Framganga stjórnarformanns Landsvirkjunar

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 13:42:50 (2349)

2002-12-10 13:42:50# 128. lþ. 50.91 fundur 310#B framganga stjórnarformanns Landsvirkjunar# (aths. um störf þingsins), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[13:42]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Stjórnarandstaðan sættir sig alveg við það að vera í minni hluta. Það gerir stjórnarandstaðan á hverjum tíma. En stjórnarmeirihlutinn verður líka að hafa bein til að þola lýðræðislega umræðu og gagnrýni sem er á rökum reist, og það virðist ráðherralið Framsfl. ekki hafa. Ef þessi ræðustóll væri í postulínsbúð væri hér allt brotið og bramlað. Þannig er framganga ráðherra Framsfl. í þessu máli.

Vissulega situr stjórnarformaður Landsvirkjunar í skjóli iðnrh. og Framsfl. Það er engin önnur ástæða fyrir setu þess manns þar og auðvitað ber hæstv. iðnrh. pólitíska ábyrgð á þeirri skipan og því sem sá maður segir í krafti þess embættis sem hún veitti honum. Þannig er staðan ósköp einfaldlega og það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að kveinka sér undan henni.

Vissulega var hér veitt heimild til virkjunar. Ég var í hópi þeirra þingmanna sem greiddu atkvæði gegn þeirri heimild, og það að meiri hlutinn hafi fengið að ráða þar hefur ekkert breytt minni afstöðu, herra forseti. Ég er enn þá jafnmikið á móti þeirri virkjunarheimild núna og ég var í febrúar sl. og það mun ekki breyta því hvernig ég ræði um þessi mál, hvorki úti í samfélaginu né úr ræðustóli hins háa Alþingis. Það sama á við um alla aðra í lýðræðissamfélagi.

En lægst lúta þó þessir hæstv. ráðherrar þegar þeir bregða á það ráð að brigsla fólki um landráð. Er þá vakinn upp gamall draugur í íslenskum stjórnmálum, að nú séu menn orðnir vondir og í kompaníi við útlendinga sem eru í þokkabót náttúruverndarsinnar.