Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 17:21:35 (2392)

2002-12-10 17:21:35# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, KLM
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[17:21]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum hér, þ.e. frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, hefur skapað mikla umræðu, eins og hér hefur komið fram. Frv. þessu má skipta niður í nokkuð marga kafla. Aðalatriði þess er náttúrlega annars vegar að framlengja og lækka hátekjuskattinn, um leið og tekjumörk eru hækkuð og hins vegar, eins og segir í nál. 1. minni hluta flokkssystkina minna úr Samfylkingu, að auka skattaívilnanir til fyrirtækja með því að heimila þeim að draga ónýtt rekstrartöp frá tekjum í atvinnurekstri, að það gildi í tíu ár í stað átta ára eins og nú er. Að ekki sé talað um lítils háttar hækkun á persónuafslætti, eða 107 kr., sem verkalýðshreyfingin knúði fram á þeim tíma er hún tók að sér stjórn efnahagsmála á Íslandi og bjargaði því sem hægt var að bjarga þegar ríkisstjórnin hafði gefist upp.

Það er rétt að fara yfir þá kafla sem hér hefur mest verið rætt um, þ.e. varðandi auknar skattaívilnanir til fyrirtækja með breytingu á lögunum varðandi rekstrartap, þ.e. heimild til nýtingar þess í tíu ár í stað átta ára. Hér hefur verið farið mjög vel yfir þetta. Það hefur komið fram, sem auðvitað er hárrétt, að mörg skref hafa verið stigin til að létta sköttum af fyrirtækjum, af lögaðilum á Íslandi. Það hefur að sama skapi ekki verið gert fyrir almennt launafólk, barnafjölskyldur, námsmenn, lífeyrisþega og atvinnulaust fólk, eins og kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta.

Frysting skattleysismarka og mikil skerðing barnabóta til þessara hópa hefur verið nýtt til að kosta miklar skattalækkanir stórfyrirtækja og auðmanna. Mikil lækkun verður á tekjuskattsgreiðslum fyrirtækja á næsta ári vegna lækkunar á skatthlutfalli þeirra úr 30% í 18%. Áætlaðar tekjuskattsgreiðslur þeirra verða 8.250 millj. kr. Ég segi aðeins 8.250 millj. kr. vegna þess, eins og fram hefur komið hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni sem fór mjög vel yfir þetta dæmi og bar saman við önnur ríki OECD, að þetta eru náttúrlega smáaurar sem lögaðilar greiða í tekjuskatt á Íslandi miðað við það sem einstaklingar borga, að maður tali nú ekki um önnur dæmi sem hægt er að taka af skattkerfi okkar Íslendinga. Að óbreyttu hefðu tekjurnar orðið 13.800 millj. kr. miðað við óbreytt skatthlutfall eins og hér kemur fram.

Menn hæla sér af því og eru ánægðir með að lækka enn skatta af fyrirtækjarekstri. Þess vegna hefði maður haldið að nóg væri komið í þessa áttina. Hins vegar á enn að bæta í, auk þess að breyta hlutfallinu úr 30% í 18%, og taka tekjur frá ríkissjóði með því að búa til þessa breytingu varðandi skattatap, að skattaívilnun vegna taps nái til tíu ára í stað átta áður. Þetta er sýnu verra þegar haft er í huga það sem fram hefur komið á fundum hv. efh.- og viðskn. í gögnum frá ríkisskattstjóra. Þar er sérstaklega vitnað í það sem hér kemur fram. Ríkisskattstjóri fjallar þar um síðustu eitt til tvö ár, þar sem tap hefur verið orðið mikið, svo að ég grípi aðeins niður í nál. 1. minni hluta með leyfi forseta:

,,Ríkisskattstjóri bendir á í umsögn sinni að yfirfæranleg rekstrartöp hafi farið mjög hækkandi á síðustu árum þrátt fyrir að afkoma og rekstrarskilyrði hafi ekki farið versnandi að sama skapi.``

Orðrétt segir ríkisskattstjóri:

,,Má gera ráð fyrir að hækkun rekstrartapa á síðustu tveimur árum skýrist að verulegu leyti af hækkun erlendra skulda vegna gengisbreytinga og að einhverju leyti af hækkun innlendra verðtryggðra skulda. Um hvort tveggja gildir að hækkun skuldanna er að fullu gjaldfærð þegar í stað. Getur þetta valdið miklum sveiflum á bókhaldslegu tapi og frestað skattlagningu mjög. Setja má spurningu við réttmæti þessara reglna, einkum eftir að verðbólgureikningsskil hafa verið afnumin.``

Hér er vakin athygli á afnámi verðbólgureikningsskila og því að ekki var hreyft við ákvæðum gjalda eða tekjufærslu á gengismun eða verðbótum sem geta haft meiri áhrif á skattalega rekstrarafkomu, yfirfæranlegt tap o.s.frv.

