Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 20:24:29 (2410)

2002-12-10 20:24:29# 128. lþ. 50.7 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv. 161/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[20:24]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er tekið til 3. umr. frv. til laga um fjármálafyrirtæki --- (JB: Ekki þriðju, annarrar.) til 2. umr. Þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að leiðrétta mig --- sem við höfum fjallað um í efh.- og viðskn. Ég hef skrifað undir nál. meiri hluta efh.- og viðskn. með fyrirvara. Ég styð meginefni frv. en hef fyrirvara um einstakar brtt. meiri hlutans og hef einnig flutt sérstakar brtt. við frv. sem miða m.a. að því að styrkja stöðu sparisjóðanna í landinu.

Hér er á ferðinni löggjöf sem vissulega er í framfaraátt og þó að ekki sé að finna hér veigamiklar efnisbreytingar frá gildandi mörgum lagabálkum sem um fjármálamarkaðinn fjalla er hér verið að færa þá lagabálka í ein heildarlög um fjármálafyrirtæki sem er til framfara. Það er til mikilla bóta að einfalda löggjöfina með slíkum hætti, bæði fyrir fjármálafyrirtækin og fyrir þá sem þjónustunnar njóta sem um leið að tryggja réttarstöðu þeirra og auka alla skilvirkni í fjármálaþjónustu.

Frv. um verðbréfafyrirtæki sem nátengt er þessari lagasmíð liggur einnig fyrir efh.- og viðskn. Æskilegt hefði verið að gildistaka þessara lagabálka um fjármálamarkaðinn tækju gildi samtímis en það verður auðvitað að hafa sinn gang því mikilvægt er að efh.- og viðskn. gefi sér þann tíma sem þarf til að fjalla ítarlega um frv. um verðbréfafyrirtæki sem hefur að geyma almennar hegðunarreglur á verðbréfamarkaði og réttindi og skyldur fjármálafyrirtækja í verðbréfaviðskiptum.

Þetta frv. aftur á móti um fjármálafyrirtæki sem við ræðum nú hefur að geyma allar heimildir fjármálafyrirtækja til starfsemi, svo sem starfsleyfi, ákvæði um eiginfjárhlutfall og verkaskiptingu milli viðskrn. og Fjármálaeftirlitsins, t.d. um ytra og innra starfsumhverfi fjármálstofnana sem ég tel afar mikilvægt að séu skýrar, gegnsæjar og skilvirkar.

Fjármálamarkaðurinn hér vex hratt sem og fjármagnsflæði milli landa. Með aukinni alþjóðavæðingu er afar þýðingarmikið að búa að traustri og skilvirkri fjármálalöggjöf sem veitir fjármálafyrirtækjunum nauðsynlegt aðhald í almannaþágu.

Fjármálalöggjöfin og eftirlitsstofnanir með fjármála- og verðbréfamarkaðnum verða að veita ríkt aðhald með markaðnum og skapa traust og trúverðugleika á fjármálalífi þjóðarinnar. Jafnframt þarf að veita nauðsynlegt og eðlilegt svigrúm til að fjármagnsflæði milli landa geti gengið eðlilega fyrir sig, m.a. þarf löggjöfin að aðlaga sig að þeirri staðreynd að starfsemi fyrirtækja eða dótturfélaga þeirra er að færast í auknum mæli milli landa og gæta þarf að því að virtar séu allar aðhaldsreglur og eðlilegar leikreglur fjármálalífsins við slíkar aðstæður en frv. tekur m.a. til starfsemi erlendra fyrirtækja hér á landi. Veikleikar í fjármálakerfinu, að ekki sé talað um veikleika í reglum á þeim markaði, eru alvarleg ógn við stöðugleika fjármálamarkaðarins og alla almannahagsmuni.

