Tryggingagjald

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 21:08:04 (2415)

2002-12-10 21:08:04# 128. lþ. 50.8 fundur 181. mál: #A tryggingagjald# (lækkun gjalds o.fl.) frv. 134/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[21:08]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Fyrir ári síðan fór fram mikil umræða um hækkun á tryggingagjaldi, en þar var ríkisstjórnin að ná sér í tekjur til að geta lækkað skatta á fyrirtækjum sem eru með mikinn hagnað. Ég ætla ekki að rifja upp þá umræðu nú, vil bara minna á hana. Ég tel að hér sé á ferðinni röng stefna. Sú áhersla á að leggja gjöld á fyrirtæki á grundvelli þess hve margir vinna hjá fyrirtækjunum er ekki skynsamleg. Hún minnir svolítið á þá stefnu sem var uppi á sínum tíma þegar aðstöðugjöld voru lögð á fyrirtæki sem voru í engu samræmi við afkomu þeirra og tryggingagjaldið er svo sannarlega ekki í neinu samræmi við afkomu fyrirtækjanna. Það leggst á fyrirtækin eftir því hvað þau bera mikil útgjöld vegna starfsmanna og það var í sjálfu sér ankannalegt og ömurlegt að sjá að menn skyldu nýta sér þann tekjustofn til þess að fjármagna það að geta lækkað skattinn hjá þeim sem gera það gott, hafa mikinn hagnað af rekstri sínum, að það skyldi vera fjármagnað með þeim hætti.

Þó svo að hér hafi orðið lítils háttar lagfæring, það er kannski ekki rétt að nota orðið lítils háttar, um er að ræða töluverða breytingu frá því sem áætlað var til lækkunar á gjaldinu frá því sem menn ætluðu sér að hækka það í og sú lækkun á fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar sem hér hefur birst var knúin fram með samningum af hálfu verkalýðshreyfingarinnar. Það er því búið að slíta undan nöglum ríkisstjórnarinnar hluta af þeirri hækkun sem hún ætlaði sér að framkvæma með hækkun tryggingagjaldsins.

Út af fyrir sig er hægt að fagna því að því leyti sem það gengur í áttina til baka. En ég er sannfærður um að fyrirtæki á landsbyggðinni og fjölmörg fyrirtæki sem þurfa mikinn mannskap vegna starfsemi sinnar munu eiga eftir að lenda í verulegum útgjöldum vegna þessa og það er ekki skynsamlegt að auka útgjöld með þeim hætti sem hér er gert af hinu opinbera.

Ég er alveg sannfærður um að menn gengu lengra í fyrra en góðu hófu gegndi og það er ekki skynsamlegt sem hér hefur gerst, að lækka tekjuskatt fyrirtækja niður í 18%, meðan tekjuskattur einstaklinga er enn þá í 38% og að fjármagna það með því að færa gjöldin yfir á þau fyrirtæki sem borga tryggingagjaldið.

Ég vildi bara minna á þá umræðu í þessu sambandi og ætla ekki að segja meira um það.