Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 15:34:35 (2374)

2002-12-10 15:34:35# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, Frsm. 2. minni hluta ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[15:34]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Það væri freistandi að halda áfram þessari umræðu um fyrningar og tilflutning á tapi á milli ára. Við ræddum fyrr í dag um stöðu fátæks fólks og við þá umræðu kom fram að tekjur þeirra sem minnst hafa handa á milli í þjóðfélaginu eru svo litlar orðnar að það er óhætt að segja að þau heimili séu rekin með tapi. Atvinnulaus maður hefur innan við 70 þús. kr. útborgðaðar, um 68 þús. þegar hann hefur greitt skatta og iðgjöld í lífeyrissjóð, og þar er ekkert afgangs. Sá maður fær hins vegar engin töp í sínu bókhaldi færð á milli ára.

Gagnvart þeim sem hafa meira handa á milli er hins vegar ríkur skilningur hjá þessari ríkisstjórn. Í því frv. sem við erum að ræða núna og lýtur að tekjustreymi ríkissjóðs á komandi ári eru uppi svipaðar áherslur og verið hafa um langa hríð.

Í frv. er lagt til að hátekjuskattur einstaklinga verði lækkaður um 2 prósentustig, að hann verði lækkaður úr 7% í 5%, hátekjumörk einstaklinga hækkuð um 2,75%, þ.e. úr 331.666 kr. í 340.787 kr., lengdur er sá tími sem fyrirtæki geta nýtt eftirstöðvar rekstrartapa úr átta árum í tíu og lagðar eru til heimildir til stiglækkandi afskrifta á lausafé. Allt eru þetta breytingar sem ívilna verulega fyrirtækjum og hátekjufólki. Þessar breytingar eru harðlega gagnrýndar af hálfu samtaka launafólks, ASÍ, BSRB, Öryrkjabandalagsins og samtaka eldri borgara en eru aftur á móti mærðar af samtökum atvinnurekenda og öðrum aðilum sem tala máli stórfyrirtækja og efnameiri hluta samfélagsins. Hækkun á persónuafslætti um 0,4% er tilkomin við þrýsting frá samtökum launafólks og reyndar einnig héðan úr sölum Alþingis því að stjórnarandstaðan hefur haldið uppi málafylgju í þessa veru. Sá sem hér stendur og mælir fyrir áliti 2. minni hluta gagnrýnir framangreindar skattkerfisbreytingar en samanlagt rýra þær tekjur ríkissjóðs verulega.

Við upphaf þessarar umræðu, 2. umr. um frv., liggja enn ekki fyrir útreikningar frá embætti ríkisskattstjóra um áætlað tekjutap ríkissjóðs vegna stiglækkandi afskrifta og er í hæsta máta gagnrýnisvert að ríkisstjórnin leggi fram frv. um umfangsmiklar skattkerfisbreytingar án þess að ítarlegir útreikningar séu fyrir hendi. Í minnispunktum frá 4. desember sem efh.- og viðskn. fékk í hendur frá fjmrn. um stiglækkandi afskriftir er gert ráð fyrir að breytt fyrirkomulag leiði til 100--150 millj. kr. tekjutaps fyrir ríkissjóð en ,,árétta þarf að þessi áætlun er mikilli óvissu háð í báðar áttir``, eins og segir orðrétt, með leyfi forseta, í álitsgerð eða minnispunktum fjmrn. frá 4. desember. Þar segir að auki, með leyfi forseta:

,,Mjög erfitt er að meta af einhverri nákvæmni áhrif þessara breytinga á tekjuskatt fyrirtækja. Þó má reikna með að þær lækki tekjuskattsstofninn lítillega að öðru óbreyttu, eða um hálfan til einn milljarð kr. Það þýðir að álagður tekjuskattur kann að lækka um 100--150 millj. kr. á árinu 2004 verði þessi tillaga samþykkt. Árétta þarf að þessi áætlun er mikilli óvissu háð í báðar áttir.``

Síðan komu ábendingar og líkindareikningur frá embætti ríkisskattstjóra sem var í allt aðra veru, gerði ráð fyrir miklu meira tekjutapi fyrir ríkissjóð.

