Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 20:08:17 (2403)

2002-12-10 20:08:17# 128. lþ. 50.36 fundur 426. mál: #A breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn# (vinnutími) þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[20:08]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég mun fagna því sérstaklega ef til stendur að fella fleiri stéttir undir vinnutímatilskipunina, og hæstv. utanrrh. vísaði þar sérstaklega til unglækna, þ.e. lækna í starfsnámi. Þetta hefur verið deiluefni hér á landi og krafa af hálfu unglækna að þeir falli undir vinnutímatilskipunina. Ég skal játa að ég hef ekki kynnt mér efni þessarar þáltill. en vek athygli þingsins á því hve mikilvægt það er að við gerum einmitt það. Þessi þáltill. vísar til samninga sem lúta að öryggi, hollustuháttum á vinnustöðum, vinnurétti o.s.frv. Hér hefur komið fyrir Alþingi frv. um þetta efni, um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, sem hefur valdið nokkrum deilum milli Samtaka atvinnurekenda annars vegar og samtaka launafólks hins vegar. Því miður gerðist það á síðasta þingi að fjmrn. tók sömu afstöðu og Samtök atvinnurekenda höfðu tekið til þess frv. með tilheyrandi skerðingum sem varð til þess síðan að samtök launafólks lögðust gegn frv.

En ástæðan fyrir því að ég hef þennan formála er þessi: Hér fáum við í hendur þáltill. sem vísa inn í reglugerðaverk Evrópusambandsins og þá hættir okkur til að samþykkja þær athugunarlaust en tökum síðan upp íslenska löggjöf og skoðum hana í þaula. Ég er ekki að gagnrýna þessa þáltill., ég hef ekki forsendur til að meta hana, heldur hvet til þess að við séum á varðbergi gagnvart því sem við erum að samþykkja.