Herra forseti. Þetta er vert að hafa í huga og miðað við breytingar og það tap sem myndast hefur hjá fyrirtækjum á síðasta ári vegna þessa sem hér hefur komið fram, vegna gengisfellinga og annarra þátta þá skulum við hafa í huga að þeir sem halda um ríkissjóð eftir 2010, árin 2011 og 2012, munu, miðað við það sem hér kemur fram, missa töluvert af tekjum vegna þess vitleysisgangs sem átti sér stað í efnahagskerfi landsmanna árið 2002. Þetta er rétt að hafa í huga nú. Á þessum tíma ríkti vaxtaokur og óðaverðbólga. Afleiðingar þess erum við að sjá nú, atvinnuleysi og síðast en ekki síst, það sem er kannski allra verst, samdrátt. Þetta er rétt að hafa í huga, herra forseti, við þessa umræðu vegna þess að hér er verið að gera þessar breytingar, þ.e. varðandi afskriftir á tapi.

Herra forseti. Ég hlustaði á hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, formann þingflokks framsóknarmanna, lýsa fyrirvara sínum í þessu máli þar sem hann fór í söguskýringu á breytingu á tekjuskatti lögaðila úr 50% ofan í 18% og breytinguna á þessum árum sem hægt hefur verið að nýta sér tap fyrri ára, sem hann hélt að hefðu verið fimm til sex ár. Ég minntist þess er reglur voru rýmri hvað varðar tap fyrirtækja og skuldir fyrirtækja gengu kaupum og sölum. Þá kom upp í huga minn að Framsfl. fór á sínum tíma í þann bisniss að selja rekstrartap blaðs sem Framsfl. gaf út á árum áður. Mig minnir að það hafi heitið Nútíminn. Við vitum ekki hvernig flokkurinn stendur í þessu máli. Það kemur ekki fram hvort hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er þar einn og yfirgefinn eins og oft í sérmálum þar sem hann gengur gegn flokki sínum eða hvort fleiri framsóknarmenn fylgja með. Það verður að bíða atkvæðagreiðslu vegna þess að ekki fékkst svar við því nú.

Ég held, herra forseti, að hv. þm. standi einn í þessu máli með þá fyrirvara sem hann hefur lýst og þeir séu ekki fleiri framsóknarmennirnir sem taki þá sjálfstæðu afstöðu sem hann gerir. Aðrir hv. þm. Framsfl. láta Sjálfstfl., sem sumir kalla eignarhaldsfélag Framsfl., teyma sig áfram í þessu máli. En þá verður þetta náttúrlega hjáróma rödd sem lítið verður gert með og lítið hlustað á, standi hann þar einn, að maður tali ekki um ef hv. þm. ætlar að vera fjarverandi eða sitja hjá. Þá leggst lítið fyrir kappann.

[17:30]

Herra forseti. Það verður líka að hafa í huga þegar verið er að tala um skattgreiðslur fyrirtækja og þær breytingar sem hafa verið gerðar og stjórnarsinnar hæla sér mjög af, þ.e. þessum breytingum, þá skulum við enn einu sinni rifja upp hvernig hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn fara í skattkerfisbreytingar sem gagnast stórlega fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Reykjavík og á Reykjanesi, en fyrirtæki í öllum öðrum skattumdæmum landsins tapa á. Það var margfarið yfir það hér þegar við vorum að ræða þetta mál í vor að skattalegur ávinningur fyrirtækja í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi var áætlaður 2.700 millj. kr., þ.e. vegna breytinga á tekjuskattinum úr 30% í 18%, vegna þeirra breytinga á eignarskatti sem var verið að gera, en fyrirtæki í öllum öðrum skattumdæmum tapa á þessari breytingu.

Þá kemur auðvitað í ljós enn einu sinni hvernig ríkisstjórnin ræðst í raun og veru að landsbyggðinni með Framsfl. innan borðs, sem oft og tíðum hefur á tyllidögum, sunnudögum, hælt sér af því að vera flokkur landsbyggðar. Þarna kemur bersýnilega í ljós, herra forseti, hvernig Framsfl. hefur algjörlega farið frá því að reyna að verja landsbyggðarfólk eða atvinnurekstur á landsbyggðinni. Þessi skattkerfisbreyting er gott dæmi um það. Ég ætla ekki enn einu sinni að rifja upp þau orð sem hæstv. félmrh. hafði um sinn flokk, hvernig hann hefði gleymt landsbyggðinni í markaðssetningu sinni á malbikinu á höfuðborgarsvæðinu.

Það er sorglegt, herra forseti, að fyrirtækjarekstur á landsbyggðinni sem á mjög í vök að verjast, m.a. líka út af samdrætti og öðrum sköttum sem ríkisstjórnin hefur verið að leggja á, fær ekki að sitja við sama borð og atvinnurekstur á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna heldur áfram að kvarnast úr og draga úr þrótti fyrirtækja á landsbyggðinni til að sækja fram og nýta sér þá möguleika sem eru. Þau fyrirtæki eru að borga allt aðra skatta til ríkisins. Skulum við þá bara taka dæmi af flutningastarfsemi, hvernig flutningafyrirtæki greiða ótal skatta til ríkissjóðs og eru búin að borga þá í öðrum sköttum sem bera annað nafn en tekjuskatt og eiga þess vegna ekkert eftir, engan hagnað, til að njóta ávaxtanna af tekjuskattslækkuninni sem gerð var á síðasta vori. Þetta er ákaflega mikilvægt, herra forseti, að hafa í huga.

