Ársreikningar

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 13:32:38 (2318)

2002-12-06 13:32:38# 128. lþ. 48.4 fundur 427. mál: #A ársreikningar# (EES-reglur) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[13:32]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um ársreikninga, nr. 144/1994, með síðari breytingum, sem er að finna á þskj. 553. Í frv. þessu eru lagðar til breytingar, annars vegar vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA um tiltekin atriði í lögunum sem talin eru fara í bága við ákvæði í 4. og 7. tilskipun ESB, en hins vegar vegna athugasemda Eftirlitsstofnunarinnar um að tiltekin ákvæði 4. og 7. tilskipunar hafi ekki verið lögfest hér á landi. Jafnframt eru af þessu tilefni lagðar til smávægilegar breytingar sem ástæða þykir til að gera.

Vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnuninni, ESA, varðandi reglur um samstæðureikningsskil þótti rétt að endursemja VI. kafla laganna um samstæðureikninga en jafnframt að flytja í VI. kaflann ákvæði 4.--7. gr. laganna sem fjalla um heimild móðurfélaga til að falla frá samningu samstæðureikninga eða að fella tiltekin dótturfélög út úr samstæðureikningum.

Enn fremur er lagt til að flutt verði í kaflann ákvæði sem eru í IV. kafla reglugerðar nr. 696/1996, um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga, og hafa þannig öll ákvæði um samstæðureikningsskil í einum kafla laganna.

Í frv. er m.a. lagt til að lögfestar verði tvær aðferðir við að semja samstæðureikninga, kaupaðferð og samlegðaraðferð, þar sem kaupaðferðin verði meginreglan en samlegðaraðferðin verði notuð í undantekningartilvikum.

Dæmi um notkun samlegðaraðferðarinnar er þegar ekki eru fyrir hendi almennar markaðsaðstæður við stofnun samstæðu og sami hagsmunaaðilinn hefur ráðandi stöðu í félögunum. Við samstæðureikningsskil er gagnkvæmum viðskiptum félaganna eytt eða með öðrum orðum ekki látin hafa áhrif á umfang samstæðunnar og má líkja þessu við deildaskipt félag þar sem hver deild er sjálfstæð rekstrareining gagnvart öðrum deildum félagsins. Yfirráð yfir félögum geta komið fram í öðru formi en í meiri hluta hlutafjár og er tekið tillit til þess í tillögunum í frumvarpinu með því að gera skilgreiningu á móðurfélagi sem semja skal samstæðureikning nákvæmari.

Þá eru gerðar tillögur um framsetningu félaga á eignarhluta þeirra í félögum sem þau eiga meira en 20% í en minna en 50% hlut í. Teljast þau þá hafa ráðandi hlut í þeim og hafa varanleg tengsl í þágu tekjuöflunar sinnar. Slík félög kallast hlutdeildarfélög. Þá eru einnig ákvæði um reikningsskil þegar félög eru sameinuð með því að eitt eða fleiri félög eru lögð niður og sameinuð í einu félagi eða nýtt félag er stofnað á grunni þeirra sem eru lögð niður. Sama máli gegnir þegar félagi er skipt í tvö eða fleiri félög.

Eins og fram hefur komið eru helstu breytingarnar sem lagðar eru til í frv. til komnar vegna athugasemda frá ESA og er nauðsynlegt að þær nái fram að ganga vegna samningsskuldbindinga Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Yfirlit yfir þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði í frv. aðrar en vegna athugasemda frá ESA eru eftirfarandi:

Í 3. gr. er lagt til að lögbinda að nota skuli sjóðstreymisyfirlit eingöngu en ekki velja á milli þess og fjármagnsstreymisyfirlits. Er það í samræmi við reglur reikningsskilaráðs nr. 3.

Í 11. gr. er gert ráð fyrir að takmarka heimildir félaga til að færa á rekstrarreikning ársins til leiðréttingar á tekjum og gjöldum sem ekki hafa komið fram á réttu reikningsári. Slíkar fjárhæðir skulu færast beint á eigið fé en ekki hafa áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins.

Í 14. gr. er lagt til að betur verði skilgreindur afskriftastofn eigna þegar sérstakt endurmat á raunvirði fastafjármuna er notað.

Í 15. gr. er verið að leggja til að birgðir séu metnar á kostnaðarverði eða dagverði en möguleiki á öðrum aðferðum afnuminn.

Í 16. gr. er lagt til að færa afskriftatíma óefnislegra eigna að hámarki í 20 ár í stað fimm ára áður.

Í 17. gr. er lögð til sú breyting að heimildarákvæði um að færa eignarhlut í dótturfélagi samkvæmt hlutdeildaraðferð í stað kostnaðaraðferðar verði lögfest. Er það gert að skylduákvæði sem er í samræmi við samstæðureikningsskil.

Í 20. gr. eru lagðar til breytingar á tekjufærslu langtímaverkefna sem miða við að áætla hagnað af langtímaverkefnum hlutfallslega eftir því sem verkefnunum miðar áfram.

Í 21. gr. er lagt til að upplýsa skuli um frestaða skattskuldbindingu í efnahagsreikningi en það var áður nægjanlegt að gera í skýringum.

Í 36. gr. er lagt til að gert verði að ótvíræðri skyldu félaga að leggja fram hjá ársreikningaskrá bæði ársreikning sinn og samstæðureikning fyrir það og dótturfélög þess.

Í 43. gr. er lagt til að heimild félaga til að beita verðleiðréttum reikningsskilum í tvö ár verði stytt í eitt ár, þ.e. aðeins yfirstandandi reikningsár. Þessi breyting er til komin eins og margir muna vegna þess að þegar verðbólgureikningsskil voru afnumin fyrir ári síðan þótti eðlilegt að gefa þeim aðilum tveggja ára aðlögunartíma sem það kysu, vegna þess að þá var verðbólgan mun meiri en hún er núna. Í ljósi þess hversu verðbólguþróun hefur verið hagstæð á þessu ári er talið ónauðsynlegt og óæskilegt að framlengja þennan aðlögunartíma um meira en eitt ár, þ.e. yfirstandandi ár og því er lagt til að sú undanþága falli niður nú um áramót. Er þetta í samræmi við ábendingar frá m.a. Kauphöll Íslands, en einnig fleiri aðilum.

Ég legg síðan til, herra forseti, að máli þessu verði að umræðunni lokinni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.