Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 14:41:12 (2369)

2002-12-10 14:41:12# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, Frsm. 1. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[14:41]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti 1. minni hluta efh.- og viðskn. en hann skipar ásamt mér hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Hér er tekið til 2. umr. frv. um tekjuskatt og eignarskatt. Það má segja um þetta frv. að það sé eins og bland í poka, það fjallar um ýmsa þætti skattamála. Hér er hrært saman ýmsu varðandi skattalagabreytingar, hátekjuskatt, rekstrartöp og breytingar á eftirliti og framkvæmd skattalaga. Um nokkur þessara atriða var tekist á í efh.- og viðskn. og fram komu veigamiklar athugasemdir við nokkur ákvæði þessa frv. sem ég mun nú fara yfir í mínu máli, herra forseti.

Það má segja að meginefni frv. sé tvíþætt. Í fyrsta lagi er verið að framlengja hátekjuskattinn um leið og verið er að lækka hann og hækka nokkuð tekjumörkin. Í annan stað er verið að víkka út heimildir fyrirtækja til að draga ónýtt rekstrartöp frá tekjum í atvinnurekstri, þ.e. að gildistími slíkrar frádráttarbærni á töpum sé ekki einungis átta ár heldur gildi þau í tíu ár.

Síðan er einnig um lítils háttar hækkun að ræða á persónuafslætti, þ.e. um 107 kr., sem verkalýðshreyfingin samdi um í desember á sl. ári. Þannig má segja í hnotskurn, eins og ég hef lýst því hér, að stjórnarflokkarnir haldi sig við sama heygarðshornið, að lækka fyrst og fremst skatta á þeim betur settu og fyrirtækjunum en láta þá sem minna hafa milli handanna bera byrðarnar með því að láta skattleysismörk ekki halda í við almennar launabreytingar svo eitt veigamikið og stórt atriði því til sönnunar sé tekið.

Aðrar breytingar eru minni háttar má segja þó að þær skipti út af fyrir sig töluverðu máli, eins og breytingar á skipulagi vegna skatteftirlits og minni háttar breytingar varðandi framkvæmd skattalaga. Það voru deildar meiningar um ýmis þessara ákvæða og við í 1. minni hlutanum gerum ýmsar athugasemdir þar að lútandi.

Ég vil fyrst taka fyrir, herra forseti, nýtingu á rekstrartöpum sem er annað tveggja meginatriða þessa frv. að mínu viti en margir umsagnaraðilar benda einmitt á þá staðreynd að verulegar skattatilfærslur hafa orðið frá fjármagnseigendum og stórfyrirtækjum yfir á laun og lífeyri. Þessir umsagnaraðilar setja þetta í samhengi við það að enn séu auknir möguleikar fyrirtækja til að komast hjá greiðslu tekjuskatts, eins og gert er í þessu frv. með því að heimila að nýta rekstrartöpin í tíu ár í stað átta. Þar má t.d. nefna einstök stéttarfélög sem leggjast hart gegn þessari breytingu, ASÍ, BSRB, Öryrkjabandalagið, Landssamband eldri borgara og fleiri aðila. Allt er þetta sett í samhengi við það að átt hafa sér stað þessar miklu skattatilfærslur frá fjármagnseigendum og stórfyrirtækjum yfir á laun og lífeyri, og er skemmst að minnast þess að mikil lækkun varð á tekjuskattsgreiðslum fyrirtækja sem koma til framkvæmda á næsta ári vegna lækkunar á skatthlutfalli þeirra úr 30% í 18%. Áætlaðar tekjuskattsgreiðslur verða 8.250 millj. kr. hjá fyrirtækjum en hefðu orðið 13,8 milljarðar miðað við óbreytt skatthlutfall.

[14:45]

Herra forseti. Tekjuskattur á lögaðila hefur á síðustu árum farið lækkandi að raungildi þrátt fyrir fjölgun fyrirtækja, góðæri og góða afkomu þeirra. Einnig eru tekjuskattar sem fyrirtæki greiða hér á landi lægri en í nokkrum öðrum þróuðum ríkjum hvort sem miðað er við hlutfall af landsframleiðslu eða hlutfall af skatttekjum og þessir skattar munu lækka enn frekar eins og ég nefndi þegar áhrifa af lægra skatthlutfalli tekur að gæta á næsta ári. Ástæður óeðlilega lágs tekjuskatts fyrirtækja hér á landi eru m.a. nokkuð frjálslegar reglur sem gilda um gjaldfærslu á gengistapi lána og verðbótaþátta verðtryggðra lána, svo og verulega rúmar afskriftaheimildir, þar á meðal flýtifyrningar á móti söluhagnaði.

Við í Samfylkingunni leggjum áherslu á gott skattumhverfi fyrirtækja en við teljum það ekki skynsamlega leið eins og farin var á sl. ári að fara með skatthlutfallið niður í 18% sem kostaði það að lítil og meðalstór fyrirtæki þurftu að taka á sig um 2 milljarða í auknu tryggingagjaldi. Það höfum við gagnrýnt mjög og lögðum til þá, þegar sú breyting gekk fram, að fallið yrði frá þessari hækkun tryggingagjalda á fyrirtæki.

