Tekjustofnar sveitarfélaga

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 13:53:27 (2322)

2002-12-06 13:53:27# 128. lþ. 48.6 fundur 441. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (Jöfnunarsjóður) frv. 167/2002, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[13:53]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra örfárra spurninga vegna þessa máls.

Nú er það svo að sveitarfélögin telja sig verða af um 1 milljarði vegna fjölgunar á einkahlutafélögum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það muni verða brugðist við því.

Síðan eru nokkur atriði sem varða verkefnaflutninginn, t.d. í sambandi við framhaldsskólana, hvort hæstv. ráðherra geti upplýst okkur um það hvenær gengið verði frá því.

Síðan vildi ég spyrja hæstv. ráðherra: Er gert ráð fyrir að reglum um úthlutun úr jöfnunarsjóðnum verði að einhverju leyti breytt í kjölfar þessa frv.? Og munu einhverjar greiðslur koma úr jöfnunarsjóðnum vegna húsaleigubóta?

Í síðasta lagi vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvort öll sveitarfélög muni verða jafnsett eftir þessa breytingu.