Varðandi væntanlegt tekjutap ríkisins á komandi ári er rétt að minna á að vegna fyrri lagabreytinga sem koma til framkvæmda um næstu áramót er að finna enn frekari skattalækkanir í þágu fyrirtækja. Þannig kemur nú til framkvæmda lækkun tekjuskatts fyrirtækja úr 30% í 18%, sérstakur eignarskattur fyrirtækja fellur niður, eignarskattur fyrirtækja lækkar úr 1,2% í 0,6% og eignarskattur einstaklinga sömuleiðis. Á móti þessum skattalækkunum hefur síðan áfengis- og tóbaksgjald verið hækkað og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra einnig. Í nál. frá 2. minni hluta er að finna samantekt sem byggir á upplýsingum frá fjmrn. þar sem gert er ráð fyrir því að þessar skattbreytingar komi til með að rýra tekjur ríkissjóðs um 1.830 millj. kr. á árinu. En það skal tekið fram að hér er um nettóáhrif að ræða, þ.e. að teknu tilliti til áætlaðra veltubreytinga og fleira.

Þetta eru áætlanir, menn deila um stærðargráðuna í þessu efni og eins og ég segi eru ýmsir sem bera brigður á þetta og telja þetta vanáætlað tekjutap.

Allar götur frá því að Sjálfstfl. fékk lyklavöldin í Stjórnarráði Íslands, fyrst með stuðningi Alþýðuflokksins frá 1991 til 1995 og síðan Framsfl. frá árinu 1995 og fram á þennan dag, hefur verið fylgt þeirri stefnu í skattamálum að flytja skattbyrðar af stöndugum fyrirtækjum og efnafólki yfir á launafólk. Sú stefna sem við verðum vitni að núna er ekki ný af nálinni. Þetta er stefna sem markvisst og staðfastlega hefur verið fylgt í rúman áratug. Jafnframt hafa margvísleg þjónustugjöld verið aukin og eru þar alvarlegastar álögur á sjúklinga, bæði vegna stóraukins lyfjakostnaðar og beinnar þátttöku þeirra við læknisverk.

Menn sem hafa svolítið minni, ekki bara pólitískt minni en svolítið minni, minnast þess eflaust frá fyrri hluta tíunda áratugarins þegar þáv. heilbrrh. fór mikinn um mikilvægi þess að efla kostnaðarvitund sjúklinga. Það var mikilvægt að efla kostnaðarvitundina og hræða fólk frá því að neyta dýrra lyfja eða óska eftir lækningum sem voru kostnaðarsamar fyrir samfélagið. Svo langt gekk reyndar ríkisstjórnin --- ég held að það hafi verið á fyrstu árum eða fyrstu mánuðum samstarfs Sjálfstfl. og Framsfl. --- að það voru birt svokölluð vasafjárlög. Ég veit ekki hvort hv. þm. muna eftir vasafjárlögum Sjálfstfl. og Framsfl. þar sem það var tíundað hvað fatlað fólk kostaði samfélagið. Það þurfti fulltrúa frá Sameinuðu þjóðunum, einn helsta talsmann fatlaðra á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, til að benda mönnum á að þannig væri rangt að setja málin upp, heldur ætti að horfa á það á hinn veginn og frá hinum endanum hvað það kostaði eitt samfélag að teljast mannréttindasamfélag. Þannig vildi sá maður stilla þessu dæmi upp. Ég hef ekki séð þetta núna um nokkurt skeið, slík vasafjárlög þar sem ráðist var að fötluðu fólki á þennan forneskjulega hátt, og þakka ég það baráttu samtaka fatlaðra, Öryrkjabandalaginu, sem háð hefur einarða baráttu, og umræðum hér á Alþingi.

Skattbreytingar ríkisstjórnarinnar að þessu sinni eru mjög í anda þessarar stefnu, tekjuskattar fyrirtækja lækka en þær skattaívilnanir sem fram koma í þágu launafólks eru óverulegar og hafa verið knúnar fram með félagslegum þrýstingi. Það er ástæða til að minna á að það er ekki óskastefna Sjálfstfl. að hafa slíkar áherslur uppi.

