Staða lágtekjuhópa

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 13:59:02 (2355)

2002-12-10 13:59:02# 128. lþ. 50.96 fundur 309#B staða lágtekjuhópa# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[13:59]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Fyrir sex árum kom fram í rannsókn að 10% Íslendinga að lágmarki væru undir skilgreindum fátæktarmörkum. Síðan þá hefur fátækt orðið æ meira áberandi, misskipting vaxið og stéttaskipting er orðin staðreynd í íslensku samfélagi.

Á sama tíma og fátækt verður sýnilegri hefur átt sér stað gífurleg tekjutilfærsla í þjóðfélaginu og samþjöppun valds og auðs fer vaxandi. Staðreyndin er líka sú að verulegar brotalamir hafa komið fram á velferðarkerfinu og félagsmálastjórinn í Reykjavík sagði nýverið að velferðarkerfið gagnist verst þeim sem mest þurfa á því að halda. Kerfið væri götótt og fólk lenti í fátæktargildrum.

Stjórnvaldsaðgerðir hafa átt veigamikinn þátt í þessu. Má þar nefna frystingu skattleysismarka, skerðingu á barnabótum, lífeyrisgreiðslum og atvinnuleysisbótum. Einnig mikil hækkun á lyfja- og lækniskostnaði og gífurleg hækkun á húsnæðiskostnaði, ekki síst á leigumarkaðnum, m.a. vegna vaxtahækkana ríkisstjórnarinnar. Þessar aðgerðir hafa komið mjög illa við aldraða, öryrkja, einstæða foreldra, atvinnulausa, námsmenn og tekjulægstu barnafjölskyldurnar.

[14:00]

Biðraðir mæðrastyrksnefndar segja raunar allt sem segja þarf um fátæktina á Íslandi. Hjá einni ríkustu þjóð heims er átakanlegt að þurfa að sjá einstæðar mæður með börn á handlegg í biðröð eftir matargjöfum. Það er sorglegt að í góðærinu skuli veruleikinn sá á Íslandi að 160 fjölskyldur standi í biðröð eftir mat á einum og sama deginum til þess hreinlega að svelta ekki. Formaður mæðrastyrksnefndar segir að 700 fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu séu í sárri neyð en 1.580 umsóknir hafi verið afgreiddar á sex mánuðum. Ætla má að á bak við þær séu 4.500 manns.

Nú þegar lífeyrisþegar knýja á um litla leiðréttingu á kjörum sínum er einungis hluta af því skilað til baka af því sem ríkisstjórnin hefur hlunnfarið þá um á síðustu árum. Atvinnulausir virðast algerlega úti í kuldanum en ríkisstjórnin hefur snuðað þá um 15 þús. kr. á mánuði á undanförnum árum, samkvæmt upplýsingum félmrh. við fyrirspurn minni á Alþingi. Ekkert á að gera fyrir atvinnulausa í fjárlögum næsta árs fyrir utan verðlagsuppfærslu á bótum en atvinnuleysi fer vaxandi, ekki síst hjá ungu fólki. Það hefur tvöfaldast hér á höfuðborgarsvæðinu á stuttum tíma. Þessu til viðbótar hefur ríkisstjórnin ráðist í að skattleggja sérstaklega kjör lágtekjuhópa og m.a. skert skattleysismörkin svo að stór hópur lágtekjufólks, lífeyrisþega og atvinnulausra greiðir sem svarar mánaðarframfærslueyri sínum í skatt á ári.

Ríkisvaldið hefur velt vandanum yfir á sveitarfélögin en vegna skerðingar ríkisvaldsins á kjörum þeirra tekjulægstu hefur fjárhagsaðstoð sveitarfélaga blásið út, einkum hér í Reykjavík. Fjárhagsaðstoð borgarinnar hefur vaxið um 48% milli ára. Stöðu einstakra hópa þarf að taka til sérstakrar skoðunar, ekki síst einstæðra foreldra og forsjárlausra feðra, en þeir eru stór hópur þeirra sem leita fjárhagsaðstoðar ásamt lífeyrisþegum og atvinnulausum.

Brýnt er, herra forseti, að taka með skipulögðum hætti á fátækt á Íslandi. Mikilvægt er að láta fara fram úttekt á umfangi, orsökum og afleiðingum fátæktar, bæði félagslegum og fjárhagslegum, og leggja fram tillögur til úrbóta sem treysti öryggisnet velferðarkerfisins. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé reiðubúinn að styðja tillögu sem liggur fyrir Alþingi um það efni. Auk þess spyr ég hvort ráðherrann telji eðlilegt að tekjulægstu hóparnir, með innan við lágmarkslaun sér til framfærslu, greiði tekjuskatt af þeirri hungurlús og að greiddur sé skattur af fjárhagsaðstoð sveitarfélaga til fátækra. Staðreyndin er sú að ríkisvaldið veltir vandanum æ meira yfir á sveitarfélögin. Þar hafa eins og ég nefndi áður bæði fjárhagsaðstoðin og húsaleigubætur blásið út.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hver sé skýringin á því að atvinnulausir fá ekki sömu hækkun og lífeyrisþegar um nk. áramót. Það er reginhneyksli að samkomulagið sem Samtök aldraðra gerðu við ríkisvaldið skuli ekki líka ganga til þeirra sem verst eru settir og hafa 73 þús. kr. á mánuði. Það hefði kostað um 190 millj. kr., hið sama og ríkisvaldið áætlar á næsta ári að ívilna fyrirtækjum með.

Loks spyr ég, herra forseti: Er hæstv. ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því að málefni fátækra sem líða skort og þurfa að sækja sér mataraðstoð hjá hjálparstofnunum verði þegar í stað tekin upp í ríkisstjórn með það að markmiði að leita úrbóta til að bæta kjör þeirra?