Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 17:10:56 (2385)

2002-12-10 17:10:56# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[17:10]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir yfirferð hans yfir þetta mál, þ.e. að skýra þá þrjá fyrirvara sem hann hefur á þessu máli. Það er ákaflega athyglisvert. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. hvort fleiri framsóknarmenn hafi efasemdir um þetta eins og hér hefur komið fram og styðji ekki þetta frv. eins og það er hér og nál. meiri hlutans. Í öðru lagi: Ef svo er ekki, þ.e. að ekki efist fleiri framsóknarmenn, hvers vegna er þá hv. þm. einn með þessar skoðanir sem ganga í átt að stefnu okkar jafnaðarmanna? Hv. þm. er svona einn og yfirgefinn í þingflokki framsóknarmanna hvað þetta varðar.