Við teljum líka að ásamt því að hækka ekki tryggingagjaldið hefði lækkun eða afnám stimpilgjalda haft verulega þýðingu fyrir fyrirtæki, ekki síst fyrir meðalstór og lítil fyrirtæki um leið og það hefði gagnast heimilunum mjög vel, ekki síst skuldugum heimilum. Þetta hefði verið skynsamlegri leið að fara til þess að styrkja rekstrarumhverfi allra fyrirtækja í landinu en hlúa ekki sérstaklega að stórfyrirtækjum sem núv. ríkisstjórn hefur sérstakan áhuga á að lækka skatta hjá. Þetta vildi ég setja, herra forseti, í samhengi við þær athugasemdir sem ég geri varðandi rýmkaðar heimildir um að nýta rekstrartöpin því að verið er að auka heimildir fyrirtækja með þessu til skattahagræðinga og það kostar nokkra peninga eins og ég mun fara yfir á eftir.

Við í 1. minni hlutanum styðjum það vissulega að fyrirtæki hafi heimild til að nýta rekstrartöp með eðlilegum hætti en við teljum rétt að samhliða verulegri tekjuskattslækkun fyrirtækja á næsta ári sé nauðsynlegt og eðlilegt að gera ráðstafanir til þess að skattstofn tekjuskatts fyrirtækja sé sem réttastur og gefi eðlilega mynd af raunverulegum tekjum fyrirtækja. Ríkisskattstjóri bendir á í umsögn sinni að yfirfæranleg rekstrartöp hafi farið mjög hækkandi á síðustu árum þrátt fyrir að afkoma og rekstrarskilyrði hafi ekki farið versnandi að sama skapi. En orðrétt segir ríkisskattstjóri í umsögn sinni:

,,Má gera ráð fyrir að hækkun rekstrartapa á síðustu tveimur árum skýrist að verulegu leyti af hækkun erlendra skulda vegna gengisbreytinga og að einhverju leyti af hækkun innlendra verðtryggðra skulda. Um hvort tveggja gildir að hækkun skuldanna er að fullu gjaldfærð þegar í stað. Getur þetta valdið miklum sveiflum á bókhaldslegu tapi og frestað skattlagningu mjög. Setja má spurningu við réttmæti þessara reglna einkum eftir að verðbólgureikningsskil hafa verið afnumin.``

Herra forseti. Með þessu er verið að vekja athygli á að þegar verðbólgureikningsskilin voru afnumin var ekki hreyft við ákvæði um gjald- eða tekjufærslu á gengismun eða verðbótum sem geta haft meiri áhrif á skattalega rekstrarafkomu, yfirfæranlegt tap og fleira. Full ástæða er til í tengslum við þetta mál að vekja athygli á nýlegu svari fjmrh. á Alþingi um rekstrartöp fyrirtækja en þar kemur fram að þrátt fyrir 100 milljarða kr. rekstrarhagnað 4.400 fyrirtækja á árabilinu 1998--2001 greiddu þau samtals aðeins 3--4 milljarða kr. í skatt í stað 25--30 milljarða vegna nýtingar á yfirfæranlegu rekstrartapi. Af þessum 4.400 fyrirtækjum greiddu um 2.200 engan skatt þrátt fyrir 70 milljarða kr. hagnað á fjögurra ára tímabili vegna skattalegra áhrifa af nýtingu tapsins. Það er svo að skattaleg áhrif af nýtingu tapsins eru þau að það eru upp undir 7 milljarðar á hverju einasta ári undanfarin fjögur ár sem ríkissjóður hefur haft minni tekjur vegna áhrifa af þessum rekstrartöpum og virðist svo sem þau fari hækkandi.

Á árunum 1998--2000 eða þriggja ára tímabili þurftu skattgreiðendur að standa undir 18 milljarða skattalækkun til fyrirtækja vegna nýtingar á rekstrartapi og það er álíka mikið fjármagn, og er ágætt að setja það líka í það samhengi, og fer samtals til greiðslu vaxta- og barnabóta og til að reka alla framhaldsskóla landsins á næsta ári. Uppsafnað yfirfæranlegt rekstrartap fyrirtækja hækkaði frá ársbyrjun 2000 til ársloka 2001 úr 90 milljörðum í 173 milljarða kr. og nær tvöfaldaðist.

Í svari fjmrn. kemur einnig fram að yfirfæranleg rekstrartöp nærri tvöfölduðust milli áranna 2000--2001 eða úr 6,5 milljörðum í rúma 11,6 milljarða. Fyrirtækjum sem fá skattalækkun vegna yfirfæranlegs rekstrartaps samkvæmt álagningu 2001 fjölgar úr 3.500 í 4.400 eða um tæplega 1.000 milli ára. Fjmrn. gefur þá skýringu í svarinu að þessir 11,6 milljarðar fyrir árið 2001 eigi eftir að lækka talsvert við kærur og endurákvarðanir á áætlunum á næstu mánuðum en engu að síður er ljóst að um verulega aukningu virðist vera að ræða á yfirfæranlegu rekstrartapi milli ára en áætlaður skattskyldur hagnaður sem gefinn er upp vegna álagningar 2001 eru tæpir 48 milljarðar kr. en áætlaðar skattgreiðslur að frádregnu yfirfæranlegu tapi eru tæpir 2,8 milljarðar kr.

