. Frumvarpið er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí 1999 þar sem lýst var því markmiði að áfram verði unnið að markaðssókn fyrir íslenskar vörur og þjónustu á erlendum mörkuðum og hvatt til fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi. Í þessu skyni gerir frv. ráð fyrir að sett verði á fót sérstök samráðsnefnd atvinnulífs og stjórnvalda sem stuðli að aukinni samleið í kynningu á íslenskum afurðum og þjónustu á erlendri grundu. Innan samráðsnefndarinnar verður formlegur farvegur fyrir einstakar stofnanir og hagsmunasamtök að leita fulltingis annarra aðila við markaðsstarf sitt erlendis og skipuleggja álitsverkefni og áhersluatriði í því skyni.

Helstu breytingar í frv. varðandi Útflutningsráð lúta að því að markaðsgjaldið, hinn lögbundni tekjustofn ráðsins, er framlengt um fimm ár. Þá hefur náðst samkomulag milli stjórnar Útflutningsráðs og utanrrn. um eflingu samstarfsráðsins og viðskiptaþjónustu utanrrn. með margvíslegum aðgerðum sem m.a. fela í sér að settur verður á fót sérstakur stýrihópur er afmarki verksvið og komi í veg fyrir tvíverknað þeirra á milli.

Samhliða þessu verður hlutverk stjórnar Útflutningsráðs eflt og veitt ráðgefandi hlutverk fyrir utanrrh. varðandi rekstur viðskiptaþjónustu utanrrn. og um áherslur á sviði utanríkisviðskipta.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. Við samningu þessa frv. var haft viðtækt samráð við heildarsamtök atvinnulífs og stjórn Útflutningsráðs. Er full samstaða með þessum aðilum um efni þess.