Framganga stjórnarformanns Landsvirkjunar

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 13:47:10 (2351)

2002-12-10 13:47:10# 128. lþ. 50.91 fundur 310#B framganga stjórnarformanns Landsvirkjunar# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[13:47]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Til að forðast misskilning þá mega náttúruverndarsamtök að sjálfsögðu halda fram málstað sínum, ég hef ekkert við það að athuga frekar en aðrir í samfélaginu. Ég tel það hins vegar ekki rétt, hvorki af slíkum samtökum né öðrum, að beita sér með röngum upplýsingum gagnvart verktökum og þeim sem hafa hugsað sér að taka að sér verk í slíku máli. Eða telur hv. þm. að það sé eðlilegt eða heimilt að beita sér með hvaða hætti sem er gagnvart tiltekinni framkvæmd í landinu? (SJS: Hvar eru sannanirnar fyrir röngum upplýsingum?) Telur hv. þm. að slíkt sé eðlilegt?

Það er hins vegar rétt hjá hv. þm. að það hefur verið ákveðið að fara í þessa virkjun, reynist hún arðbær. Ég hélt að hv. þm. gerði sér grein fyrir því. Það eru allar líkur til þess, eins og tilboð standa til núna, að hún sé mjög arðbær sem betur fer. Og ef hún yrði ekki byggð þá yrði hagvöxtur hér á landi væntanlega mjög lítill á næstu árum og þá yrði ekki svigrúm til allra þeirra góðu verka sem hv. þm. leggja áherslu á m.a. í afgreiðslu fjárlaga. Þetta er spurningin um það að við getum staðið undir því velferðarkerfi sem við ætlum okkur og þá þarf yfirleitt að fórna einhverju til.

Í forsendum öllum er gengið út frá því að þetta geti orðið að veruleika. Við skulum vona að guð gefi að svo verði og það er ekkert sem bendir til annars, sem betur fer. Og það er mikilvægt fyrir hv. þm. að fara að átta sig á því, ekki síst sem fulltrúa þessa svæðis sem hann mun nú ganga væntanlega til. (SJS: Þú ert nú farinn þaðan.) Já, og ég held að það verði dálítið vond skipti.