Tryggingagjald

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 20:54:03 (2412)

2002-12-10 20:54:03# 128. lþ. 50.8 fundur 181. mál: #A tryggingagjald# (lækkun gjalds o.fl.) frv. 134/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[20:54]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. frá efh.- og viðskn. skrifa ég undir það með fyrirvara. Ástæðan er að meginhluta til sú að ég vil halda til haga í þessari umræðu þegar verið er að lækka tryggingagjaldið að kröfu aðila vinnumarkaðarins eins og formaður nefndarinnar nefndi, hver tilurð þessarar hækkunar á tryggingagjaldið var. Hún kom fram þegar ríkisstjórnin beitti sér fyrir stóru skattalagabreytingunni sem fyrst og fremst gagnaðist fjármagnseigendum, auðmönnum og stórfyrirtækjum, og það var gert á kostnað lítilla og meðalstórra fyrirtækja með því að hækka verulega tryggingagjald, að mig minnir um 2,7 milljarða, til þess að geta gengið óeðlilega langt í lækkun á tekjuskatti á stórfyrirtæki eins og við höfum reyndar farið í gegnum þegar í dag í tengslum við breytingar ríkisstjórnarinnar á tekjuskattsfrv. Þetta er liður í þeirri röngu skattstefnu þessarar ríkisstjórnar að leggja álögur á lítil og meðalstór fyrirtæki, sprotafyrirtæki, en þarf að fórna kostnaðinum til þess að geta farið með tekjuskattshlutfallið úr 30% í 18%.

Hér er verið að snúa aðeins til baka af þessari röngu braut. Það er gert í tengslum við kjarasamninga og samkomulagið við aðila vinnumarkaðarins þar sem tryggingagjaldið er lækkað um 0,27%. Í staðinn fyrir 2,7 milljarða sem lagðir eru á þessi fyrirtæki eru álögurnar sem fyrirtækin fá á sig á næsta ári um 2 milljarðar kr.

Ég tel það óeðlilega og ranga stefnu að þær miklu skattalækkanir sem m.a. koma fram í tekjuskatti fyrirtækja á næsta ári bitni á þeim fyrirtækjum sem fá á sig þessar álögur. Við höfum séð það, t.d. í tekjuáætlun fjárlaga, að tekjuskattar á stórfyrirtæki gefa um 8,2 milljarða á næsta ári í stað þess að þeir hefðu gefið 13,8 milljarða ef tekjuskattshlutfallinu hefði ekki verið breytt. Ef farið hefði verið í 25% tekjuskatt sem við í Samfylkingunni lögðum til hefði ekki þurft að leggja þennan skatt á lítil og meðalstór fyrirtæki með hækkun tryggingagjalds en engu að síður hefðum við á næsta ári haft í tekjuskatt um 11 milljarða kr. í stað 8 milljarða sem tekjuskattur á fyrirtæki mun gefa í ríkissjóð á næsta ári.

Það er óþarfi, herra forseti, að endurtaka þá umræðu sem fram fór í dag. Við erum að fjalla um frv. sem endurspeglar ranga skattstefnu ríkisstjórnarinnar sem er í því fólgin að færa skatta af stórfyrirtækjum og fjármagni yfir á lífeyrisþega og fólk með lágar og meðaltekjur. Þeirri skattstefnu mótmæli ég og á því er fyrirvari minn reistur.