Almannatryggingar

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 14:12:12 (2330)

2002-12-06 14:12:12# 128. lþ. 48.9 fundur 413. mál: #A almannatryggingar# (skerðingarhlutfall tekjutryggingarauka) frv. 149/2002, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[14:12]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Með þessu frv. er stigið lítið skref í átt til kjarabóta fyrir lífeyrisþega með því að minnka tekjutenginguna á tekjuttryggingaraukann. Hins vegar var ekki farin sú leið sem lífeyrisþegar kröfðust, þ.e. að greiðslur fylgi launavísitölu. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, þegar hann er að lækka tekjutenginguna á tekjutryggingaraukanum, 67% sem þeir settu á þennan bótaflokk með öryrkjadómnum: Er ekki full ástæða til að minnka einnig skerðingarprósentuna á vasapeningum þeirra vistmanna sem eru á stofnunum? Þar viðgengst mjög há skerðingarprósenta.

Vasapeningar þeirra sem eru á stofnunum eru ekki nema rúmar 19 þús. kr., innan við 20 þús. kr. Þar er skerðingarprósentan 65% og eftir að vistmaðurinn fær um 4 þús. kr. í greiðslur fara vasapeningarnir að skerðast um 65%. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er ekki tímabært að leiðrétta þessa skerðingu sem er á vasapeningunum? Þetta er fyrir það fyrsta allt of lág upphæð og í öðru lagi mikil skerðing. Ég tel að hæstv. ráðherra geti gert þetta með reglugerð, það þurfi ekki lagabreytingu til, og kalla þess vegna eftir því hjá hæstv. ráðherra hvort hann muni ekki samfara þessu breyta skerðingarprósentunni á vasapeningana.