Lífeyrissjóður sjómanna

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 22:09:49 (2422)

2002-12-10 22:09:49# 128. lþ. 50.10 fundur 355. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (elli- og makalífeyrir) frv. 151/2002, GHall
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[22:09]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað í þessu máli. Öllum þykir það miður að svo skuli vera komið með Lífeyrissjóð sjómanna að hann þurfi að skerða réttindi sjóðfélaga með þessum hætti sem hér er gert, þótt það hafi líka komið fram í máli hv. þm. sem hér hafa talað að farið er að tillögu stjórnar sjóðsins og eins mildilega á þessu máli tekið sem frekast er unnt.

En af því að ég kom nokkuð við sögu þessa máls á sínum tíma og hef rætt um það oft áður úr þessum ræðustól þá ætla ég aðeins að hlaupa á nokkrum þáttum málsins, ekki að hafa langa ræðu um það, svo ljóst sem það liggur fyrir nú eftir ræður þingmanna. Ég get þó ekki látið hjá líða að skerpa á því sem gerðist í upphafi og ég tók þátt í og átti þar fundi með ráðherrum til lausnar þeirri fiskveiðideilu sem þá stóð yfir og sem gekk m.a. út á það þá að öll verkalýðshreyfingin hafði fengið svokallaða félagsmálapakka sem byggðust á ýmist hækkunum í orlofssjóð, sjúkrasjóði eða öðru sem ég man ekki nákvæmlega hvernig var leyst en væri vissulega full ástæða til að taka upp og skoða hvernig farið var með.

En á sama tíma og enn í dag eru fiskimenn eða stéttarfélög fiskimanna að fá greidda í sjúkrasjóði fasta krónutölu á meðan öll önnur verkalýðsfélög í landinu hafa greiðslur í sjúkrasjóði sem prósentuhlutfall af launum.

Þegar þetta var á sínum tíma rætt, eins og kom fram hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, þá voru gefin eftir 3% í fiskverði af hálfu fiskimanna og menn féllu líka frá 3% hækkun kauptryggingar. Þetta var því engin smáinngreiðsla sem sjómenn lögðu inn á móti þeirri hugsanlegu breytingu sem þarna var í umræðunni um að sjómenn gætu hafið töku lífeyris við 60 ára aldur, eftir 25 ára starf, að meðaltali 180 daga á ári.

En þegar kom síðan að framkvæmd þessa máls þá var það nú svo að ríkissjóður taldi sig ekki bera neinar byrðar eða skuldbindingar í sambandi við þetta mál og hefur hér verið rakin sagan um málaferli o.s.frv. hvernig málinu lyktaði öllu.

En það er eins og fram hefur komið varðandi örorkuna og oft hefur verið talað um hér, að athyglisvert er að sjá að í skiptingu lífeyris er Lífeyrissjóður sjómanna að borga 42% í ellilífeyri en 43% í örorkulífeyri. Og það eru fleiri sjóðir sem eru svona settir.

Ég bendi t.d. á Lífeyrissjóð Austurlands sem borgaði í ellilífeyri 43% af heildarútborgun en 45% í örorkulífeyri. Sama á við um Lífeyrissjóð Vestmannaeyja sem er að borga 40% í ellilífeyri en 45% í örorkulífeyri. Þetta staðfestir það sem fram hefur komið áður og liggur náttúrlega ljóst fyrir hjá Tryggingastofnun ríkisins að slysatíðni er hvergi nokkurs staðar jafnmikil í neinni starfsgrein og hjá sjómannastéttinni. Aukinheldur er það annað sem kallar á og liggur ljóst fyrir að sjómenn eyða 25% meiri orku við það að stíga öldu og starfa um borð í skipi heldur en þeir sem hafa fast land undir fótum. Allt þetta hjálpast að sem veldur því að örorkan er ekki kannski eingöngu vegna slysa heldur vegna þess að mikið álag er á sjómenn þegar þeir eru við störf sín um borð í skipi. Og ekki hefur það minnkað með komu frystitogaranna, það er alveg ljóst.

Það er annað í þessu líka sem fram hefur komið, að menn hafa látið þau orð falla að líklega sé Lífeyrissjóður sjómanna eitt stærsta tryggingafélag, sem styður --- ja léttir á skyldugreiðslum útgerðar ef tryggingar væru með öðrum hætti en raun ber vitni. Ég er ekki frá því að þetta sé rétt, að hér þurfi virkilega að taka á málum og skoða og eins og hv. síðasti ræðumaður kom inn á í sambandi við lausn þessara mála. Ég held að full ástæða sé til þess að þetta mál sé alvarlega skoðað og farið ofan í kjölinn á því hvort ekki sé rétt að finna annan flöt á málinu þannig að ekki þurfi nú að koma til aftur eða oftar skerðing greiðslna úr Lífeyrissjóði sjómanna.

Ég veit ekki hvernig er farið með það þegar sjómenn sækja staðgengilslaun sín til útgerðar eða Tryggingastofnunar ríkisins, hvernig sú sjóðsmyndun verður til í Tryggingastofnuninni, hvort sú upphæð er tekin af óskiptum afla sem þar lendir inni til greiðslu staðgengilslauna fiskimanna, en það er mál sem ásamt öðru þarf auðvitað að skoða og sjá hvernig hægt er að finna lausn á, eins og nefnt var áðan, þannig að skerðingar þurfi ekki að vera á þann veg eins og verið hefur.

Herra forseti. Ég hef áður á mörgum þingum þegar málefni Lífeyrissjóðs sjómanna hafa komið til umræðu farið yfir þennan flöt frá upphafi þess að félagsmálapakkar voru framreiddir, ef svo má segja, af hálfu stjórnvalda 1980 ef ég man rétt og hvernig sjómenn lentu þá á skjön við það sem gerðist annars staðar í verkalýðshreyfingunni. Þar af leiðandi tel ég mig ekki hafa ástæðu til að eyða tíma Alþingis lengur vegna þessa máls, en mun styðja það frv. sem hér liggur fyrir.