Í heild tel ég að vel hafi tekist til varðandi samningu þessarar löggjafar og ástæða til að fagna því framtaki. Við í Samfylkingunni styðjum megininntak þessara laga þótt ýmsar athugasemdir sé hægt að gera um einstaka þætti hennar og hefði ég m.a. viljað sjá styrkari ákvæði um eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja og ákvæði um meiri takmarkanir á atkvæðarétti og eignarhlut í fjármálafyrirtækjum.

Stigið er skref í átt til þess að herða á eiginfjárákvæðum fjármálafyrirtækja og að auka heimildir eftirlitsaðila í því sambandi eins og Fjármálaeftirlitið hefur margkallað eftir.

Með frv. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ákvarða hærra eiginfjárhlutfall en 8% fyrir þau fjármálafyrirtæki sem talin eru hafa ófullnægjandi fjárhagsstöðu með hliðsjón af áhættustigi. Einnig er sett skýrari verkaskipting milli Fjármálaeftirlitsins og viðskrn. að því er varðar setningu reglna á fjármálamarkaði. Ýmis ákvæði í frv. eru þar til verulegra bóta eins og að Fjármálaeftirlitið veiti og afturkalli starfsleyfi í stað viðskrh.

Mestur tími nefndarinnar fór í að ræða þau ákvæði frv. sem treysta eiga yfirtökuvarnir sparisjóðanna. Þegar frv. um að breyta sparisjóðum í hlutafélag var hér á Alþingi á 126. þingi studdum við í Samfylkingunni þá breytingu að sparisjóðum væri veitt heimild til að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag og töldum mikilvægt að sparisjóðirnir hefðu þennan möguleika.

Eftir þær hræringar sem orðið hafa með SPRON í sumar kom sú skoðun mjög afdráttarlaust fram í efh.- og viðskn. um meðferð þessa frv. sem hér er til umræðu að forsvarsmenn sparisjóðanna töldu ólíklegt að sparisjóðir gætu breytt rekstrarformi sínu og að mikilvægt væri að sparisjóðirnir hefðu þennan möguleika samfara miklum breytingum sem orðið hefðu á fjármálamarkaðnum en með því hefðu þeir betri möguleika til þess að auka eiginfjárstöðu sína.

[20:30]

Við, fulltrúar Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn. á 126. löggjafarþingi, fluttum brtt. við frv. þá. Mér sýnist ekki minni þörf á því nú ef raunin verður sú að sparisjóðirnir breyti ekki rekstrarformi sínu á næstunni. Breytingin fól í sér hvata til að fjölga stofnfjáreigendum. Við gagnrýndum þá að út frá viðskiptalegu sjónarmiði og almannahagsmunum hefðu stofnfjáreigendur mikil völd í krafti tiltölulega lítils eignarhluta. Má nefna sem dæmi að í árslok 1999 voru framlög stofnfjáreigenda um 1.500 millj. kr., af samanlögðu 10,6 milljarða eigin fé sparisjóðanna, eða um 14%. Heildarmarkaðsvirði sparisjóðanna var þá tvöfalt meira. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er í dag en hlutfall stofnfjáreigenda í nokkrum sparisjóðunum var þá innan við 1%, en á milli 20 og 30% í nokkrum öðrum.

Það hefur verið gagnrýnt hvernig stofnfjáreigendur eru valdir. Þó það sé mjög misjafnt eftir sparisjóðum eru dæmi um mjög fjölmennan hóp stofnfjáreigenda þar sem stofnfé er ekki nema örlítið brot af eigin fé sparisjóðs. Ég held að það sé ekki hollt eðlilegri starfsemi fjármálaeigenda að stofnfjáreigendur myndi lokaðan klúbb þar sem fámennur hópur fólks ræður hverjir geta gerst stofnfjáreigendur. Það gengur gegn þeim vilja sem almennt ríkir hér í þjóðfélaginu um opið og lýðræðislegt þjóðfélag, þar sem jafnræði ríkir í leikreglum.

