Húsaleigubætur

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 14:01:45 (2327)

2002-12-06 14:01:45# 128. lþ. 48.7 fundur 440. mál: #A húsaleigubætur# (greiðsluþátttaka ríkissjóðs o.fl.) frv. 168/2002, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[14:01]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Segja má að þetta frv. sé nokkurs konar fylgifrv. þess frv. sem hér var síðast á dagskrá. Framkvæmd húsaleigubóta hefur verið verkefni sveitarfélaga og fjármagnað af þeim og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Byggist þetta á lagabreytingum sem tóku gildi 1. janúar 1998, en þeim til grundvallar lá samkomulag milli ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 7. desember 1997. Þá var samið um og lögfest að ríkissjóður skyldi árlega greiða 280 millj. kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem renna skyldu til greiðslu húsaleigubóta. Fjárhæð þessi átti að breytast árlega í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs.

Nú er það sannast mála að húsaleigubætur hafa hækkað mjög mikið. Greiðslurnar hafa verið rýmkaðar, þ.e. nýir aðilar fengið rétt til húsaleigubóta. Þar nefni ég námsmenn á stúdentagörðum og fatlaða. Slakað hefur verið á skilyrðum og að auki tekið tillit til fjölskyldustærðar þannig að fjárhæðin hefur vaxið mjög að undanförnu. Skattfrelsi húsaleigubóta hefur væntanlega líka haft einhver áhrif þannig að í ár fara í þetta verkefni um 900 millj. kr.

Það eru um 10 þúsund leiguíbúðir í notkun í landinu en um 2.800 leigusamningar í gildi, þinglýstir leigusamningar sem húsaleigubætur eru greiddar út á, þ.e. það eru ekki nema um 30% af leiguhúsnæðinu og tæplega þó. Sveitarfélögin voru óánægð með að fá þessa föstu fjárhæð. Hún dugði ekki til að bera upp þann 55% hlut sem ríkið hafði greitt í húsaleigubótunum. Nú varð að samkomulagi að bæta heldur tekjustofn sveitarfélaganna. Þau fá núna að hækka tekjustofninn. Nú fá þau 2,12% af innheimtum tekjum af beinum og óbeinum sköttum í ríkissjóð. Reyndar er grunninum breytt þannig að sveitarfélögin fá aukalega fjárhæð, 60--70 millj. út af þessari breytingu á grunninum.

Í þessu samkomulagi er gert ráð fyrir að framlag ríkisins til húsaleigubóta hækki frá ársbyrjun 2003 um 220 millj. og verði samtals 550 millj. auk sérstaks 150 millj. kr. framlags sem við samþykktum í fjáraukalögum fyrr í morgun. Í samræmi við samkomulagið er lagt til að fjárhæðin verði umreiknuð sem hlutfall af skatttekjum innheimtum í ríkissjóð og bætist við framlög ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem eru reiknuð af þeim tekjustofni.

Ég geri tillögu um að hv. félmn. fái þetta frv. til athugunar að lokinni umræðunni í dag.