Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 17:12:25 (2386)

2002-12-10 17:12:25# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[17:12]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór yfir málið og ég verð að segja eins og er að ég var honum sammála í flestu af því sem hann talaði um. Það sem vakti athygli mína var að hv. þm. lét það ekki koma fram hvort hann væri að tala sem formaður þingflokks Framsfl. eða bara fyrir sína hönd. Mér finnst það dálítið óþægilegt einfaldlega vegna þess að hlutverk þingflokksformanna er yfirleitt að endurspegla skoðanir þingflokka og tala fyrir hönd þeirra. Ég tel að full ástæða sé til þess að spyrja hv. þm. að því hvort hann sé að tala fyrir hönd þingflokksins og hvort það sé þá verulegur ágreiningur milli ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli því að ég tel víst að stjórnarandstaðan í heild sinni sé nokkurn veginn sammála því sem hv. þm. var að segja áðan um rekstrartöpin t.d. Þess vegna er full ástæða til þess að spyrja eftir þessu sem ég er hér að tala um.

Mér finnst þetta ganga langt fram yfir það sem eðlilegt er, þ.e. að geyma tíu ár í rekstrartöpum. Allir vita að ný fyrirtæki sem eru stofnuð t.d. lifa mörg hver ekki nema tvö, þrjú, fjögur ár. Kannski lifa 25--40% af fyrirtækjum lengur. Rekstrartöp fyrirtækja sem ekki ganga upp og hafa verið rekin með tapi í einhvern tíma eru orðin að gjaldmiðli og ganga á markaðnum. Ætla stjórnvöld að gera þetta að verslunarvöru og taka á sig alla áhættuna með tapi á skattfé?