Svo ágætir sem sparisjóðirnir eru er á allan máta eðlilegra fyrir framgang og vöxt þeirra að starfsemi þeirra og aðgangur fólks að þeim sé sem opnastur. Það er bæði eðlilegt og æskilegt að sem flestir séu stofnfjáreigendur sparisjóðanna, burt séð frá rekstrarformi þeirra, og ekki séu óeðlilegar hindranir eða girðingar þar í vegi. Það styrkir viðgang og vöxt þeirra og treystir eiginfjárstöðu þeirra ef allir sem svo kjósa geta orðið stofnfjáreigendur með það að markmiði að ávaxta vel sitt pund um leið og þeir treysta þær stoðir og hagsmuni sem sparisjóðirnir eru reistir á.

Ein af þeim brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni lýtur einmitt að því að fjölga stofnfjáreigendum. Það er ástæða til að halda því til haga. Í brtt. sem nefndin fékk frá stjórn Sparisjóðs Kópavogs er farið fram á heimild til veðsetningar á stofnfjárhlut, sem er annar þáttur málsins, kom fram að dæmi eru um að sparisjóðir hafi á síðustu árum aukið eigið fé sitt verulega með sölu á stofnfé til almennings.

Í Sparisjóði Kópavogs var stofnfjáreigendum fjölgað um helming með þessum hætti. Þar eru stofnfjáreigendur 570 talsins, sem er auðvitað allt önnur og betri mynd af sparisjóði en í Hafnarfirði þar sem stofnfjáreigendur eru nokkrir tugir. Það er hálflokaður klúbbur þar sem örfáir stofnfjáreigendur hafa völd yfir miklu fjármagni úr öllu samhengi við stofnfjárhluta þeirra. Ef ég man rétt er stofnfé 6 milljónir í Sparisjóði Hafnarfjarðar en eigið fé 2,5 milljarðar. Stofnféð er þannig vel innan við 1% af eigin fé.

Stofnfjáreigendur fara með æðsta vald í málefnum sparisjóðanna og koma fram sem eigendur þeirra í krafti stofnfjárins. Það er auðvitað ljóst að það telst mun lýðræðislegra fyrirkomulag að opna fyrir almenning eins og lagt er til í brtt. okkar, að fólk geti með eðlilegum hætti gerst stofnfjáreigendur ef það svo kýs.

Tvær aðrar brtt. flyt ég ásamt hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni. Í frv. er kveðið á um að tengdir stofnfjáreigendur geti ekki farið með yfir 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Í umsögn frá Sambandi íslenskra sparisjóða er lögð til sú breyting á 70. gr. frv., varðandi atkvæðisrétt stofnfjáreigenda, að einstökum stofnfjáreigendum verði ekki heimilað að fara með meira en 5% af atkvæðamagni á fundi stofnfjáreigenda í stað þess að miða við heildaratkvæðamagn í sjóði. Ljóst er að vægi atkvæða samkvæmt núgildandi reglu ræðst mikið af mætingu á fund stofnfjáreigenda. Af því leiðir að vægi 5% atkvæða miðað við heildaratkvæðamagn getur verið talsvert ef mæting er dræm af einhverjum ástæðum.

Við tökum því upp þá tillögu sem Samband sparisjóða lagði fram í efh.- og viðskn., að ekki verði heimilað að fara með meira en 5% af því atkvæðamagni sem farið er með atkvæði fyrir á fundi.