Það er mjög fróðleg lesning að skoða þær breytingar sem orðið hafa í skattkerfi landsmanna frá því í byrjun tíunda áratugarins. Þær eru verulegar. Í upphafi þess áratugar greiddu fyrirtæki 50% skatt af tekjum sínum en eins og ég gat um áðan verður við næstu áramót farið að innheimta 18% skatt. Þetta var gert í áföngum, að lækka tekjuskatt fyrirtækjanna, fyrst farið niður í 45%, síðar 33%, 30% og að lokum núna niður í 18%.

[15:45]

Er þetta gott fyrir fyrirtækin? Að sjálfsögðu. Að sjálfsögðu er það gott fyrir fyrirtæki. Að sjálfsögðu er það líka gott fyrir einstaklinga að komast hjá því að greiða þunga skatta. Að sjálfsögðu bætir það þeirra hag, það gefur augaleið. Spurningin snýst hins vegar um samhengi hlutanna og hvar við viljum bera niður til að innheimta skatta á móti. Valkostirnir eru tveir, að skera niður útgjöld hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, eða að innheimta peninga með öðrum hætti. Menn verða að tala opinskátt um hvað þeir vilja í því efni.

Það var athyglisvert að allir gestir efh.- og viðskn. í tengslum við frv. sem voru í forsvari fyrir samtök launafólks, öryrkja og eldri borgara, mótmæltu skattstefnu ríkisstjórnarinnar harðlega og sögðu að um hana mundi ekki ríkja neinn friður í samfélaginu. Engan þarf að undra hörð viðbrögð við skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Menn gera sér að sjálfsögðu grein fyrir því að ríkisstjórnir, undir forsæti Sjálfstfl. frá 1991, hafa stefnt að því leynt og ljóst að færa fjármögnun velferðarþjónustunnar að verulegu marki út úr hinu eiginlega skattkerfi og yfir í beinar álögur á notendur þjónustunnar.

Í skýrslu sem fjmrn. gaf út árið 1998, um einkaframkvæmd innan velferðarþjónustunnar, var lögð áhersla á að sem stærstur hluti tekna rekstraraðila yrði fenginn með notendagjöldum. Þar var augljóslega verið að boða skólagjöld og sjúklingaskatta sem valda félagslegri mismunun.

Þegar líða tók á tíunda áratuginn varð ljóst að aukin misskipting var farin að valda alvarlegri félagslegri mismunun á Íslandi. Í skýrslu sem landlæknisembættið gaf út í apríl 1997 undir heitinu Heilbrigðisþjónustan, árangur og skipulag í nútíð og framtíð segir m.a., með leyfi forseta: ,,Gjalda ber varhug við frekari hækkun gjalda eða verulegum þjónustugjöldum, því að í óbirtri rannsókn landlæknisembættisins kemur í ljós að meðal barnafólks, sem hefur lægstar ráðstöfunartekjur á mánuði, er allstór hópur sem hefur frestað eða hætt við að leita læknismeðferðar og taka út lyf vegna fjárskorts.`` Í skýrslunni kemur fram að það er einkum á sviði tannlækninga sem fólk veigrar sér við að leita lækninga. Og ég vitna aftur í skýrsluna, með leyfi forseta: ,,Hér hefur orðið grundvallarbreyting á, því að fyrri rannsóknir benda ekki til misræmis í aðgengi fólks eftir stéttum og efnum.``

Hvers vegna er verið að vitna í þetta núna? Hvers vegna verja menn tíma sínum við umræður um tekjuskattsfrv. ríkisstjórnarinnar í að rifja þetta upp? Jú, vegna þess að þarna er beint samhengi á milli. Ég var að vekja athygli á því að samkvæmt mjög varfærnislegum og íhaldssömum útreikningum fjmrn. er gert ráð fyrir því að vegna skattkerfisbreytinga ríkisstjórnarinnar á þessu ári muni draga úr tekjum ríkissjóðs um tæpa 2 milljarða kr., um rúmar 1.800 milljónir. Þetta eru mjög varfærnislegir útreikningar.

Hvað á þá að gera? Á að skera niður? Við vitum að sú ríkisstjórn sem hér situr mun ekki skera þar sem fitan er mest. Hún mun halda áfram að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, beita þar niðurskurði, og reyna að innheimta það sem á vantar með svokölluðum notendagjöldum, auknum álögum á sjúklinga og skólafólk.