Fjmrn. hefur gefið efh.- og viðskn. þær upplýsingar að miðað við fyrirliggjandi tölur sé hægt að reikna með að niðurfellt tap eftir átta ár sé að jafnaði um 1--3 milljarðar kr. Nýting á því á móti hagnaði á 9. og 10. ári segir ráðuneytið varla meira en 0,5--1 milljarð kr. Ég tel, herra forseti, að hér sé mjög varlega áætlað og í reynd muni vera um hærri tölur að ræða. Ég tel að þær muni fela í sér enn frekari lækkun á skattgreiðslum fyrirtækja og gæti þar verið um nálægt 200 millj. kr. að ræða á næsta ári sem yrði tekjutap ríkissjóðs sem beinlínis má rekja til þeirrar lagabreytingar sem við fjöllum hér um. Það er full ástæða til að benda á að slíkt tekjutap er ámóta og kostað hefði að hækka bætur atvinnulausra sem ekki fá sömu hækkanir nú um áramótin og lífeyrisþegar knúðu í gegn nýverið. En stjórnarflokkarnir felldu tillögu um hækkun á bótum atvinnulausra nú við fjárlagagerðina.

Við meðferð málsins í efh.- og viðskn. kom fram brtt. við frv. frá fjmrn. sem felur í sér mikla breytingu á fyrningargrunni og afskriftareglum vegna nýtingar á rekstrartöpum. Um er að ræða stiglækkandi fyrningar í stað línulegra fyrninga þannig að fjárhæð fyrninga er hæst fyrstu árin og fer síðan lækkandi. Lítill tími hefur gefist til að ræða þessa brtt. enda er hún enn óafgreidd í efh.- og viðskn. Þess vegna er lítið hægt að leggja mat á það hvort og að hve miklu leyti slíkar breytingar á fyrningargrunni og afskriftareglum eru til bóta eða að leggja mat á það hvað þær kosta ríkissjóð en það er auðvitað forsenda þess, herra forseti, þegar verið er að leggja fram svona brtt. að fyrir liggi kostnaðarmat frá fjmrn. Málsmeðferðin á þessu mjög óeðlileg, að þegar málið er búið í 1. umr. á þinginu, þá komi fram svo stór og viðamikil breyting á framkvæmdinni á fyrningargrunninum og afskriftareglunum að þær séu sendar beint inn í efh.- og viðskn. sem hefur þar málið til meðferðar. Mér finnst að Alþingi sé hreinlega misboðið með þessu háttalagi af hálfu framkvæmdarvaldsins vegna þess að hér var raunverulega á ferðinni nýtt mál sem hefði átt að taka frá grunni til 1. umr.

Eins og heyra má, herra forseti, á máli mínu er nokkur ágreiningur um 2. gr. frv. og þegar maður les nál. meiri hluta efh.- og viðskn. kemur þar fram einnig, herra forseti, að ekki er samstaða milli stjórnarflokkanna um þessa breytingu. Kemur þar fram að einn nefndarmanna hefur fyrirvara varðandi 2. gr. frv. og reyndar tvær aðrar greinar frv. sem ég ætla ekki að ræða á þessu stigi vegna þess að hv. þm. hlýtur að gera grein fyrir skoðun sinni á þessu máli og mun þá frekar ræða það eftir að hann hefur skýrt sjónarmið sín, en það sýnir kannski vel að deildar meiningar eru um það frv. sem við ræðum.

Ég vil næst, herra forseti, víkja að öðru meginatriði frv. sem er lækkun á hátekjuskatti. Þar alveg eins og í rekstrartöpunum kom fram mjög hörð gagnrýni frá sömu aðilum, þ.e. stéttarfélögum og félagasamtökum sem gagnrýna lækkun hátekjuskattsins. Þeir nefna sérstaklega ástæðu þess að almennt launafólk og lífeyrisþegar séu á sama tíma að greiða sífellt stærri hluta tekna sinna í tekjuskatt. Það er full ástæða til að nefna þetta vegna þess að það virðast aldrei vera til peningar í ríkissjóði til að lækka skatta á fólki með meðaltekjur eða fólki með lægstu launin, lágtekjuhópana sem við vorum að ræða um áðan eins og lífeyrisþega, atvinnulausa og fólk með tekjur innan við lágmarkslaunin, þeim er gert að greiða eins og á síðasta ári 1 milljarð í tekjuskatt.

Ástæða er til að skoða aðeins áhrifin af þessari breytingu á hátekjuskattinum sem hér er verið að ræða en samkvæmt upplýsingum sem ég leitaði eftir hjá fjmrn. kemur fram að skattleysismörkin í almennum tekjuskatti hafa hækkað á tíu ára tímabili eða frá 1993--2003 úr 57.477 kr. á mánuði í 69.603 eða um 21% sem er langt undir því sem verðlag hefur hækkað um á þessu sama tímabili. En tekjumörkin í hátekjuskatti hafa hins vegar hækkað úr 203.340 kr. á mánuði í 340.788 kr. eða um 68% þannig að það eru sífellt færri sem greiða hátekjuskatt. Á þessu tímabili hefur vísitala neysluverðs hækkað um 33,5% en launavísitalan um 72% þannig að ef við lítum á skattleysismörkin þá hefur hún ekki einu sinni haldið í við vísitölu neysluverðs, töluvert frá því, að ekki sé talað um launavísitöluna sem hefur hækkað eða rúmlega þrisvar sinnum meira en skattleysismörkin á þessu tíu ára tímabili.