Sömuleiðis lagði Samband íslenskra sparisjóða til breytingu að því er varðar hámarkshlut einstakra stofnfjáreigenda. Þeir lögðu til að tekin yrði upp sérregla í 40. gr. frv. varðandi skilgreiningu á virkum eignarhlut í sparisjóði og að miðað yrði við 5% nú þegar virki eignarhluti sparisjóðanna að því er atkvæðisrétt varðar er takmarkaður við 5% eins og ég nefndi. En í rökum sínum segir Samband íslenskra sparisjóða:

,,Ekki verður séð að rök séu fyrir því að hafa mismunandi viðmiðun varðandi atkvæðisrétt stofnfjáreigenda annars vegar og viðmiðun virks eignarhlutar hins vegar, enda er atkvæðisréttur sá þáttur sem vegur þyngst þegar virkni eignarhluta er metin.``

Þetta er í samræmi við það sjónarmið sem við í Samfylkingunni höfum talað fyrir, að leikreglur á fjármálamarkaðnum eigi að vera með þeim hætti að tryggja sem best dreifða eignaraðild til að koma í veg fyrir samþjöppun og fákeppni.

Samband sparisjóða leggur áherslu á að hámarkshlutur einstakra stofnfjáreigenda verði í samræmi við atkvæðisrétt og telur 10% viðmiðin í 40. gr. óeðlilega. Segja þeir að 10% eignarhlutur geti gert stöðu tiltölulega fárra aðila óhæfilega sterka innan sparisjóða. Í samræmi við þetta álit, umsögn Sambands íslenskra sparisjóða og í samræmi við afstöðu Samfylkingarinnar um nauðsyn dreifðrar eignaraðildar eru þessar tillögur fluttar.

Loks vil ég nefna tvær brtt. sem eru fluttar í samræmi við ábendingar Neytendasamtakanna. Við leggjum til breytingu á 19. og 25. gr. en Neytendasamtökin telja að vísun í 19. gr. til góðrar viðskiptavenju sé skírskotun til einhvers sem er afar lítið mótað, enda eru venjur á fjármálamarkaði hér á landi takmarkaðar. Um er að ræða leiðbeinandi reglur sem fjármálafyrirtækjum ber að starfa eftir. Neytendasamtökin leggja til að Fjármálaeftirlitið gefi út leiðbeinandi reglur og að það verði lögbundið í 19. gr. með eftirfarandi hætti, herra forseti:

,,Fjármálafyrirtæki skal starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, með trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Sömuleiðis skal fjármálafyrirtæki starfa í samræmi við leiðbeiningarreglur Fjármálaeftirlitsins um hvað teljist góðir viðskiptahættir fjármálafyrirtækis á hverjum tíma.``

Í þessu sambandi má nefna, herra forseti, að Fjármálaeftirlitið segir í umsögn sinni að ekki sé tekið á öllum ábendingum Alþjóðagjalderyissjóðsins í frv. Þó var við samningu frv. höfð hliðsjón af úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslenska fjármálamarkaðnum sem gerð var í lok þessa árs. Þar er einmitt bent á að það þurfi að styrkja þá þætti sem brtt. okkar fulltrúa Samfylkingarinnar lúta að og Neytendasamtökin hafa hvatt til að laga.

Sama má segja um 21. gr. Í 2. mgr. 21. gr. er horfið frá því að gera samþykki Fjármálaeftirlitsins að skilyrði fyrir því að fjármálafyrirtæki taki upp hliðarstarfsemi og farin sú leið að fjármálafyrirtæki beri að tilkynna um slíkt til Fjármálaeftirlitsins sem er vissulega veikleiki en ekki til að styrkja eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið hefur svo einn mánuð til að gera athugasemdir. Berist þær ekki innan mánaðar frá því tilkynning berst má fjármálafyrirtæki líta svo á að heimilt sé að hefja starfsemina.

Neytendasamtökin vilja halda óbreyttu fyrirkomulagi, þ.e. að samþykki Fjármálaeftirlitsins þurfi til að fjármálafyrirtæki sé heimilt að taka upp hliðarstarfsemi. Tillaga frumvarpsins, eins og þeir orða það hjá Neytendasamtökunum, býður þeirri hættu heim að starfsemi sem að mati Fjármálaeftirlitsins er ekki í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu fyrirtækis verði engu að síður hleypt af stokkunum líði mánaðarfresturinn fyrir mistök án þess að gerðar séu athugasemdir.