Þegar aðstöðugjöld fyrirtækja voru lækkuð á fyrri hluta tíunda áratugarins fylgdu rýrnandi kjör innan velferðarþjónustunnar jafnframt því sem álögur á sjúklinga jukust mjög. Í heilbrigðisþjónustunni hefur þetta leitt til stóraukinna útgjalda fyrir sjúklinga. Í árslok 2001 birti BSRB könnun sem unnin var í samráði við lækna um kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Tekin voru dæmi af sjö sjúklingum sem áttu við mismunandi veikindi að stríða og lagðir fram útreikningar á þróun kostnaðar þeirra á tímabilinu 1990--2001. Öllum þessum sjúklingum var fylgt í gegnum ráðlagða læknismeðferð í eitt ár og haldið til haga kostnaði þeirra yfir árið. Sama eða sambærileg meðferð var skoðuð á fimm ára fresti: 1990, 1996 og 2001. Niðurstaðan var mjög afgerandi. Í öllum tilvikum hafði kostnaður sjúklingsins stóraukist, í sumum hafði hann margfaldast. Samanburður af þessu tagi er alltaf erfiður. Það á t.d. við varðandi lungnaþembu. Á það ber einnig að líta að í sumum tilfellum er kostnaðarhlutdeild sjúklinga meiri en í þeim dæmum sem notuð voru í könnuninni og í öðrum tilfellum minni.

Þarna voru einstaklingar sem þjáðust af ofnæmissjúkdómum, þunglyndi, kransæðasjúkdómi og börn með eyrnabólgu, svo eitthvað sé nefnt. Hækkun á kostnaðarhlutdeild þessa fólks í baráttunni við sjúkdóm sinn jókst margfalt, um mörg hundruð prósent. Mest varð kostnaðaraukningin á fyrri hluta tíunda áratugarins. Þá var kostnaðarsprengingin mest, í tíð Sjálfstfl. og Alþfl.

Í stöku tilviki, t.d. varðandi þunglyndissjúklinga, hefur tekist að tefja, ekki aðeins að hægja á þróuninni heldur snúa henni aðeins við. Kostnaður þunglyndissjúklings jókst á árabilinu 1990--1996 um 177,83%, en minnkaði 1996--2001 um 2,9% en það er ekki dæmigert. Í flestum tilvikum heldur kostnaðurinn áfram að aukast allan tíunda áratuginn þó að heldur hægi á. Hvers vegna hægir á? Jú, vegna þess að stjórnarandstaða, samtök sjúklinga, öryrkja og verkalýðshreyfing beita sér gegn þessari þróun. Það er mikil ástæða til þess við umræður um skattkerfisbreytingar að minna á þetta samhengi hlutanna.

Þegar við lækkum skatttekjur ríkissjóðs eða sveitarfélaga er aðeins um tvennt að velja. Annar kosturinn er að draga úr útgjöldum. Ég væri þess vegna tilbúinn að leita leiða til að gera það á ýmsum sviðum, t.d. í utanríkisþjónustunni, í framlögum til NATO og til rándýrra sendiráða víða um heim, þar sem menn fylgja að mínum dómi úreltri stefnu. Þar stöndum við í of dýrum fjárfestingum og þar er stillt upp valkostunum sendiráð eða ekki sendiráð. Enginn lætur sér koma til hugar að það sé hægt að verja minni fjármunum til þessarar þjónustu.

Við erum til viðtals um að leita leiða til sparnaðar en það er ekki þarna sem skorið er niður. Það er ekki á þessum sviðum. Það er skorið niður við þá sem minnstar hafa tekjurnar. Þetta er bara staðreynd. Hvað gerist ef stjórnvöld eru ekki reiðubúin að spara og skera niður þegar á heildina er litið? Jú, kjör þessa fólks rýrna vegna þess að dregið er úr millifærslum úr kerfinu og á móti kemur aukin kostnaðarþátttaka. Þetta er samhengi hlutanna, hið pólitíska samhengi þessa frv. sem hér um ræðir.

