Almannatryggingar

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 14:14:51 (2332)

2002-12-06 14:14:51# 128. lþ. 48.9 fundur 413. mál: #A almannatryggingar# (skerðingarhlutfall tekjutryggingarauka) frv. 149/2002, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[14:14]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég minni á að vasapeningarnir komu ekki til umræðu í þessu samkomulagi milli ráðherranna og aldraðra. Það kemur ekki hækkun á vasapeningana, a.m.k. ekki miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið um þetta samkomulag. Það er algerlega í hendi hæstv. ráðherra að hækka vasapeningana í takt við aðra hækkun bóta.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér um að 65% skerðingarhlutfall eftir 4.000 kr. á innan við 20.000 kr. vasapeningum vistmanna á stofnunum sé allhastarleg skerðing og hvort hann muni ekki taka það upp þó að það hafi ekki verið með í samkomulaginu við aldraða. Ég veit að hæstv. ráðherra er góðhjartaður maður og nú fer að líða að jólum. Ég veit að það er mjög algengt að vistmenn á stofnunum tekur mjög sárt að geta ekki veitt sér nokkuð og varla gefið sínum nánustu jólagjafir fyrir jólin. Er ekki tímabært að minnka þessa skerðingarprósentu og hækka þessa vasapeninga í takt við aðrar bætur almannatrygginga?