Við teljum þetta réttmætar athugasemdir, til þess fallnar að styrkja Fjármálaeftirlitið og í samræmi við það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerði ábendingar um fyrir einu eða tveimur árum og teljum rétt og eðlilegt að fella þetta inn í frumvarpið.

Ég vil í þessu sambandi líka minna á að í umsögn Fjármálaeftirlitsins kemur fram að frv. gerir ekki ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið fái jafnvíðtækar heimildir til reglusetningar og mælst er til í alþjóðlegum grunnreglum. Þetta kemur fram í umsögn Fjármálaeftirlitsins. Ljóst er að Fjármálaeftirlitið hefur einnig heimild og möguleika á að setja almenn leiðbeinandi fyrirmæli um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Ég tel rétt að styrkja þær heimildir. Þess vegna eru þessar brtt. fluttar sem ég hef hér lýst, herra forseti.

Ég tel mjög mikilvægt að meiri hluti efh.- og viðskn. skyldi taka upp ákvæði í samræmi við álit ríkisskattstjóra. Það átti að fella út úr, að mig minnir, 110. eða 111. gr. frv., afnám á skráningu kennitölu við innlánsreikninga. Hér segir í áliti meiri hlutans:

,,Í sjötta lagi bendir meiri hlutinn á að afnám skráningar kennitölu við innlánsreikninga, fjárvörslureikninga og geymsluhólf geti torveldað starfsemi fjármálafyrirtækja og opinberra aðila, svo sem skatteftirlit. Talið var að áskilnaður um kennitölu væri til óhagræðis fyrir erlenda viðskiptamenn íslenskra fjármálafyrirtækja sem hygðust opna innlánsreikninga. Í núverandi framkvæmd er þeim hins vegar úthlutað auðkennistölu af hálfu fyrirtækjaskrár Hagstofu Íslands og er ekki ástæða til að breyta þeirri framkvæmd.`` --- Afnám skráningar kennitölu mundi ekki breyta neinu þar um enda ekki gert ráð fyrir breytingu í þeirri framkvæmd.

Ég tel afar mikilvægt að halda inni þessari kennitölu sem auðveldar auðvitað allt skatteftirlit. Ég tel mikilvægt að efh.- og viðskn., meiri hlutinn, hafi tekið þetta inn í frv. á nýjan leik. Það er í samræmi við ábendingar skattstjóra.

Í öðru lagi er í nál., sem ég tel líka mikilvægt, tekið fram að hugmyndin með ákvæðum frv. sé ekki að taka á því sem ríkisskattstjóri hefur lagt megináherslu á að það er ekki verið að draga úr skyldum banka til þess að veita skatteftirlitinu upplýsingar samkvæmt lögum. Þannig er t.d. ekki ætlunin að þrengja heimildir skattyfirvalda, enda eru þær í sérlögum að því er varðar bankaleynd. Ég tel afar mikilvægt að þetta komi fram í nál. meiri hlutans. Hugmyndin er sem sagt ekki að þrengja heimildir skattyfirvalda til að fá upplýsingar hjá bankastofnunum og því er ekki verið að breyta neinu um aðgengi skattyfirvalda að upplýsingum.

Herra forseti. Brtt. meiri hlutans eru mikið tæknilegs eðlis og fela ekki í sér neinar veigamiklar efnisbreytingar, ef undan er skilin 74. gr. frv. Í nokkrum ákvæðum er þó hert á eftirlitsskyldu Fjármálaeftirlitsins, t.d. að þegar það metur fjárhagsstöðu umsækjanda sem hyggst eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki og kauptilboð hans virðist ekki eiga sér viðskiptalegar forsendur, hafi Fjármálaeftirlitið í einstaka tilvikum, eins og í 5. gr. frv., heimild til að krefja umsækjendur um starfsleyfi og aðrar upplýsingar en almennt er krafist í framkvæmd. Talin er þörf á slíkri heimild vegna þeirrar rannsóknarskyldu sem hvílir á Fjármálaeftirlitinu.