Í frv. er gert ráð fyrir ýmsu sem lýtur að sjálfri skattaframkvæmdinni. T.d. fór fram talsverð umræða um það í efh.- og viðskn. hver ætti að setja reglur um reiknað endurgjald. Á það að vera á hendi embættis ríkisskattstjóra eða á hendi fjmrn.? Ríkisskattstjóri sagði í umsögnum sínum til efh.- og viðskn. að á Norðurlöndunum væri þetta alls staðar þannig --- ef ég man rétt, ég held ég fari rétt með það --- að embætti ríkisskattstjóra eða samsvarandi embætti hefði þetta verk með höndum. Svo var að skilja á ríkisskattstjóra að ef þetta væri flutt til fjmrn., því að í 4. gr. er gert ráð fyrir að fjmrh. eigi að staðfesta reglur sem komi frá embætti ríkisskattstjóra, þá yrði um tvíverknað að ræða vegna þess að báðir aðilar hlytu að byggja á sömu forsendum.

Ekki voru allir sannfærðir um að svo væri. Þegar farið var að grandskoða lögin kom fram að þar er ekki að finna mjög traustar lagastoðir fyrir þessari reglusmíð. Þá er spurningin þessi: Hvernig á að tengja þetta pólitískri, lýðræðislegri ábyrgð? Hvernig á að tengja pólitíska þræði þarna inn og gera þetta að lýðræðislegum ákvörðunum?

Mín skoðun er í fyrsta lagi að mér finnst eðlilegt að reyna að treysta lagarammann sem slíkar reglur byggja á og hafa þær í eins ríkum mæli og unnt er staðfestar með lögum. Að einhverju leyti er þetta eflaust erfitt en mér finnst eðlilegt að þetta sé á ábyrgð fjmrh., að hann komi á einhvern hátt við sögu þannig að við getum komið á framfæri gagnrýni utan úr þjóðfélaginu á þessa framkvæmd.

Einnig var rætt um hvort menn ættu að hafa rétt til málskots til yfirnefndar sem hefði eitthvert úrskurðarvald í þessu efni. Ég kemst ekki að annarri niðurstöðu en þeirri að einnig það byggðist á lokuðu kerfi. Úrskurðarnefnd yrði væntanlega að byggja á sömu lagastoð og við erum að kvarta yfir að sé ekki nægilega skýr. Þegar þetta allt kemur saman er það mín skoðun að þessi breyting geti ekki talist til ills.

Síðan var talsvert rætt um 8. gr. frv. Þar ætla ég að vitna, með leyfi forseta, í minnihlutaálit mitt. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Ljóst er af umsögnum ríkisskattstjóra að æskilegt hefði verið að vinna breytingartillögurnar sem lúta að skattaframkvæmdinni betur og má í því sambandi vísa til umsagnar hans um 8. gr. frumvarpsins sem veitir skattstjóra heimild til að fara með skatteftirlit í fleiri en einu skattumdæmi. Embætti ríkisskattstjóra leggst ekki gegn þessari lagabreytingu en segir engu síður að ekki sé ástæða ,,til að gera hana eina út af fyrir sig og ekki fyrr en gerðar eru aðrar nauðsynlegar breytingar á skipulagi skatteftirlits og það fé lagt í skatteftirlit sem það þarf til að það geti orðið með viðunandi hætti.````

Ég vek athygli á því sem þarna kemur fram hjá ríkisskattstjóra, að honum finnst að þurft hefði að koma til gagnger endurskoðun á skatteftirlitinu í landinu og ekki æskilegt að taka einstaka þætti út úr með þessum hætti.

[16:00]

Hins vegar kom fram að þessar tillögur sem hér hafa ratað inn í nokkrar greinar lagafrv. og lúta að skattframkvæmdinni byggja á starfi nefndar --- sem að vísu klofnaði --- en tillögusmíðin byggir á meiri hluta þessarar nefndar sem fjmrn. fékk til að fara í saumana á skattframkvæmdinni. En ég vek athygli á þessum varnaðarorðum ríkisskattstjóra, að eðlilegra og æskilegra hefði verið að gera heildstæðari breytingu á lögunum hvað þetta varðar.