Samkvæmt upplýsingum sem fjmrn. lét í té greiða 13.300 einstaklingar fyrirframgreiðslu upp í hátekjuskatt vegna tekna ársins 2002. Þar af eru liðlega 5.300 einhleypir einstaklingar. Sú breyting sem ríkisstjórnin er hér að gera varðandi lækkun á hátekjuskatti kostar í tekjutapi hjá ríkissjóði um 300 millj. milli ára. Einnig er athyglisvert, herra forseti, að skoða hvaða áhrif lækkun á hátekjuskatti hefur á skattbyrði þeirra sem greiddu hátekjuskatt á þessu ári en greiða hann ekki á næsta ári vegna þeirra breytinga sem hér er verið að gera og skoða síðan til samanburðar hvað skattbyrði tekjulægstu hópanna lækkar mikið út af lækkun á skattleysismörkunum um þessi 0,4% extra umfram þau 2,25% sem fjárlagfrv. gerði ráð fyrir í upphafi.

[15:00]

Þessi breyting, þ.e. lækkun á hátekjuskattinum, hefur þau áhrif að einstaklingur með 500 þús. kr. í mánaðartekjur á þessu ári greiðir í hátekjuskatt 11.200 kr. á mánuði. En sá sem hefur sömu tekjur, miðað við meðallaunabreytingar, eða um 521 þús. á næsta ári greiðir 8.580 kr. á mánuði í hátekjuskatt, þ.e. 2.620 kr. minna á mánuði. Aukalækkun á persónuafslættinum er um 107 kr. Með hækkun persónuafsláttar um 107 kr., með þeirri skattalækkun sem ég nefndi áðan og persónuafslættinum sem hann fær eins og aðrir er skattalækkun hans tæpar 2.800 kr. á mánuði. Þetta sýnir auðvitað breytingarnar í hnotskurn. Lágtekjuhóparnir fá þessar 107 kr. í lækkun á skattbyrði á mánuði á næsta ári, atvinnuleysingarnir, lífeyrisþegarnir, lágtekjufjölskyldurnar fá 107 kr. extra í jólagjöf frá þessari ríkisstjórn, herra forseti, 107 kr. á mánuði í lækkun á skattbyrði meðan hátekjuhóparnir fá 2.800 kr. skattalækkun á mánuði. Á þessu er auðvitað verulegur munur, 2.800 kr. skattalækkun til hátekjuhópanna en 107 kr. til lágtekjuhópanna.

Við í 1. minni hlutanum leggjum til lítillega hækkun á persónuafslættinum. Ég minni á, herra forseti, að við fjárlagaafgreiðsluna við 3. umr. lögðum við til að bæði lífeyrisgreiðslur og atvinnuleysisbætur hækkuðu ekki bara í samræmi við verðlag eða meðallaunaþróun á næsta ári --- forsendur fjárlaga gera ráð fyrir 3,2% hækkun --- heldur gerðum við ráð fyrir að lífeyrisgreiðslur þessara hópa og bætur mundu hækka sem nemur hækkun á launavísitölunni. Þær tillögur voru felldar við fjárlagaafgreiðsluna.

Við viljum freista þess að leggja til að persónuafslátturinn hækki einnig á næsta ári í samræmi við hækkun á launavísitölu. Gert er ráð fyrir að persónuafslátturinn hækki um 3,15% en svo er ekki í okkar brtt. sem ég ætla, herra forseti, að kynna hér jafnóðum. Ég fer yfir efnisatriði hennar og geri grein fyrir þeim. Við gerum ráð fyrir að persónuafslátturinn hækki í samræmi við áætlaða þróun launavísitölu á næsta ári, sem þýddi það að persónuafslátturinn hækkaði um 376 kr. á mánuði í stað 107 kr. eins og ríkisstjórnin áformar með þessari 0,4% hækkun. Þá tek ég fram að ég hef ekki tekið tillit til 2,25% hækkunar á persónuafslætti sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir.

Herra forseti. Samfylkingin er ekki á móti því að lækka hátekjuskatt en hún telur það ekki forgangsverkefni meðan ekki er hægt að lækka skatta hjá hópum sem hafa lægri tekjur og meiri skattbyrði. Við erum hér að tala um 340 þús. kr. á mánuði hjá einstaklingi og tvöfalt meiri tekjur hjá hjónum. Nú hef ég ekki haft tíma til að skoða hver meðallaunin í landinu eru en samkvæmt því sem ég skoðaði í fyrra þegar við vorum að ræða skattalagabreytingarnar voru meðalatvinnutekjur á árinu 2000, samkvæmt upplýsingum kjararannsóknarnefndar, hjá einstæðu foreldri um 136 þús. kr. en meðalatvinnutekjur hjóna og sambýlisfólks 380 þús. kr. Gróft má áætla að tekjumörkin í hátekjuskatti séu fast að því helmingi hærri en meðaltekjurnar miðað við þessar upplýsingar kjararannsóknarnefndar.

