Staða lágtekjuhópa

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 14:22:16 (2363)

2002-12-10 14:22:16# 128. lþ. 50.96 fundur 309#B staða lágtekjuhópa# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[14:22]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er vel við hæfi nú þegar jólin nálgast og ríkisstjórnin er búin að úthluta á fjárlögum til þeirra sem hún telur mest þurfa á að halda að ræða stöðu tekjulægstu hópanna sem ekki eru fyrirferðarmiklir á fjárlögunum. Þeir eru ófáir sem kvíða jólunum nú vegna fátæktar. Um 45 þúsund Íslendingar, 15% þjóðarinnar, telja sig ekki eiga fyrir því að halda jólin samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups. Stöðugt fjölgar þeim sem þurfa aðstoð hjá líknarfélögum og hjálparstofnunum. Hjá Hjálparstarfi kirkjunnar er fjórðungsaukning milli ára hjá þeim sem þurfa aðstoð og um 800 fjölskyldur eru á skrá hjá mæðrastyrksnefnd þó hún sinni ekki nema hluta landsins. Fjöldi fjölskyldna mun nú halda jól í skugga atvinnuuppsagna sem hafa verið meiri undanfarið en í langan tíma.

Ríkisstjórnin mun bæta kjör verst stöddu lífeyrisþeganna nú um áramótin en skilar þeim þó ekki að fullu því sem tekið hefur verið af þeim í stjórnartíð hennar. Atvinnuleysisbætur hækka ekki í samræmi við tryggingabætur, en þær eru nú um 73 þús. kr. á mánuði, þ.e. atvinnuleysisbæturnar. Verst settu lífeyrisþegarnir, aldraðir og fatlaðir á stofnunum sem eru á vasapeningum, eru þó algjörlega gleymdir. Þeir fá undir 20 þús. á mánuði í vasapeninga sem eru svo hastarlega tekjutengdir að 65% skerðast eftir 4 þús. kr. tekjur. Það er alls ekki tekið á málum þessa hóps. Þetta fólk mun ekki geta vikið neinu að sínum nánustu þessi jól frekar en fyrri daginn, hvað þá leyft sér brýnustu nauðsynjar. Það sjá allir. Æ stærri hópur barnafólks getur ekki veitt börnum sínum það sem almennt þykir sjálfsagt í skólastarfi hér á landi. Um það vitna kennarar og félagsráðgjafar hjálparstofnana. Fólk er að greiða skatta af tekjum undir lágmarkslaunum. Þessir hópar kvíða jólunum, enda búa þeir við algjörlega óviðunandi fjárhagsaðstæður. Öryggisnet velferðarkerfisins heldur illa og stundum ekki eftir valdatíð þessarar ríkisstjórnar. Möskva þess verður að styrkja fyrir þá sem verst eru staddir fjárhagslega.

Svör ráðherrans sýna að nú þarf nýjar áherslur og nýtt fólk í stjórn landsmanna. Það sjá allir sem vilja sjá.