Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 16:33:39 (2378)

2002-12-10 16:33:39# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[16:33]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hv. þm. hvort líta megi á há skattleysismörk og háa prósentu þar fyrir ofan sem einhvers konar niðurgreiðslu á lágum launum af hendi ríkisins, jafnframt að með því að skattleggja háar tekjur mjög hátt sé í raun verið að bola burt háum tekjum úr landinu þannig að þetta hafi þau áhrif að draga til landsins lágtekjustörf og fæla frá hátekjustörf.

Þá vildi ég gjarnan hafa orð á því, og þykir ánægjulegt að heyra það, að hv. þm. lítur ekki á lág laun sem persónueinkenni, eins og sumir þingmenn hér í salnum virðast gera. Þeir tala iðulega um fátækt fólk og bláeygt í sömu andránni en virðast ekki gera sér grein fyrir því að fólki er í lófa lagið að breyta tekjum sínum, annaðhvort með því að mennta sig, með því að sækja um aðra vinnu, sýna snilli, dugnað eða nýta reynslu sína.

Ég er sammála hv. þm. um að lág laun eru engin einkenni á einum einstaklingi. Það er ekki hægt að tala um hóp fólks sem láglaunafólk sem verði það um alla framtíð. Ég er mjög ánægður með að heyra að hv. þm. geri ráð fyrir því að einstaklingurinn hafi heilmikið um það að segja hvaða tekjur hann hefur.