Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 13:42:34 (2320)

2002-12-06 13:42:34# 128. lþ. 48.5 fundur 428. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 148/2002, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[13:42]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar, nr. 3/1987, með síðari breytingum. Hér er um að ræða einfalt frv. sem gengur út á það að framlengja tímabundna heimild til undanþágu frá greiðslu þungaskatts fyrir bifreiðar, sem í tilraunaskyni nota annan orkugjafa en bensín, dísilolíu eða annað eldsneyti unnið úr olíu.

Þannig háttar til að sú undanþága sem sá sem hér stendur beitti sér fyrir á sínum tíma rennur úr gildi um næstkomandi áramót. Í frv. er lagt til að þessi undanþága verði framlengd um tvö ár og er það gert með hliðsjón af því að enn eru tilraunir með aðra orkugjafa en þá sem unnir eru úr olíu skammt á veg komnar og með því að hér fer fram á Íslandi tiltekin starfsemi sem miðar að því að þróa slíka orkugjafa þá er eðlilegt að veita áframhaldandi undanþágu með þeim hætti sem hér er lagt til. En til samræmis þarf að sjálfsögðu einnig að veita slíka undanþágu gagnvart orkugjöfum sem framleiddir kunna að vera erlendis með sambærilegum hætti og það sem ég áður gat um og fluttir til landsins.

Ég legg til, herra forseti, að þessu máli verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.