Það gilda sömu sjónarmið nú og fyrir ári síðan hjá Samfylkingunni. Við teljum ekki rétt að gera breytingar á hátekjuskattinum miðað við þá stöðu sem ég nefndi. Við minnum á að fyrir Alþingi liggur þáltill. Samfylkingarinnar um að reynt verði að ná samstöðu um að lækka eða afnema skatta af lágtekjufólki með tekjur undir lágmarkslaunum, sem greiðir nú á bilinu 8--12 þús. kr. í skatt á mánuði. Meðan sú tillaga fær ekki undirtektir telur Samfylkingin ekki forsendur fyrir því að lækka hátekjuskattinn. Forgangsverkefnið er að lækka tekjuskatt á launafólki og tekjulágum hópum.

Herra forseti. Ég hef farið í þau tvö atriði sem við teljum veigamest í þessu frv. Við teljum rétt að 2. gr. frv. falli brott. --- Herra forseti. Ég sé strax að það hafa orðið mistök varðandi þessa brtt. Hér stendur í 1. tölul. að við leggjum til að 1. og 2. gr. falli brott en það er einungis 2. gr. sem við leggjum til að falli brott. Þarna hafa einhver mistök orðið í vinnslu málsins þannig að ég óska eftir því að skjalið verði leiðrétt að þessu leyti.

En varðandi hátekjuskattinn þá munum við sitja hjá við breytinguna sem þar er lögð til.

Nú vil ég aðeins víkja að skipulagi skatteftirlits og og framkvæmd skattalaga. Ég vil fyrst fara í 1. gr. frv., sem ranglega segir í brtt. að við í 1. minni hluta viljum fella brott. Það er ekki rétt. Við munum ekki greiða þeirri grein atkvæði.

Tillagan gerir ráð fyrir að skattfrelsi happdrættisvinninga gildi um öll happdrætti á Evrópska efnahagssvæðinu óháð því hvaða stjórnvald innan þess hefur gefið út leyfi til starfrækslu á happdrættinu. 1. minni hluti styður það en telur þó ástæðu til að gefa athugasemd ríkisskattstjóra gaum. Hann telur æskilegt að fresta breytingunni í heild. Ríkisskattstjóri telur að skoða þurfi málið frekar, m.a. vegna þess að ekki sé nægilega afmarkað hvað í þessu ákvæði felst, einkum með tilliti til happdrætta í öðrum ríkjum EES sem kunna að vera skattfrjáls samkvæmt lögum án þess að ágóðanum sé varið til þeirra málaflokka sem tilgreindir eru, en dæmi munu um að happdrætti séu rekin til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð viðkomandi lands. Ríkisskattstjóri hefur bent á að nú fái erlend happdrætti sömu skattalegu meðferð og innlend happdrætti ef um er að ræða happdrætti þar sem hagnaður rennur til menningarmála, mannúðarmála eða kirkjulegrar starfsemi.

1. minni hluti telur þessa athugasemd þess eðlis að rétt sé að taka undir hana og telur að meiri tíma hefði þurft í efh.- og viðskn. til að skoða þessa ábendingu frá ríkisskattstjóra sem því miður var ekki hægt. Við teljum að framkvæmdarvaldið hefði þurft að skoða þetta aðeins nánar áður en þetta ákvæði verður lögfest. Það er hraði á þessum málum, herra forseti, eins og mörgum öðrum málum hér á hv. þingi. Við teljum því rétt að sitja hjá við 1. gr. frv. þó að vissulega styðji 1. minni hluti að skattfrelsi happdrættisvinninga gildi um öll happdrætti á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem hagnaður á að renna til menningarmála, mannúðarmála eða annarrar slíkrar starfsemi sem um er getið í skattalögum.

Herra forseti. Ég vil næst víkja að tveimur greinum frv. sem hér er verið að breyta og nokkuð var tekist á um í nefndinni. Hv. frsm. meiri hlutans kom aðeins inn á þær. Það eru breytingar sem verið er að gera á 4. og 12. gr. frv. Þar er fjármálaráðherra falið að setja við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald og reglur um hlunnindamat og aðrar tekjur og frádrátt sem meta þarf til verðs að fengnum tillögum ríkisskattstjóra. Hér er um grundvallarbreytingu, herra forseti, að ræða á skattastjórnsýslu. Með þessu yrði snúið af þeim vegi sem fylgt hefur verið langa hríð líkt og á hinum Norðurlöndunum, þ.e. að ríkisskattstjóri setji reglur um reiknað endurgjald og reglur um hlunnindamat.

Það er grundvallarágreiningur milli ríkisskattstjóraembættisins og fjmrn. um þetta atriði. Eftir því sem manni skilst er ágreiningurinn sprottinn af því þegar ríkisskattstjóri setti reglur um hlunnindamat fyrir ári eða svo. Hv. frsm. meiri hluta og formaður efh.- og viðskn. kom inn á það áðan. Þá var tekist á um hlunnindi og frádrátt varðandi það sem hann nefndi vegna árshátíða. Ég er ekki kannski nægjanlega vel inni í því málin en ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst ekki rétt að snúa stjórnsýslunni á hvolf út af þessu atriði. Ég hefði viljað skoða aðrar leiðir sem meiri sátt gæti ríkt um og taka tillit til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið, bæði hjá einstaka nefndarmönnum í efh.- og viðskn. og fjmrn. Hjá ríkisskattstjóra kom fram að verið væri að gera grundvallarbreytingu á skattastjórnsýslunni sem gengi í þveröfuga átt við það sem er á hinum Norðurlöndunum.