Ég vil vekja athygli á 27. gr. frv. Þar er kveðið á um að rekstrarfélög verðbréfasjóða skuli hafa með höndum rekstur verðbréfasjóða. Samkvæmt upplýsingum frá viðskrn. er hér verið að styrkja neytendavernd varðandi verðbréfasjóði, t.d. varðandi eignastýringu, treysta betur lagalegan aðskilnað milli rekstrar vegna eignastýringar, fjárfestingarráðgjafar og vörslu- og stjórnun fjármálagjörninga. Í þessu sambandi bendi ég á að ég tel að iðulega hafi ekki verið nægileg vörn í svokölluðum kínamúrum. Ég tel að mikil umsýsla verðbréfafyrirtækja sem sjálf eru með mikla eignaumsýslu fyrir eigin reikning geti leitt til hagsmunaárekstra þegar þeir sýsla jafnframt með eignasöfn viðskiptavina sinna.

Meginbreyting efh.- og viðskn. er við 74. gr., sem ég hef nokkrar efasemdir um. Þar er sett fram nokkurs konar dúsa til stofnfjáreigenda, sett eru fram matskennd ákvæði um aukna arðsvon af stofnfjárhluta við breytingu á sparisjóði í hlutafélag.

[20:45]

Hugmyndin með þessu eins og ákvæðið er sett fram er að eigandi stofnfjárhlutar sé jafnsettur fyrir og eftir hlutafélagavæðingu þannig að ákvæðið er hugsað sem hvati til að sparisjóður breyti sér í hlutafélag. Reynt var að tryggja þetta með lögunum frá í fyrra um sparisjóði þar sem m.a. var kveðið á um hlutafé sem stofnfjáreigendur fá sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína við hlutafélagavæðingu sparisjóðs. Þar var kveðið á um að samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fá í sparisjóðum skuli nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna og endurmetið stofnfé nemur samtals af áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins. Þetta ákvæði átti að tryggja að áætlað verðmæti hlutafjár stofnfjáreigenda væri hið sama og endurmetið stofnfé fyrir hlutafélagavæðingu sparisjóðsins.

Þetta vilja menn nú reyna að tryggja betur með því að setja inn ákvæði um að markaðsvirði sparisjóðsins sem og gagngjald fyrir stofnfjárhluti skuli metið af óháðum aðila og miðast við sama tímamark og breytingin á rekstrarformi sparisjóðsins.

Nýtt ákvæði sem meiri hluti efh.- og viðskn. leggur til er að við mat á hlut stofnfjár skuli hafa til hliðsjónar arðsvon og áhættu stofnfjárhluta samkvæmt 68. gr. annars vegar og arðsvon og áhættu hlutabréfa í sparisjóði hins vegar. Með þessu er verið að reyna að tryggja að stofnfjáreigendur séu jafnsettir fyrir og eftir hlutafélagavæðingu en leggja á til grundvallar, eins og það var orðað í skýringum með þessari breytingu, ,,vænt verðmæti hlutabréfa annars vegar og þekkt gildi stofnfjár hins vegar``. Hér er á ferðinni afar sérstætt ákvæði svo ekki sé meira sagt. Það er ekki bara matskennt og opið, heldur má segja að það gangi gegn þeim grunngildum sem sparisjóðalöggjöfin hefur byggt á um verðgildi stofnfjárhluta sem er nafnverð stofnfjár og breytist í samræmi við vísitiölu neysluverðs.

