Staða lágtekjuhópa

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 14:15:33 (2360)

2002-12-10 14:15:33# 128. lþ. 50.96 fundur 309#B staða lágtekjuhópa# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[14:15]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er fátækt fólk á Íslandi. Um það verður ekki deilt. Starf margra hjálparstofnana sannar að ástandið er hörmulegt og ekki forríku samfélagi sæmandi. Þess vegna er nauðsynlegt að sú úttekt fari fram sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði hæstv. ráðherra um áðan. Svar ráðherrans var nei. Það á ekki að fara fram slík úttekt.

Landsmenn hafa á valdaárum ríkisstjórnarinnar fylgst með stöðugum yfirlýsingum talsmanna hennar um góðæri og margvísleg efnahagsleg afrek foringjanna sem þeir hafa unnið. Þeir hafa enda verið að deila út gæðum til þeirra sem þeim eru þóknanlegir. Þetta hefur oftast komið fram í skattalækkunum til þeirra sem betur mega sín, sama hvort um er að ræða fólk eða fyrirtæki. Láglaunafólk, aldraðir og öryrkjar hafa hins mátt þola það að vera settir hjá. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar. Raunlækkun skattleysismarka og stóraukin skattgreiðsla láglaunafólks og bótaþega sannar þetta. Hér var í raun spurt: Ætlar ríkisstjórnin að breyta stefnunni?

Svarið var í rauninni nei. Hæstv. ráðherra benti á fjmrh. Hann ræður þessu. Hæstv. ráðherra sættir sig við niðurstöðuna. Hann er í ríkisstjórninni. Skýringin sem hæstv. ráðherra gaf á því að atvinnulausir fá ekki hækkanir í samræmi við aðra var engin. Ætlar hann að gera eitthvað í því? Nei. Hér bíður bjargarlaust fólk við dyr félagsstofnana, hjá sveitarfélögum, mæðrastyrksnefnd, Hjálparstarfi kirkjunnar og Hjálpræðishernum og þess vegna er verið að spyrja hvort ríkisstjórnin ætli að gera eitthvað í málinu núna. Svarið er nei. Þessi ríkisstjórn ætlar ekki að breyta stefnu sinni. Það þarf að breyta um ríkisstjórn.