Tekjustofnar sveitarfélaga

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 13:54:50 (2323)

2002-12-06 13:54:50# 128. lþ. 48.6 fundur 441. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (Jöfnunarsjóður) frv. 167/2002, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[13:54]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég svara seinustu spurningunni fyrst, þá er það eðli jöfnunarsjóðsins að vera jöfnunarsjóður og þar með verða sveitarfélögin ekki jafnsett, það er ekki sama upphæð á hvern haus í sveitarfélögunum, heldur er verið að reyna að færa þarna peninga á milli eða útdeila peningum til sveitarfélaganna eftir því hvað þörfin er brýn í hverju sveitarfélagi. Það er skrúfað fyrir fjárstreymi til tekjuhæstu sveitarfélaganna, þ.e. þeirra sem eru tekjuhæst á íbúa, en reynt að greiða fyrir þeim sem þurfa að standa undir mikilli þjónustu en hafa ekki tekjur til þess.

Varðandi einkahlutafélögin. Þó að notuð hafi verið þessi tala eða menn hafi verið að kasta á milli sín þessari tölu, 1 milljarði, sem sveitarfélögin gætu orðið af við fjölgun einkahlutafélaga, þá er ekki hægt að fullyrða neitt um að svo sé, því ekki er hægt að finna það reikningslega fyrr en eftir álagningu næsta árs, í ágústmánuði á næsta ári hver upphæðin gæti nákvæmlega verið.

Einkahlutafélögin geta líka verið til þess að styrkja sveitarfélögin og atvinnulíf í sveitarfélögunum og aukið þannig tekjur þeirra auk þess sem breytt er reglunum um reiknað endurgjald sem menn verði að reikna sér. Úthlutunarreglum verður breytt á grundvelli frv. En það er seinni tíma verkefni, það er verkefni næsta árs eða við næstu fjárlagagerð að ræða aftur um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og þá verður þetta einkahlutafélagadæmi væntanlega tekið til upp.