Varðandi verðgildi stofnfjárhlutar er ástæða til að rifja upp nokkur atriði í álitsgerð Páls Hreinssonar sem unnin var fyrir viðskrn. í september sl. um takmarkanir á eignarréttindum stofnfjáreigenda í sparisjóði. Þar kemur einmitt fram, herra forseti, að í 3. gr. laga um sparisjóði, nr. 44/1915, var tekið fram að stofnendur sparisjóða eða ábyrgðarmenn eða aðrir þeir er kynnu að hafa lagt fram fé til starfrækslu sparisjóða, hvort heldur er stofnfé eða greitt ábyrgðarfé, mættu ekki fá hærri arð eða vexti af slíku fé en 6 af hundraði á ári.

Í almennum athugasemdum frumvarps þess er varð að lögum nr. 69/1941, um sparisjóði, er tekið fram að sparisjóð eigi að reka með hag sparifjáreigenda og almennings fyrir augum, en ekki til arðs fyrir stofnendur þeirra, enda séu ákvæði í lögum sem eiga að sjá um að arður þeirra geti ekki orðið nema hverfandi.[...]

Í athugasemdum við 4. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 69/1941, um sparisjóði, er tekið fram að réttara virðist að miða vexti af stofnfé og greiddu ábyrgðarfé við það að þeir séu ákveðnir hærri en vextir af innlánsfé. Var því lagt til að þeir mættu aldrei vera meira en 1% hærri en innlánsvextir.``

Síðan segir enn fremur í álitsgerð Páls Hreinssonar:

,,Þegar öllu er til skila haldið virðast lög nr. 44/1915 og lög nr. 69/1941, um sparisjóði, hafa byggt á þeim meginreglum að hagnaður skyldi ekki greiddur til þeirra sem lagt hefðu stofnfé til sparisjóðs heldur skyldi hann ganga til innri uppbyggingar sjóðsins.

Sett voru ný lög um sparisjóði árið 1985, þ.e. lög nr. 87/1985, um sparisjóði. Í 4. mgr. 1. gr. laganna er tekið fram að sparisjóðsaðilar hafi ekki rétt til ágóða af rekstrarafgangi sparisjóðs umfram það sem mælt sé fyrir um í lögunum. Enn fremur sé eignarréttur stofnfjáreigenda á stofnfé háður þeim takmörkunum sem lögin kveði á um.``

Ég vísa til þessa, herra forseti, í álitsgerð Páls Hreinssonar sem staðfestir það sem ég segi, að það gangi gegn þeim grunngildum sem sparisjóðalöggjöfin hefur byggt á um verðgildi stofnfjárhluta sem er nafnverð stofnfjár og breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs. Með vísan til þess, herra forseti, sem ég hef sagt um þessa breytingu, þar sem með afar matskenndum hætti er reynt að auka verðgildi stofnfjárhluta við breytingu á sparisjóði í hlutafé og gengið á svig við þau grunngildi sem sparisjóðalöggjöfin hefur byggt á um verðgildi stofnfjárhluta, tel ég að þetta ákvæði hefði þurft miklu meiri skoðunar við en auðið var á þeim tíma sem nefndin hafði til að fjalla um málið.

Svo má alveg halda því til haga, herra forseti, hvort þeir þingmenn sem kynnu að eiga stofnfjárhlut í sparisjóði séu til þess bærir að greiða atkvæði um þetta ákvæði sem á að auka verðgildi stofnfjárhluta, a.m.k. gengi það ekki í þeim þjóðþingum sem sett hafa þingmönnum almennar siðareglur sem svona ákvæði mundi tvímælalaust falla undir.

Hér eru engar siðareglur til, herra forseti, á hv. Alþingi þannig að ég geri ráð fyrir að þeir þingmenn sem líka eiga stofnfjárhluta greiði hér atkvæði og taki þátt í atkvæðagreiðslu um það að auka verðgildi stofnfjárhluta sem ég tel afar óeðlilegt.

Herra forseti. Ég hef lýst þeim brtt. sem ég hef flutt, þeim athugasemdum sem ég geri við þetta frv. og læt máli mínu lokið.