Við getum að mörgu leyti tekið undir gagnrýni ríkisskattstjóra og teljum að hægt hefði verið að finna ásættanlega lausn á málinu í efh.- og viðskn. Til þess gafst ekki tími frekar en með 1. gr. frv., sem hefði þurft að skoða nánar. Við leggjum til brtt. við þessa grein, þess efnis að ríkisskattstjóri gefi áfram út reglur um mat á hlunnindum og setji við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald en það verði gert samkvæmt nánari ákvæðum um meginreglur og viðmiðanir í reglugerð sem ráðherra setur skv. 119. gr. skattalaga. Í nefndinni kom fram gagnrýni á að lagaákvæðið sem ríkisskattstjóri vinnur nú eftir sé mjög rúmt og gefi ekki leiðbeinandi fyrirmæli um framkvæmdina. Við teljum að úr þessu megi bæta með því að framkvæmdin verði óbreytt í höndum ríkisskattstjóra, eins og áður hefur verið, en það verði gert samkvæmt nánari ákvæðum um meginreglur og viðmiðanir í reglugerð sem ráðherra setur samkvæmt 119. gr. skattalaga.

Herra forseti. Ég tel ástæðu til, bæði út af 4. gr. og 12. gr. frv., að fara aðeins í umsögn ríkisskattstjóra varðandi þetta atriði. Ríkisskattstjóri segir, með leyfi forseta:

,,Með samþykkt ákvæða frumvarpsins yrðu skattalegar ákvarðanir, sem verið hafa í höndum ríkisskattstjóra sem samræmingaraðila innan skattastjórnsýslunnar, í tveimur tilvikum færðar til fjármálaráðuneytisins. Við þetta er óhjákvæmilegt að gera nokkrar athugasemdir en tekið skal fram að þessar fyrirhuguðu breytingar voru ekki kynntar ríkisskattstjóra fyrr en með framlagningu frumvarpsins og gafst því ekki kostur á að ræða þær áður en frumvarpið kom fram.``

Það eru auðvitað afleit vinnubrögð, herra forseti, að svo mikil breyting á skattaframkvæmdinni skuli ekki rædd við ríkisskattstjóra heldur þurfi hann bara að lesa um þetta í frv. í stað þess að setjast yfir málið og gagnrýnina af hálfu fjmrn. Það hefði mátt leysa þetta mál í góðu samkomulagi við embætti ríkisskattstjóra.

Ég ætla að halda áfram með umsögnina, herra forseti. Ríkisskattstjóri segir:

,,Samkvæmt tekjuskattslögunum og öðrum skattalögum er stjórnsýslu í skattamálum skipað með þeim hætti að stjórnsýsluákvarðanir, sem lúta að ákvörðun skattstofna og álagningu skatta og gjalda, eru í höndum skattstjóra og ríkisskattstjóra. Þær ákvarðanir eru kæranlegar til yfirskattanefndar og síðan dómstóla. Fjármálaráðuneytið sem handhafi hins pólitíska valds á þannig ekki beina eða óbeina aðild að ákvörðunum um skattstofna, skatta og gjöld þótt það fari með stjórnsýslu í skattamálum að öðru leyti. Þessi háttur á skipan stjórnsýslu í skattamálum er á öllu Norðurlöndunum og í mörgum öðrum ríkjum á Vesturlöndum enda rök fyrir honum augljós. Með breytingum samkvæmt frumvarpinu yrði í þeim tilvikum sem það tekur til gengið gegn þessari grundvallarreglu sem um þau hefur gilt frá upphafi án þess að sérstök rök til þess séu sjáanleg til breytinga þar á.

[15:15]

Skipan stjórnsýslu í skattamálum er í meginatriðum hin sama hér á landi og á hinum Norðurlöndunum og eru reglur um skattmat í þeim löndum ekki settar af ráðuneytum en af embættum sem eru hliðstæð embætti ríkisskattstjóra ... Ekki er vitað til að tilefni hafi þótt til breytinga þar á í þessum löndum né þeim fjölmörgu öðrum löndum sem hafa sama hátt á framangreindu grundvallaratriði skattastjórnsýslu. Þá má geta þess að reynt hefur á setningu reglna um skattmat fyrir dómstólum og þær verið staðfestar þar, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar frá 10. febrúar 2000 í máli nr. 356/1999, sem snerist um skattmat bifreiðahlunninda.``

Herra forseti. Síðan fer ríkisskattstjóri hér yfir rökstuðning fyrir dómsorðinu. Ég tel ekki ástæðu til að eyða tíma þingsins í að fara yfir það þó að vera megi að ástæða sé til miðað við það hvernig verið er að snúa stjórnsýslunni við.

