Staða lágtekjuhópa

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 14:20:12 (2362)

2002-12-10 14:20:12# 128. lþ. 50.96 fundur 309#B staða lágtekjuhópa# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[14:20]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Því miður er alltaf einhver hópur manna í þjóðfélaginu sem býr við lök kjör og þarf því sérstök úrræði fyrir þá hópa af hálfu hins opinbera. Þessi umræða er væntanlega hugsuð til þess að skýra stöðu þessa hóps. Tekjulágir eru þó ekki endilega í þessum hópi því margur tekjulágur maðurinn nýtir peninganna vel meðan tekjuhár eyðir þeim hratt þannig að ekki þarf endilega að vera samasemmerki þar á milli.

Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur þó á undanförnum árum undir stjórn hæstv. félmrh. verið mjög margt gert fyrir þessa hópa og vil ég leyfa mér að taka nokkur dæmi frá stofnun sem heitir Íbúðalánasjóður. Á vegum Íbúðalánasjóðs eru veitt lán til tekjulágra í formi viðbótarlána sem eru 90% af kaupverði eigna, hverjir sem á því þurfa að halda. Á næstu fjórum árum verður á vegum Íbúðalánasjóðs lánað til byggingar 2.200 leiguíbúða á niðurgreiddum vöxtum. Fyrir þá sem eru í greiðsluerfiðleikum eru ýmis úrræði í dag sem hafa verið að þróast, m.a. eru erfiðleikalán veitt til 15 ára. Veitt er frysting á vanskil til þriggja ára og einnig er hægt að fá lengingar á lánum um 15 ár. Þarna hefur því margt verið gert á síðustu árum með breytingu á húsnæðiskerfinu sem ég álít að hafi orðið til góðs og létt því fólki róðurinn sem við erum einmitt að ræða hér um í dag. Svo er aftur annar hópur sem þarf sérstök úrræði af hálfu sveitarfélaganna og hafa þau verið rædd hér af öðrum.