Framganga stjórnarformanns Landsvirkjunar

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 13:31:26 (2344)

2002-12-10 13:31:26# 128. lþ. 50.91 fundur 310#B framganga stjórnarformanns Landsvirkjunar# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[13:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna framgöngu stjórnarformanns Landsvirkjunar, Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar, að undanförnu. Landsvirkjun er opinbert fyrirtæki, sameignarfyrirtæki ríkisins og tveggja sveitarfélaga, og það er ekki hægt að horfa fram hjá því að stjórnarformaður Landsvirkjunar fer með opinbert sýslunarhlutverk, hann situr þar á ábyrgð hæstv. iðnrh. og í krafti eignar ríkisins. Framganga hans er því mál sem varðar Alþingi.

Undanfarna daga hefur nefndur einstaklingur nánast farið hamförum. Hann hefur veist að nafngreindum vísindamönnum, prófessorum við Háskóla Íslands, og haft um þau þau ummæli að þar séu menn nánast tilbúnir að fórna starfsheiðri sínum til þess að koma í veg fyrir tilteknar framkvæmdir eða í pólitísku skyni.

Í útvarpsviðtali í morgun gekk Jóhannes Geir Sigurgeirsson, formaður stjórnar Landsvirkjunar, enn lengra og reifaði þau sjónarmið sín að það gengi nánast gegn lýðræði í landinu að umhverfisverndarsamtök og umhverfisverndarsinnað fólk héldi fram skoðunum sínum eftir að Alþingi hefði gert það sem það hefur gert, veitt heimild til tiltekinna framkvæmda. Hann taldi að náttúruverndarsamtök væru í framgöngu sinni afar tortryggileg og jaðraði við að hann sakaði menn þar um óþjóðhollustu með því að halda sínum sjónarmiðum fram eins og þar hefði verið gert. Sérstaklega ámælisvert var, að mati stjórnarformannsins, að upplýsa um mál hér í landi gagnvart útlendingum, rétt eins og meðhöndla ætti deilur um þessar framkvæmdir sem ríkisleyndarmál. Síðast en ekki síst reyndi nefndur Jóhannes Geir Sigurgeirsson að gera náttúruverndarsamtök tortryggileg með því að víkja að fjármálum þeirra og spyrja hvaðan þau hefðu fjármuni til starfsemi sinnar, talandi úr stóli stjórnarformanns Landsvirkjunar með allt silfrið sitt sem sáldrar tugum milljóna út um þjóðfélagið eins og kunnugt er.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra: Nýtur stjórnarformaður Landsvirkjunar stuðnings ráðherra í þessari framgöngu sinni? Hefur ráðherra hugleitt að leysa stjórnarformann Landsvirkjunar frá störfum?