Ég nefndi áðan ræðu hv. þm. Ágústs Einarssonar sem var ákaflega yfirgripsmikil. Hann fór yfir það á mjög faglegan hátt, eins og hans er von og vísa, hvernig t.d. skuldir heimilanna hafa hækkað svo mikið, að nú eru þær um 180% af ráðstöfunartekjum. Þetta er hin hliðin á málinu, herra forseti, hvernig einstaklingar, almenningur og fjölskyldufólk hefur verið látið sitja eftir í að fá skattalegan ávinning en skattar á þeim aðilum, barnafólki sem öðrum, hafa verið að hækka eins og fram hefur komið, bæði í fjölmiðlum og frá fulltrúum Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn.

Það er þannig núna, herra forseti, að fjölmargir, almenningur í landinu, ungt fólk sem er að hefja búskap, barnafólk og fólk á miðjum aldri nær varla endum saman þrátt fyrir vinnu myrkranna á milli, þrátt fyrir að bæði hjón vinni úti nær þetta ekki saman. Rétt er að rifja þetta hér upp í tíð velmektarríkisstjórnar atvinnufyrirtækjanna sem við ræðum um.

Og hvernig hv. þm. Ágúst Einarsson dró það fram hér sem er svo sem ekki nýtt, en er nýtt í umræðunni og hefur ekki komið hér fram, hvernig skattar einstaklinga eru miklu hærra hlutfall hér en í öðrum OECD-löndum og að fyrirtæki borgi aðeins helming að meðaltali. Fram kemur, sem reyndar allir vissu, að einstaklingar borga hér miklu meira í tekjuskatt til ríkissjóðs en góðu hófi gegnir, að maður tali nú ekki um veltuskattinn, virðisaukaskattinn, sem ég man ekki nákvæmlega hvaða tala er en mig minnir að það séu einar 80 millj. sem ríkissjóður innheimtir í formi virðisaukaskatts.

Þetta ásamt þeirri skattkerfisbreytingu sem ég hef farið hér yfir gagnvart litlum og meðalstórum fyrirtækjum, gagnvart atvinnurekstri á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðið annars vegar, sýnir það og sannar að ríkisstjórnin er á kolvitlausri leið. Ekki er tekið tillit til þessara þátta og þess vegna er auðvitað ekki hægt að leggjast í það að samþykkja ýmsar tillögur sem fram hafa komið, m.a. vegna þess að ekki er tekið á sköttum almennings í landinu.

Það ánægjulegasta kannski við þetta allt saman er þegar maður lítur á dagatalið að þá er hægt að fara að telja niður dagana þar til við losnum vonandi við þá ríkisstjórn sem nú situr í landinu.

Herra forseti. Það þjóðfélag sem við byggjum nú og það skattkerfi sem er svo vitlaust gefið í, eins og hér hefur komið fram, á ekkert skylt við þau þjóðfélög sem við erum oft að bera okkur saman við, enda er það kannski stærsta atriðið sem hefur komið fram að þetta er ekki þjóðfélag sem jafnaðarmenn hafa tekið eins mikinn þátt í að byggja upp og í nágrannaþjóðfélögum sem við berum okkur saman við, þ.e. í Skandinavíu.

Þess vegna er ákaflega mikilvægt að hér komist að völdum ríkisstjórn sem hefur meiri jöfnuð í heiðri, sem vill útrýma því misrétti sem er milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og vill ganga í það að jafna lífskjör í landinu, vill ganga í það að lagfæra skatta almennings og segir að komið sé nóg í skattafslætti til lögaðila.

Einnig er rétt að hafa í huga, herra forseti, að við samþykkt fjárlaga fyrir nokkrum dögum féll ríkisstjórnin frá því að lækka stimpilgjöld um 900 millj. kr. Stimpilgjöld eru mjög ósanngjarn skattur, sama hvort það er á einstaklinga eða lögaðila. Því var sleppt, herra forseti, að þessu sinni til að klambra saman fjárlögum og einnig er rétt að hafa í huga, herra forseti, þegar hv. formaður efh.- og viðskn., Vilhjálmur Egilsson, talaði um það að þessi skattkerfisbreyting skilaði sér ákaflega vel, eða býsna vel eins og hv. þm. sagði, þ.e. hann var að vitna í þá 3 milljarða sem fjmrh. dró upp úr töfrahatti sínum á síðustu mínútum áður en fjárlagafrv. var sett saman til að setja örlítið betri niðurstöðutölu á heldur en raun hefði annars orðið. Það á eftir að koma í ljós hvort það gangi eftir. Vonandi er það svo.