Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 16:35:08 (2379)

2002-12-10 16:35:08# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[16:35]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. tekst að misskilja eða vill misskilja orð mín eins og hann hefur áður gert. Ég lít ekki svo á að þetta kerfi sé niðurgreiðslukerfi, boli frá hálaunafólki eða laði sérstaklega láglaunafólk til landsins. Ég held að málið snúist ekki um það. Ég held hins vegar að skattleysismörkin hindri hærri laun. Lág laun eru blettur á samfélagi okkar. Það er fjarstæða sem hv. þm. heldur hér fram, að fólk ráði laununum sínum með því að fara bara í annað starf eða vinna meira. Þetta er bara fjarstæða. Fólk á ekki þessa möguleika í samfélagi okkar. Bæði erum við með samningsbundið fyrirkomulag á launamarkaði. Það er samið um þessi laun og skömmin er beggja ef svo má segja, bæði verkalýðsfélaga og vinnuveitenda, að semja um laun sem duga ekki til framfærslu. En það að segja að hægt sé að skipta um vinnu eða fara annað og bæta sér þannig upp tekjur er út í hött. Hv. þm. veit greinilega ekkert í hvers konar samfélagi hann lifir.

Málið snýst um að lágu launin eru of lág hér á landi. Ég er að tala um þetta nýja samfélag. Við jafnaðarmenn viljum ekki að fullfrískt vinnandi fólk hafi ekki í sig og á. Þar er fátæktin sem við erum hér að glíma við. Að hv. þm. skuli koma hér upp og segja að það sé bara hægt að skipta um vinnu og fá hærri laun einhvers staðar annars staðar sýnir í hnotskurn muninn á milli stefnu okkar jafnaðarmanna og talsmanna Sjálfstfl. í þessari umræðu.