Almannatryggingar

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 14:22:16 (2335)

2002-12-06 14:22:16# 128. lþ. 48.9 fundur 413. mál: #A almannatryggingar# (skerðingarhlutfall tekjutryggingarauka) frv. 149/2002, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[14:22]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. ræddi í máli sínu sambandið við Samtök aldraðra og Öryrkjabandalagið. Ég vil láta það koma fram að ég tel auðvitað einboðið að halda þessu samstarfi áfram. Þessi tilraun, ef svo má segja, sem við gerðum í haust gafst vel. Aldraðir kvörtuðu undan því í sambandi við sína samstarfsnefnd að það væri nokkurs konar tilkynningarskylda hjá okkur til þeirra um það sem við hefðum þegar gert. Við vildum breyta því og tókum upp þetta samráð þess vegna. Reynslan af því hefur verið þannig að það er einboðið að halda því áfram.

Ég tel líka einboðið að styrkja samráð við Öryrkjabandalagið. Ég hef reyndar komið þeim skilaboðum áleiðis að ég væri tilbúinn að ræða leiðir að slíku. Ég tel að samráð sé af hinu góða og geti ekki annað en leitt gott af sér. Þetta vildi ég að kæmi fram við þessa umræðu.