En loks segir ríkisskattstjóri, með leyfi forseta:

,,Reglur um skattmat og reglur um reiknað endurgjald fela ekki í sér ákvörðun um skattskyldu eða skattfrelsi tekna. Ákvæði skattalaganna eru afgerandi þar um og skilgreina til hvaða tekna skattskylda nær. Lögin setja enn fremur þær meginreglur sem skattmatið og reiknað endurgjald skal byggja á en þær eru í stuttu máli að miða skuli við gangverð eða markaðsverð við mat á hlunnindum og endurgjaldi fyrir vinnu. Tilgangur með skattmati og reglum um reiknað endurgjald er því sá einn að leggja hlutlægt mat á fyrirliggjandi upplýsingar og setja reglur í samræmi við það. Verður matið að vera unnið á málefnalegan hátt og byggt á rökstuddum forsendum og ítarlegum upplýsingum sem aflað er. Á hliðstæðar matskenndar ákvarðanir skattstjóra reynir oft í skattframkvæmd svo sem við mat á viðskiptum milli tengdra aðila og ákvörðun ívilnana skv. 66. gr. tekjuskattslaganna sem og við ákvörðun skattverðs samkvæmt ýmsum ákvæðum virðisaukaskattslaganna og reglugerða við þau.``

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara nánar út í umsögn ríkisskattstjóra þó að hann fjalli í ítarlegra máli um þetta en ég hef hér gert grein fyrir. Ástæður þess að hann leggst gegn þessari breytingu tel ég að séu rökstuddar. Maður veltir fyrir sér af hverju fleiri ívilnanir sem ríkisskattstjóri ákveður séu þá ekki teknar frá embættinu og fluttar til ráðuneytisins eins og ívilnanir samkvæmt 66. gr. tekjuskattslaganna og ákörðun um skattverð samkvæmt ýmsum ákvæðum virðisaukaskattslaganna og fleiri þáttum.

Herra forseti. Ég tel að sú tillaga sem við höfum hér komið fram með komi til móts við þá gagnrýni sem fram hefur komið.

Herra forseti. Þá fer ég í brtt. sem við flytjum við þá grein frv. sem fjallar um að þegar um samsköttuð félög sé að ræða skuli skattlagningarstaður þeirra vera í því umdæmi þar sem móðurfélag hefur aðsetur. Við tökum undir þær athugasemdir sem fram koma hjá ríkisskattstjóra. Þetta er um 6. gr. frv. Í umsögn ríkisskattstjóra segir, með leyfi forseta:

,,Ríkisskattstjóri telur breytingar þessar vera til bóta en telur að lengra eigi að ganga í þessu efni að því leyti að heimild til að víkja frá meginreglu laganna um skattlagningarstað eigi einnig að taka til þess þegar einkahlutafélag eða sameignarfélag og aðaleigandi þess eru ekki í sama skattumdæmi. Má í því sambandi benda á að sé reiknuðu endurgjaldi eiganda félags sem starfar hjá því breytt af skattstjóra við álagningu skatta leiðir af því að breyta verður álagningu á félagið. Ef vel á að vera þurfa þessar ákvarðanir að vera á hendi eins og sama skattstjóra.``

Við flytjum því breytingu, herra forseti, þess efnis að þegar sameignarfélag eða einkahlutafélag er að fullu í eigu annars skattaðila eða hann er ráðandi eignaraðili í því getur ríkisskattstjóri vikið frá ákvæðum 1.--4. mgr. um framtals- og skattlagningarstað.

Herra forseti. Næst vil ég víkja að 8. gr. frv. sem við gerum að vísu ekki breytingartillögu við en skattstjórar á landinu fjölluðu nokkuð um í umsögnum sínum. Það kemur fram í frv., í þessari grein, að fjmrh. geti ákveðið að sami skattstjóri fari með skatteftirlit í fleiri en einu umdæmi og eftir atvikum skattbreytingu ef skatteftirlit leiðir til endurákvörðunar opinberra gjalda. Með þeirri breytingu sem lögð er til í frv. er gert ráð fyrir að heimilt verði að færa landsbyggðarskatteftirlitið frá ríkisskattstjóra til ákveðinna skattumdæma og að sami skattstjóri fari með skatteftirlit í fleiri en einu skattumdæmi. Tilgangurinn er sagður vera að stuðla að auknum sveigjanleika í skatteftirliti, en frá árinu 1996 hefur ríkisskattstjóri annast að mestu leyti skatteftirlit utan Reykjavíkur og Reykjanesumdæmis. Ástæða þess er sögð vera sú að ekki hafi tekist að byggja upp skatteftirlit á minni skattstofunum, m.a. vegna örðugleika við að ráða starfsfólk.

Það eru gerðar athugasemdir við það, herra forseti, hjá flestum skattstjórum sem tjáðu sig um þetta mál að ef ekki fylgi fjármagn með svona breytingum á skipulagi skatteftirlitsins, en þær séu einungis fólgnar í tilfærslu starfa milli stofnana og skattkerfisins, þá muni þær í engu bæta skatteftirlit. Ríkisskattstjóri vekur m.a. athygli á því að ef herða eigi skatteftirlit þurfi verulega viðbót af mannafla og að lágmarki þannig að í almennu skatteftirliti verði a.m.k. jafnmargir og voru í því þegar flest var. Hann bendir á að fjöldi stöðugilda í sérgreindu skatteftirliti hjá ríkisskattstjóra hafi verið tólf manns árið 1996 en frá þeim tíma hafi fjárheimildir lækkað að raungildi ár frá ári og eru nú 8--10% lægri en þær voru árið 1996 þrátt fyrir aukin verkefni sem ríkisskattstjóri tiltekur. Í fjárlögum fyrir næsta ár, herra forseti, er ekki gert ráð fyrir neinni aukningu á mannafla og felld var tillaga þingmanna Samfylkingarinnar um það efni nú við 3. umr. fjárlaga. Það er skoðun 1. minni hluta að þessari breytingu verði að fylgja fjármagn ef hún á að skila árangri og styrkja skatteftirlit á landsbyggðinni. Meðan svona er er þessi tillaga sýndarmennskan ein. Við styðjum 8. gr. um að þessi heimild sé til staðar en við vekjum rækilega eftirtekt á því að ekki er gert ráð fyrir auknu fjármagni til þess að hægt sé að fylgja því eftir að flytja skatteftirlitið í einhverjum tilvikum út á landsbyggðina og teljum að það gangi ekki að gera það með einhverjum tilfærslum á mannskap frá skattstjóraembættinu.

