Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 16:42:44 (2383)

2002-12-10 16:42:44# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[16:42]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson getum vafalítið fundið ýmislegt í skattstefnunni sem við erum sammála um. Ég gagnrýni skattstefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart fyrirtækjum, að þar hafi líklega verið gengið aðeins of langt. Ég hef ekki á móti því að þessi skref væru stigin. Þau hefðu mátt vera ívið styttri --- ég kveð ekki fastar að orði.

Það sem mér finnst hins vegar alveg vanta í skattbreytingar síðustu ára eru ívilnanir gagnvart einstaklingum og gagnvart litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Það er líka hægt að sjá fyrir sér ívilnanir gagnvart eldri borgurum. Þau rök eru t.d. mjög sterk að láta lífeyrissjóðsgreiðslur skattleggjast í fjármagnstekjuskattsþrepi.

Varðandi fjármagnstekjuskattinn sem hv. þm. nefndi má einmitt benda á að upp er kominn galli á því kerfi sem við bentum á á sínum tíma, að vera með tvöfalt kerfi fyrir tekjur, þ.e. greiða mismunandi skatt eftir því hvort menn eru með launatekjur eða fjármagnstekjur. Þetta leiðir til þess að fjölmargir taka frekar tekjur sínar inn sem fjármagnstekjur í stað launatekna, þeir sem það geta. Þetta er vandamál sem við bentum á á sínum tíma. Útfærsla fjármagnstekjuskattsins var ekki góð. Hins vegar var það samþykkt af þáverandi meiri hluta.

Auðvitað leiðir lágur tekjuskattur fyrirtækja til þess að smátt og smátt aukast skatttekjur ríkisins á því sviði. Það eru fyrst og fremst einstaklingarnir, fólkið í landinu, sem við í Samfylkingunni erum að tala fyrir í tengslum við nauðsynlegar breytingar í skattamálum.