Með nál. 2. minni hluta fylgja fylgigögn sem eru mjög athyglisverð fyrir þær sakir hve samhljóma þau eru. Í þeim öllum er sami tónninn sleginn en þau koma frá Öryrkjabandalaginu, samtökum eldri borgara, Alþýðusambandi Íslands og BSRB.

Ég ætla hér í lokaorðum mínum að víkja í örfáum orðum að helstu atriðum sem þar koma fram en í umsögn Landssambands eldri borgara (LEB) segir, með leyfi forseta:

,,Tvö meginefnisatriði frumvarpsins vill LEB gera athugasemdir við, þ.e. breytingar skv. 2. grein þess á 8. lið 31. greinar laganna, um tveggja ára lengingu heimilda til þess að nýta fyrra rekstrartap til skattafrádráttar.

Hitt efnisatriðið er skv. 13. grein frumvarpsins um framlengingu svokallaðs sérstaks tekjuskatts, en jafnframt um lækkun álagsprósentunnar úr 7 í 5%.

Landssamband eldri borgara telur, að því er varðar þessi tvö efnisatriði um lækkun álagsprósentunnar og framlengingu frestsins til að nýta fyrri töp til skattalækkunar, að þar sé farið alrangt að ef líta eigi til jafnræðissjónarmiða.

Skattar á rekstraraðilum eru stórlega að lækka um þessar mundir vegna annarra skattalagabreytinga og einnig hafa skattar á lægstu tekjur sífellt verið að hækka að undanförnu vegna lækkandi hlutfalls skattleysismarka miðað við tekjur.

LEB sýnist því farið alrangt að með þessar tvær meginefnisbreytingar sem frumvarpið felur í sér.``

Þetta er úr umsögn Landssambands eldri borgara þar sem áherslur ríkisstjórnarinnar í skattamálum eru gagnrýndar.

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands er hér einnig að finna en áður en ég vík að henni ætla ég aðeins að taka undir það atriði sem fram kom í umsögn Landssambands eldri borgara, að á sama tíma og létt er skattbyrði af fyrirtækjum, skattleysismörk hátekjufólksins hækkuð og skattprósentan hjá þeim lækkuð gerist það að allra tekjulægsta fólkið er farið að greiða skatta. Atvinnulaus maður með rúmlega 73 þús. kr. greiðir þriðjunginn af því sem er yfir skattleysismörkunum, sem eru rúmar 70 þús. kr. nú um stundir.

Í umsögn Öryrkjabandalags Íslands segir m.a., með leyfi forseta:

,,Öryrkjabandalag Íslands mótmælir því harðlega að ráðgert skuli að ganga enn lengra í því að auka skattbyrði á öryrkja og nýta þá tekjulind til að létta sköttum af ráðamönnum og öðrum þeim sem hæstar hafa tekjurnar. Þess vegna leggst Öryrkjabandalagið eindregið gegn því að framangreint frumvarp verði samþykkt og varar þingmenn mjög við þeirri freistingu sem í því er fólgin.

Athygli vekur að í frumvarpinu er ekki einungis lagt til að hinn sérstaki hátekjuskattur verði lækkaður úr 7% í 5%, heldur einnig að tekjumörkin gagnvart þessu skattþrepi verði enn einu sinni hækkuð hlutfallslega mun meira en skattleysismörk lífeyrisþega, svo mjög að nú lætur nærri að þau hafi náð þingfararkaupi.``

Þegar þingmenn eru varaðir við að falla í þá freistingu að samþykkja þetta frv. er Öryrkjabandalagið væntanlega að vísa til þess að einhver hagsmunatengsl kunni að vera hjá þeim tekjuhópi sem er að finna í þessum sal. En áfram segir, með leyfi forseta:

,,Hafa ber í huga að frá 1992 til 2003 hafa skattleysismörk lífeyrisþega hækkað úr kr. 60.144 í kr. 69.603 á mánuði, eða um 15,7%, sem nær ekki helmingi þess sem verðlag hefur hækkað á sama tíma og er órafjarri almennri launaþróun. Á hinn bóginn er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að hækka tekjumörk hátekjuskatts í rúmar 340 þúsund krónur á mánuði. Samþykki þingmenn þessi áform hafa þeir á umliðnum áratug, frá 1993 til 2003, hækkað þessi tekjumörk úr kr. 203.340 á mánuði í kr. 340.788, eða um 68%, langt umfram þróun verðlags á þessu tímabili og margfalt á við þróun skattleysismarka öryrkja.