Herra forseti. Ég fer nú brátt að ljúka máli mínu en vildi að síðustu vekja athygli á tillögu sem við í 1. minni hlutanum tökum upp og ríkisskattstjóri bendir á. Við teljum hana mjög þarfa og brýna og brýnt að ná samstöðu um hana. Ég mun leyfa mér að óska eftir því að þessar brtt. verði dregnar til baka til 3. umr. þannig að efh.- og viðskn. geti fjallað um þær við lokaafgreiðslu máls ef vera mætti að einhver samstaða næðist um þær, en um þær var ekkert fjallað, herra forseti, í efh.- og viðskn. Til þess gafst ekki tími fyrir 2. umr. málsins.

Þá kem ég að efni þessara tillagna. Ríkisskattstjóri vekur athygli á þessu í umsögn sinni þar sem hann er að ræða um raunverulega þörf á breytingum á skatteftirliti og hvernig til þess þurfi verulega aukningu á mannafla. Þá segir hann, með leyfi forseta:

,,Til raunverulegra breytinga á skatteftirliti þarf verulega aukningu mannafla og að lágmarki þannig að í almennu skatteftirliti verði a.m.k. jafnmargir og voru í því þegar flest var í því, auk þess sem skipulagi þess yrði breytt á þann veg að skatteftirliti RSK verði fengið það verkefni að hafa eftirlit með stórfyrirtækjum og fjölþjóðasamskiptum og mannað í samræmi við það. Slíkt skref hefur þegar verið stigið fyrir löngu á hinum Norðurlöndunum þar sem einingar skattkerfisins eru þó langtum stærri en hér á landi.``

Á því vekjum við athygli í nál. okkar að rétt væri að breyta skipulagningunni á þann veg að skatteftirliti ríkisskattstjóra verði fengið það verkefni að hafa eftirlit með stórfyrirtækjum og fjölþjóðasamskiptum og að skatteftirlit verði mannað í samræmi við það. Við bendum á og tökum undir að þetta skref hafi verið stigið fyrir löngu á hinum Norðurlöndunum og hafi skilað verulegum árangri. 1. minni hluti leggur því til breytingar í þessa veru með þeim rökum, herra forseti, að fjármálastarfsemi og fjármagnsflutningar milli landa eru sífellt að aukast og eignatengsl fyrirtækja og fyrirtækjasamsteypa liggja í mörgum tilvikum í fleiri en einu skattumdæmi. Eignatengsl eru oft margþætt og öll fjármálaumsýsla og bókhaldskerfi í slíkum tilvikum orðin afar umfangsmikil og flókin og ekki á færi t.d. smærri skattstofa að ráða við svo vel sé að halda uppi nauðsynlegu skatteftirliti. Mikilvægt er því að svo sé um hnúta búið í skatteftirlitinu að hægt sé að byggja upp á einum stað sérþekkingu og nauðsynlegan tækjabúnað sem ræður við að halda uppi skatteftirliti með stórfyrirtækjum og fjölþjóðasamskiptum, þar sem eignatengsl liggja milli landa og skattumdæma. Veita þarf ríkisskattstjóra og skatteftirlitinu nauðsynlegar heimildir og svigrúm til að takast á við þessi verkefni í samræmi við þá þróun sem orðið hefur. 1. minni hluti flytur breytingartillögu sem felur í sér að ríkisskattstjóri geti árlega ákveðið, að höfðu samráði við skattstjóra, að tilteknir lögaðilar, svo sem stórfyrirtæki, félög með eignatengsl milli landa eða skattumdæma, svo og aðrir skattaðilar sem skattstjórar tilnefna skuli skila framtölum til ríkisskattstjóra og vera skattlagðir af honum. En þessar tvær brtt. sem við hér flytjum og leggjum til og tengjast þessari efnisbreytingu eru sóttar í dönsk skattalög.

Herra forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu. Samandregið má segja að við í 1. minni hlutanum leggjumst gegn því að auka frekar heimildir til að nýta eftirstöðvar rekstrartapa í tíu ár í stað átta ára áður. 1. minni hluti mun ekki styðja lækkun á hátekjuskatti á sama tíma og ríkisstjórnin telur sig ekki hafa svigrúm til að lækka skatta á fólk með lágar eða meðaltekjur, en mun flytja brtt. um að persónuafsláttur hækki í samræmi við launavísitölu á næsta ári.

Síðan flytjum við, eins og ég hef hér lýst, nokkrar brtt. sem eru til þess fallnar að styrkja skatteftirlitið og auka skilvirkni og framkvæmd skattalaga.