Öryrkjabandalag Íslands skorar á alþingismenn að sýna þá siðferðisábyrgð að létta álögum af öryrkjum áður en þeir lagfæra enn frekar sín eigin kjör.``

Er það ekki umhugsunarefni sem hér kemur fram? Er það ekki umhugsunarefni þegar borin er saman hækkun á skattleysismörkum öryrkjans --- sem hæstv. félmrh. vísaði á bug að yrðu leiðrétt, það kæmi ekki einu sinni til skoðunar eða athugunar í ríkisstjórn --- og þróun skattleysismarka hátekjumannsins? Þar er ekki saman að jafna. Það er alltaf verið að hækka skattleysismörk hátekjumannsins, núna upp í rúmar 340 þús. kr., á meðan hinir hafa hækkað miklu minna og eru í kringum 70 þús. kr., hafa hækkað um 15,7% samkvæmt útreikningum Öryrkjabandalagsins á þessu árabili frá 1992--2003 á sama tíma og skattleysismörk hátekjumannsins hafa hækkað um 68%. Þetta eru útreikningar Öryrkjabandalagsins og við eigum að taka þá alvarlega. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er að reyna að koma einhverjum boðum til mín, ég skil ekki alveg hver þau eru en ég geri fastlega ráð fyrir að hún sé að taka undir það sem hér er sagt. (JóhS: Það er rétt.) Það er rétt, segir hv. þm.

Í umsögnum Alþýðusambands Íslands og BSRB kveður mjög svo við sama tón. Alþýðusambandið rifjar upp fyrri ályktanir, m.a. frá 7. nóvember 2001. Þar sagði, með leyfi forseta:

,,Alþýðusambandið hefur sett fram alvarlega gagnrýni á fyrirhugaðar skattbreytingar ríkisstjórnarinnar og telur að með þeim sé vegið að kjörum almenns launafólks. Kjarni þeirrar gagnrýni sem Alþýðusambandið hefur sett fram er í raun þríþættur en snýst í grundvallaratriðum um að verði þessar tillögur að lögum, sé verið að færa skattbyrðina yfir á laun og vinnu, af eignum og fjármagni.``

Hér var væntanlega að hluta til verið að vísa í hækkun tryggingagjaldsins sem var þá heldur meiri en hún verður þó við þær breytingar sem menn eru að gera núna vegna þrýstings frá samtökum launafólks og að hluta til frá atvinnulífinu. Þetta var talið koma illa þeim fyrirtækjum sem væru með fjölda starfsmanna á sínum vegum og gæti stuðlað að því að þau reyndu að draga saman seglin, það væri heppilegra að hafa skattlagninguna í öðru formi.

Ég ætla ekki að lesa upp þessar ályktanir Alþýðusambandsins eða BSRB. Það er mjög svipaður tónn í þeim og rímar algerlega við það sem kemur frá Öryrkjabandalaginu og samtökum eldri borgara. Í álitsgerð sem kom fram frá BSRB á svipuðum tíma og sú sem ég vitnaði í frá Alþýðusambandi Íslands í byrjun nóvember í fyrra voru uppi nákvæmlega sömu varnaðarorð og síðan hafa náttúrlega öll gengið eftir.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra. Ég mæli fyrir brtt., annars vegar um að greinin sem kveður á um lengingu á afskriftatíma falli niður og að fallið verði frá hugmyndum um að lækka hátekjuskatt um 2% og að við höldum okkur við 7% á háar tekjur í stað 5%. Í rauninni þyrfti að lagfæra margt annað í þessu skattafrv. og ég mun horfa til þess sem kemur frá öðrum stjórnarandstöðuþingmönnum í því efni. Því miður er ekki að vænta mikillar hjálpar innan úr stjórnarliðinu, alltént er þar fylgt allt annarri stefnu, allt öðrum áherslum, en við höfum haft uppi í stjórnarandstöðunni þótt í seinni tíð finnist á því heiðarlegar undantekningar, og horfi ég þar á hv. þm. Kristin H. Gunnarsson.